fimmtudagur, júlí 27, 2006

Nýr staður - nýtt líf

Brottför kl. 7:15 í fyrramálið - Sjáumst á næsta ári - nema ef einhverjir skyldu ákveða að bregða sér í reisu til Danmerkur á næstunni!

miðvikudagur, júlí 26, 2006

Spes

Er eðlilegt að pakka í fimmta skiptið ofan í sömu töskuna ... maður spyr sig!

þriðjudagur, júlí 25, 2006

IKEA here I come

Búin að fjárfesta í svaka skrúfgræju þannig að IKEA hillurnar verða ekkert mál! Já, nú er ég sko orðin atvinnumaður í IKEA-samsetningum.

föstudagur, júlí 21, 2006

Pælingar

Skrýtið hvernig ákveðnir dagar hafa meiri merkingu í lífi manns en aðrir. Maður ýmist heldur uppá þá eða vildi helst gleyma þeim. Svo eru aðrir sem maður myndi aldrei vilja gleyma þó maður tali ekkert sérstaklega mikið um þá.

Ef einhver hefði sagt mér á þessum degi fyrir 10 árum síðan að dagurinn í dag ætti eftir að renna upp og að ég ætti eftir að geta litið til baka og brosað, hefði ég sagt að sá hinn sami væri algerlega greindarvísitöluskertur. En.. dagurinn er kominn og þó þessi dagur fyrir 10 árum hafi verið einhver lengsti og erfiðasti dagur sem ég hef upplifað þá get ég ekki annað en brosað að öllum minningunum því þegar upp er staðið eru það þær sem lifa áfram.

fimmtudagur, júlí 20, 2006

Tiltekt

Já, það er óhætt að segja að maður finni ýmislegt áhugavert þegar maður pakkar sér niður. Gömul símakort frá hinum ýmsu útlöndum vöktu upp gamlar og góðar ævintýraminningar :) Bara gaman af því.

Er annars ekki að fíla þessar þjóðhátíðarauglýsingar - bara leiðindi að komast ekki í pollagallann og gúmmískóna þetta árið en það kemur til með að verða ansi góður drykkjusjóður fyrir næsta ár .... eins og mig minni að gerður hafi verið samningur um að þeir samningsaðila sem beiluðu á þjóðhátíð á næsta ári (þ.e. í ár) skyldu borga 100.000 krónur í sekt... eins gott að það er svo nóg til af peningum í heiminum!

miðvikudagur, júlí 19, 2006

Blessuð sólin

lét loksins sjá sig á höfuðborgarsvæðinu í dag. Ég missti af henni þegar henni þóknaðist að skína í miðjum próflestri í vor og orðin illa haldin af marglyttusyndróminu. Það var geeeeðveikt að sitja á Austurvelli í hádeginu og fá nokkra sólargeisla í andlitið. Það er eins gott að þetta haldist fram í næstu viku - annars verð ég bara geðvond.

Annars hefur verið brjálað að gera. Komst reyndar ekki heim á Káta daga um helgina en helgin bjargaðist samt því Anna María kom alla leið frá Akureyri til að vera hjá mér, í staðinn fyrir að fara í dýrðina og dásemdina. Við lágum nú bara í leti á föstudagskvöldið og horfðum á vídeó en svo vorum við boðnar í dýrindis kvöldmat hjá Jónu með lögfræðiskvísunum á laugardagskvöldið. Þar var kjaftað fram eftir kvöldi um ýmis mjög svo áhugaverð málefni og svo litum við aðeins í bæinn á eftir. Lærði "frátekinn" sem verður að viðurkennast að er einhver sá allra sniðugast leikur sem ég hef lært lengi og meira en nóg af viðfangsefnum í miðbænum á laugardagskvöldi... mjög svo áhugavert. Á sunnudagskvöldið var svo matarboð í Kúrlandinu og var það mjög vel heppnað eins og þar er von og vísa. Alþjóðahúsið með skvísunum á eftir í "kveðjukaffihúsaferð" gerði líka góða hluti. Áttaði mig á því eftir helgina að ég er ótrúlega heppin að þekkja svona mikið af skemmtilegu fólki - Takk fyrir helgina þið öll :)

Stressið vegna danmerkurfarar er samt aðeins farið að trufla mig þessa dagana. Venjulega þegar ég hef tekið ákvarðanir sem snúa Gullulandi á hvolf þá hef ég verið komin út í ævintýrið áður en ég hef náð að spá í hvað ég væri að gera. Nú finnst mér ég einhvern vegin hafa haft svo langan tíma til að plana þetta allt saman og allt að smella en ég einhvernvegin trúi því ekki að ég geti verið með þetta svona mikið á hreinu. Væri alveg til í að taka kæruleysið á þetta eins og í gamla daga. Þá væri ég væntanlega ekki að velta því fyrir mér viku fyrir brottför hvort ég sé orðin of gömul til að lenda í svona ævintýrum sem ég veit ekkert hvernig enda.

