mánudagur, apríl 30, 2007

Det var hyggeligt


Já, við hugguðum okkur (d. hygge sig) sko aldeilis um helgina. Stefnan var tekin á Lønåvej á föstudaginn með Áróru og börnunum, í afslappelsi, lærdóm, sólbað og huggulegheit. Það er óhætt að segja að við höfum notið lífsins í þessa þrjá daga og lifað eins og hefðarfólk :)

Hvern hefur ekki dreymt um að búa á herragarði umvafinn sveitinni og náttúrunni, getað málað myndir eða unnið annars konar listaverk, eldað góðan mat og borðað hann undir tré í garðinum, kveikt varðeld á kvöldin eða sitja við arineld með góða bók eða við gott spjall - þannig var helgin hjá mér ef frá er talinn listadraumurinn en aðstaðan var þó fyrir hendi. Bíltúrar til nærliggjandi þorpa og bæja enda veit ég fátt betra en að skoða skemmtileg, krúttleg og jafnvel gamaldags lítil þorp. Það er eitthvað svo sjarmerandi við þau og svo heimilislegt og góður plús ef maður finnur genbrug búð þar sem hægt er að týna sér tímunum saman, minnir svolítið á ömmubúð heima á Þórshöfn.

Takk elsku Áróra, Ásgeir Karl og Eva Katrín fyrir yndislega helgi :)

Næst á dagskrá er svo "Kapsejladsen" á fimmtudaginn eða The Boat Race eins og það útleggst á skiptinemamáli ;) Það verður eflaust mikið fjör og mikið gaman.

Búin að setja inn tvo nýja myndapakka, annars vegar úr afmælinu mínu og svo hins vegar myndir frá Lønåvej :)

sunnudagur, apríl 22, 2007

Sumarið er komið, svona á það að vera

Laufey er búin að setja mig í kommentabann á síðunni sinni vegna bloggleti minnar undanfarið og því ekki annað hægt en að henda inn einu bloggi, svona í tilefni dagsins og sem þakkir fyrir manninn sem hún sendi mér í afmælisgjöf ;) Það er ekki að spyrja að því að hún veit upp á hár hvað mér er fyrir bestu; hann er dökkhærður, herðabreiður, með lopapeysuna upp úr nærskyrtunni og það sem er allra best, úr pappír! Held ég haldi þessum enda hangir hann fínn og sætur uppá ísskáp og er ekki með neitt vesen ;)

Er reyndar farin að halda að þetta sé eitt allsherjar plott allra í kringum mig og hefur staðið yfir síðan fyrir páska! Já, mig er nú farið að gruna ýmislegt! Þannig er nefnilega mál með vexti að foreldrarnir urðu svona líka ánægðir með málsháttinn í páskaegginu mínu (sem Anna María laumaði í innkaupakerruna mína í Bónus á Akureyri) - Betur draga tveir fuglar til hreiðurs en einn! Veit ekki hvað foreldrarnir hafa borgað Önnu Maríu, Bónus og Nóa og Síríusi fyrir þennan málshátt en eftir áralangar og áranguslausar tilraunir til þess að ég gangi út, eru úrræðin farin að bera vott um mikla örvæntingu. En þau þurfa ekki að örvænta úr þessu, þökk sé Laufey ;)

Íslandsferðin lukkaðist svona líka vel, var eiginlega bara alveg fullkomin :) Eftir að hafa vigtað hverja einustu flík og hvern einasta skó sem ofan í ferðatöskuna fór var haldið heim þar sem kápur og vetrarflíkur komu að góðum notum í kuldanum og vetrinum sem enn var á Íslandi.

Anna María mín bauð upp á gistingu í 2 nætur á Akureyri og var heldur betur dekrað við mig - henni hefur því verið fyrirgefið fyrir að hafa valið páskaeggið ;) Leið eins og drottningu eftir 2 daga og ekki versnaði það þegar ég komst heim í dýrðina og dásemdina til mömmu og pabba. Gott að borða, hestbak, ræktin og sundlaugin gerðu þetta að algeru fríi og svo var nú skemmtunin ekki langt undan. Litum aðeins á Eyrina á föstudags- og laugardagskvöld og geri aðrir betur. Skemmti mér svona líka vel bæði kvöldin og æðislegt að hitta allt þetta fólk sem ég hef ekki séð í svo langan tíma.

- systur mættar á barinn í öllu sínu veldi-

Páskadagur byrjaði eins og áður sagði með þessum líka fína málshætti sem vakti mikla lukku meðal allra sem hann lásu og var hengdur upp á ísskápinn til áminningar. Héldum svo í afmæli til Henrýs Jarls sem varð 1 árs og alltaf jafn sætur :) Borðaði svoleiðis yfir mig af kræsingunum þannig að ég hélt að ég myndi springa (það rétt slapp til - maður er nú orðinn skjólgóður af danmerkurdvölinni og ekkert betra en að komast í íslenska veislu :) Að sjálfsögðu var páskalæri í kvöldmatinn með tilheyrandi meðlæti og dásamlegheitum.

Eina sem mér fannst dálítið skrýtið við það að vera heima var að Joe og Gló eru bæði flutt að heiman - fullt af fullorðinsstigum sem þau fengu við það. Húsið svo sem ekki tómlegt en skrýtið að vera heima hjá sér og þurfa að fara út úr húsi og í heimsókn til systkinanna.

Reykjavík var aðeins minni afslöppun en dýrðin og dásemdin en skemmtileg eins og alltaf :) Markmiðið var að reyna að hitta sem flesta og gekk það að mestu leyti eftir. Kani fram á nótt á Grandaveginum, kaffi með lögfræðiskvísunum, búðarráp með ömmu og Ósk, lit og plokk og dekur, íbúðarúttekt á nýju íbúðinni hjá Völlu minni og gott spjall, ferðafundur vegna Barcelonaferðar með dömunum í S3, kaffi hjá Gumma og Gauju í nýju íbúðinni og svo loks matarboð í góðum félagsskap hjá Svönu og Binna, eins og þeim einum er lagið :) Tóta skutlaði mér svo út á völl á sunnudeginum eftir páska og þá var þetta bara allt í einu búið og raunveruleikinn með tilheyrandi bókalestri og prófundirbúningi tekinn við. Verð að viðurkenna að ég var alveg við það að pakka bara niður og fara strax aftur heim, það var svo gaman hjá mér og svo yndislegt að hitta aftur alla sem ég hef saknað svo síðan ég kom til Danmerkur :) Takk öll fyrir að gera þetta dásamlega 12 daga.

Af danmerkurlífinu er það að segja að það gengur sinn vanagang, hitastigið fer hækkandi og einbeitning fyrir skólabókunum fokin út í veður og vind. Ég reyndist verða einu ári eldri en þegar ég kom og í tilefni þess bauð ég krökkunum í íslenska lambalærisveislu sem vakti svona líka mikla lukku :) Afmælissöngurinn sunginn á 4 tungumálum fyrir mig í strætó fullum af fólki sem var bara ekkert vandræðalegt (eða þannig!) og bærinn svo málaður rauður eins og vera ber á tímamótum :)

Búin að setja inn myndir frá páskafríinu en reyni að setja inn myndir frá afmælinu fljótlega. Ekki ólíklegt að þær rati inn næst þegar ég fæ nóg af lestrinum.