sunnudagur, apríl 12, 2009

Gleðilega páska!

Ótrúlegt hvað tíminn er fljótur að líða. Allt í einu eru komnir páskar og sumarið á næsta leyti. Ekki nóg með það að ég sé búin með ritgerðina sem ég hélt að ég myndi aldrei klára (allavega ekki með þeim hætti að ég héldi geðheilsunni) heldur er ég líka útskrifuð og byrjuð að vinna á fullu. Þegar ég byrjaði í lögfræðinni sá ég ekki fyrir endan á þessu blessaða námi og á tímabili var ég alveg ákveðin í því að hætta þessu bara því þetta ætti ekki við mig en ótrúlegt en satt þá hafðist þetta allt saman og nú get ég bara unnið eins og alvöru manneskja og þarf aldrei að fara í skóla meir.

Páskafríið hefur einkennst af almennri leti, lestri góðra bóka og handavinnu og ég notið þess í botn að vera ekki að vinna upp lestur í einhverju fagi eða að byrja próflesturinn. Helmingurinn af kvenfélaginu var með páskadinner í gærkvöldi sem var mjög vel heppnaður, sérstaklega sérlega páskatertan hennar Höddu sem var vel skreytt í tilefni dagsins :) Við systur ætlum svo að græja eitthvað gott saman í kvöld þannig að maður verður að passa sig að borða ekki yfir sig af páskaegginu stóra og góða :)

Gleðilega páska gott fólk, vona að þið hafið haft það gott í páskafríinu og njótið þess sem eftir er :)