mánudagur, júlí 10, 2006

London ....

var í einu orði sagt frábær :) Við frænkur lögðum af stað út á flugvöll á mjög svo ókristilegum tíma og vorum komnar til London rétt um hádegi. Deginum var eytt á Oxford Street þangað til fæturnir gátu ekki meir og við orðnar óendanlega þreyttar. Á laugardaginn áttum við bókaða ferð sem var með í ferðinni okkar en eitthvað hefur klúðrast og við biðum og biðum og biðum á uppgefinni "addressu" en aldrei vorum við sóttar. Það rættist nú samt heldur betur úr deginum því okkur datt í hug að fara í túrista strætóferð um borgina og slógum þannig margar flugur í einu höggi - sáum allt sem maður verður að sjá á þremur dögum í London og það besta við þetta allt saman var að maður gat farið út þar sem maður sjálfur vildi og skoðað betur það sem manni fannst markvert og svo bara gripið næsta strætó. Fórum svo á indverskan veitingastað um kvöldið og gerðum þannig góðan dag enn betri. Vöknuðum svo fyrir allar aldir á sunnudagsmorgun til þess að fara á Madame Tussauds og míngla aðeins við fræga fólkið. Ég hefði ekki trúað því að hægt væri að gera svona líkar eftirmyndir af fólki, sumar að sjálfsögðu betri en aðrar. Leiðangursstjórinn tók svo vitlausa beygju einhvers staðar á leiðinni heim og vorum við í einn og hálfan tíma aftur til baka á hótelið í staðinn fyrir korter ... en það gerði þetta bara að enn meira ævintýri ;) Eyddum svo restinni af deginum í að fara í aðeins fleiri búðir en eins og allir vita þá getur maður aldrei verslað nóg ;) Það verður að teljast afrek út af fyrir sig að hafa komist heilar á húfi frá útsölunum sem voru alls staðar í gangi og voru flestar búðirnar eins og eftir sprengingu og kellingarnar brjálaðar eftir því ;)Takk Rósa mín fyrir frábæra ferð, hún hefði ekki getað verið betri :)

Svo er bara næsta brottför eftir rétt rúmar 2 vikur! Óska eftir skipulagsmeistara - hef svo ekki hugmynd um hvernig ég ætla að fara að þessu öllu saman og stressið aðeins farið að segja til sín.

Allavega, þá setti ég inn myndir af londonferðinni, vantar reyndar myndir af öllu verslinu (sem var þó í lágmarki) en ég held að allir viti meira eða minna hvernig það hefur farið fram ;)

þriðjudagur, júlí 04, 2006

Oddur seldur

Já, það hefur átt sér stað. Oddur minn er farinn og það gerðist svo hratt að ég náði varla að spá í það. Hann fékk allavega góða fjölskyldu en ég fékk næstum tár í augun þegar ég horfði á hann keyra í burtu. Það eru ekki allir sem tengjast bílnum sínum tilfinningaböndum en hann hefur nú einu sinni verið eini stöðugi punkturinn í lífi mínu síðustu 3 árin, hefur farið með mér í ferðalög, komið mér í skólann (svona yfirleitt allavega) og að sjálfsögðu í búðir. Hann hefur aldrei kvartað, þó hann hafi lagt niður störf einstaka sinnum, og ég verð að viðurkenna að ég á eftir að sakna hans þegar ég verð komin á reiðhjólið í Danmörku.

Í staðinn fyrir Odd er kominn í stæðið Volvoinn hennar Gunnu frænku en hún var svo yndisleg að leyfa mér að nota hann þangað til ég fer út. Það er svona "Gunnufrænkulykt" í honum sem er mjög krúttlegt. Þegar ég kem inn í hann er eins og ég sé komin á Illugagötuna og megi von á því að fá ís eða eitthvað annað rosa gott að borða von bráðar. Fyndið hvað ákveðin lykt getur rifjað upp fyrir manni gamlar, góðar minningar.

Anyways - Brassarnir dottnir út á HM sem þýðir að ég er ekki lengur að spá í hvar mögulegt sé að horfa á úrslitaleikinn í London. Ef einhver hefur gleymt því þá verð ég komin út til London í 25 stiga hita um hádegi á föstudag og get hreinlega ekki beðið. Það verður verslað og verslað og verslað og verslað og farið á söfn og veitingahús borgarinnar mega jafnvel búa sig undir innrás frænknanna. Skynsemin segir mér samt að "verslið" verði að vera í lágmarki því farangur til Danmerkur verður að vera í enn meira lágmarki en við sjáum til hvernig fer.