17. júní mættur á svæðið og ekkert betra en að sofa í sólbaði á nýja sólpallinum sem er bara að gera góða hluti. Skálagerðisíbúar, þ.e. ég, Tóta og Anna og Halldóra og Gummi, lögðum í það þrekvirki að loknum próflestri að skella upp þremur sólpöllum á einni viku og geri aðrir betur. Við nutum dyggrar aðstoðar Höddu, Ása og Línu og ekki var verra að pabbinn kom í bæinn akkúrat til að hjálpa frumburðinum. Er almennt talið að fegurri og betri sólpallar hafi aldrei litið dagsins ljós norðan alpafjalla en sökum þess að myndavélin mín gaf upp öndina af ókunnum ástæðum um daginn eru engar myndir til af herlegheitunum en hér má sjá myndirnar hennar Tótu úr pallasmíðinni.
Svo má nú ekki gleyma að minnast á að kvenfélagsdömurnar Halldóra og Rán útskrifuðust á laugardaginn sem leikskólakennari og lífeindafræðingur og fengu fullt af fullorðinsstigum í kladdann - bara duglegar. Sigga lögfræðiskvísa útskrifaðist líka á laugardaginn og er því orðinn fullgildur lögfræðingur stelpan. Til hamingju með þetta allar þrjár :o)
Í tilefni sumarsins hef ég gerst göngugarpur mikill, búin að fjárfesta í útbúnaði til að príla upp á hvaða fjall sem er og bara verið sæmilega dugleg við að nýta hann. Við Sigga fórum í gærkvöldi í miðnæturgöngu yfir Leggjabrjót með Útivist og löbbuðum í 6 tíma með stórum hópi fólks. Það var bara gaman og veðrið æðislegt þó svo að hnén hafi aðeins verið farin að kvarta þegar komið var á leiðarenda. Um helgina er svo stefnan tekin á Strandirnar ásamt Svönu minni og Binna og Ingu og Friðbirni og ætlum við að ganga um 16 kílómetra frá Djúpuvík og yfir í Sunndal í Bjarnafirði, yfir Trékyllisheiði. Ég er orðin yfirmáta spennt og viss um að þetta getur ekki annað en lukkast vel :)
Annars gengur lífið bara sinn vanagang eins og alltaf, vinnan fín og ég alveg að hafa mig í að byrja á lokaverkefninu mínu sem stefnan er að skila um áramótin. Þá lýkur vonandi setu minni á skólabekk, allavega í bili.
þriðjudagur, júní 17, 2008
Hæ hó jibbí jei
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)