föstudagur, júlí 20, 2007

Happy Days

Eftir um það bil 5 tíma mun ég bruna á gullmolanum mínum heim í dýrðina og dásemdina á Káta daga. Mikið hlakka ég til :)

sunnudagur, júlí 15, 2007

Sumarið er tíminn

til að vinna, loksins þegar sólin skín í Reykjavíkinni fyrir sunnan :)

Veit ekki alveg hvar ég á að byrja á þessu bloggi því það er mikið búið að gerast í Gullulandi síðan síðast. Síðan síðast þá hef ég ...

  • Haldið eitt stykki kveðjupartý í Danmörku og djammað með góðu fólki fram undir morgun (meira að segja búin að setja inn myndir af því)
  • Farið á Skagen með Áróru, Ásgeiri Karli og Evu Katrínu og notið lífsins eins og drottning. Þar var ströndin í aðalhlutverki og stóð sig vel.
  • Tekið síðasta hringinn á skemmtistöðum Árósa (allavega í bili)
  • Pakkað niður lífinu í Danmörku
  • Verið á barmi taugaáfalls - ekki skrýtið þegar þráhyggjan flytur á milli landa ;)
  • Kvatt svo mikið af fólki sem mér þykir vænt um
  • Flutt heim til Íslands
  • Hitt fullt af fólki sem mér þykir skemmtilegt
  • Farið í skemmtiferð í Skagafjörð og Húnavatnssýslur með vinnunni minni - mikið ofboðslega var það gaman
  • Kíkt á djammið í Reykjavíkinni sem hefur nákvæmlega ekkert breyst frá því ég fór til Danmerkur nema hvað að núna kemur maður ekki heim og angar eins og öskubakki - sem er hér um bil eini kosturinn við djammið í Reykjavík
  • Farið á Kántrýball þar sem vinkonuhópurinn minnkaði meðalaldurinn all svakalega og þar sem við vorum allar búnar að komast á séns eftir korter - vorum ekki lengi af augljósum ástæðum ;)
  • Grillað með dömunum (+Gumma og Ása) og planað Barcelonaferð í haust
  • Keypt mér bíl - hann er alveg gullfallegur og klæðir mig svo vel.
  • Keyrt norður á Strandir með Svönu þar sem við vorum ekki alveg klárar á miðstöðvartækninni í nýja bílnum - skemmst frá því að segja að við önduðum vel að okkur útblæstri annarra bíla í Hvalfjarðargöngunum.
  • Eytt 150% yndislegri helgi í Sunndal (í Bjarnarfirði á Ströndum) enda ekki við öðru að búast þegar tímanum er eytt með jafn miklu eðal fólki og þarna var á ferðinni. Svoleiðis aldeilis hægt að draga í sig orkuna á Ströndunum og hlaða batteríin.
  • Keypt mér glös í Kaupfélaginu á Drangsnesi (það bara hreinlega varð að koma fram þar sem farin var sérstök skoðunarferð í Kaupfélagið þegar ég fékk guided tour um Strandirnar)
  • Spilað Uno, Asna og ömmuspil þar sem Helga Björg átti gullkorn ferðarinnar: "Þetta spil er svo mikið damn it að ég er að drepast í fótnum."
  • Fengið búslóðina mína eftir aðeins rétt tæpa mánaðarbið og fengið að borga arm og fótlegg í toll fyrir hana - mikið var það nú ánægjulegt!
  • Farið í rafting með þeim eðalpæjum, Siggu og Möttu og vá hvað það var gaman. Stökk meira að segja tvisvar ofan af klettinum og út í Hvítá. Þetta verður pottþétt gert aftur - nú er bara að finna aðeins erfiðari á ;)

Næst á dagskrá fyrir utan vinnu er að fara heim í dýrðina og dásemdina á Happy Days næstu helgi. Er orðin svo spennt fyrir því að komast heim og hitta alla og svo ekki sé talað um hvað verður gaman að komast á alvöru ball :) Mamma á svo afmæli helgina á eftir þannig að ég verð heima í sumarfríi og aldrei að vita nema maður skelli sér í bakstur svona í tilefni af merkisdeginum :)