sunnudagur, nóvember 16, 2008

Að taka eða taka ekki höfundarétt

það er sem sagt stóra spurningin akkúrat núna en ég get bara hreinlega ekki tekið ákvörðun. Þó því fylgi engir sérstakir verkir að vera eins og ég er þá stundum vildi ég óska að ég gæti bara, þó ekki væri nema einu sinni, ákveðið eitthvað án þess að þurfa að velta því fyrir mér fram og tilbaka. Dilemmað núna snýst sem sagt um það hvort ég eigi að segja mig úr eina kúrsinum sem ég ákvað að taka með meistararitgerðinni eða hvort ég eigi að láta mig hafa það, girða í brók og hætta þessu væli.

Það sem mælir með því að ég segi mig úr kúrsinum er:
1. Ég er nú þegar búin að taka 24 einingum of mikið (skv. nýja einingakerfinu - 12. skv. gamla) og ef ég tek þetta líka þá verð ég með 30 einingum of mikið en maður getur víst bara verið með 120 einingar tilgreindar á meistaraskírteininu.
2. Ég er búin að eyða allt of löngum tíma í að skrifa ritgerð sem á að skila á morgun og er ekki búin.
3. Ég er búin að lofa því að senda hluta af mastersritgerðinni minni í yfirlestur á morgun og er ekki byrjuð að laga þá hluti sem þar þarf að laga og hvað þá fara yfir hvort eitthvað vanti.
4. Ég kem væntanlega ekki til með að hafa tíma til þess að lesa almennilega undir prófið þar sem ég má ekki missa mikið úr mastersritgerðarvinnunni sem engan endi virðist ætla að taka.
5. Það eru ágætar líkur á því að ég fái hærra fyrir mastersritgerðina ef ég einbeiti mér að henni.
6. Ég get jafnvel séð mér fært að mæta í vinnuna nokkrum sinnum fyrir jól.
7. Ég fer mögulega að sofa betur þegar ég sé fram úr fyrirliggjandi verkefnum.

Það sem mælir á móti því að ég segi mig úr kúrsinum er:
1. Maður á að klára þau verkefni sem maður tekur að sér.
2. Ef ég skyldi nú slysast til að fá góða einkunn í kúrsinum þá væri það alveg fínt upp á einkunnablaðið að gera.
3. Ef ég klára þetta ekki þá finnst mér ég vera alger vesalingur – fólk hefur nú gert annað eins.

Þetta er sem sagt alveg að ná að drepa niður gleðina í Gullulandi og magna upp þráhyggjuna sem er alltaf jafn velkomin eða þannig ;)

Gott að skrifa vorkenniðmérvælublogg svona mitt í kreppunni - það gerir lífið skemmtilegra ;) Spurning hvort ekki sé kominn tími á að dusta rykið af jólaserimóníunum og koma þeim í gluggana. Svo hugguleg birtan af þeim alveg hreint og það allra besta að rykhnoðrarnir í hornunum, sem eru alveg á stærð við meðal kettlinga, hætta að sjást ;)

8 ummæli:

Nafnlaus sagði...

HÆTTU BARA í þessu og hættu svo að hugsa um það!!!!! og ekki orð um það meir... þá hefurðu líka tíma til að koma í kvenfélagsjólabaksturinn :)
Kv. Lína

Nafnlaus sagði...

hættu bara í þessu, afhverju að vera með aukastress og álag þegar það er ekki nauðsynlegt.

Kveðja
Jóna ;o)

Nafnlaus sagði...

Sæl gamla ;)
Sé að stelpurnar segja þér að hætta í þessu en ég er ekki sammála því þær vilja bara fá þig strax í baksturinn , þú átt að klára þetta þar sem þú ert byrjuð á þessu og það sem maður þekkir þig frá gömlu góðu dögunum :) þá á þér eftir að ganga mjög vel með þetta próf og ritgerðina,
hef grun að þú munir sjá eftir því seinna meir þegar fer að róast hjá þér að hafa ekki tekið þetta próf.
Núna er bara spurning að berjast smá meira í gegnum þetta og svo er þetta búið, hafðu bara Liverpool og UMFL að leiðarljósi þetta kemur allt saman með kaldavatninu :)
hafðu annars góða daga í lærdómi

Guffi

Nafnlaus sagði...

Greinilega skiptar skoðanir ;) Ég allavega skilaði blessaðri ritgerðinni, óyfirlesinni, og hef núna 2 daga til að ákveða hvað ég geri. Það er nú freistandi að geta verið með í jólabakstrinum en ekki viss um að þráhyggjan höndli uppgjöf ;) Kemur allt í ljós.

Nafnlaus sagði...

Sammála Guffa, hann veit hvað skiptir máli :) Iss hvað með vinnuna og jólabaksturinn, skiptir engu máli, það er enginn ómissandi og nóg til af brauði í heiminum ennþá allavega og þarf þá ekki í ræktina til að ná því af sér;) Gætum hinsvegar þurft á góðum lögfræðingum að halda eftir áramót eins og veröldin lætur núna!
Gott hjá þér allavega að skila ritgerðinni, en aðalmálið í þessu öllusaman er auðvitað að halda sönsum og flokka aðalatriði frá smáatriðum. Treysti þér til þess:)
Kveðja mamman

Nafnlaus sagði...

Guffi, þú ert fullvæminn fyrir minn smekk og LIVERPOOL!!! ussussuss..... Auðvitað er nóg til að brauði hér á landi, þarf ekki annað en að horfa á mig til að sjá það hahahaha....
En það sem ég var að meina er að þar sem Gulla sárkvartar yfir of miklu álagi, er greinilega alveg búin að fá nóg af náminu og hvort eð er búin að taka alltof mikið af einingum þá............ þarf eitthvað að ræða þetta meira??
Kv. Lína :)

Nafnlaus sagði...

Hæ hæ!
Rétt hjá þér Lína, og það hefur nú lengi dugað á hana Gullu að segja gerðu það EKKI, þá er hún óðara búin að því, kannski fleiri en ég sem vita það :-)
Kv mamman

Nafnlaus sagði...

Alveg rétt hjá þér Lína, ég er alveg komin með meira en nóg og það fyrir löngu. Fyrir utan það að ég er bara orðin þreytt og þarf mikið á því að halda að komast heim í sæluna að hlaða batteríin. Hins vegar ákvað ég að skrá mig ekki úr höfundaréttinum .... ég veit! En mér fannst það bara vera svo mikill ræfildómur og ég vil að sjálfsögðu enga aumingja í mitt lið ;) Ég ætla bara að taka stöðuna rétt fyrir próf - ef ég get lært þetta á 2 dögum þá er það fínt og ef ekki þá fæ ég lélega einkunn.