laugardagur, maí 10, 2008

Bara 5 dagar eftir

og þá kemst ég í langþráð sumarfrí frá skólanum :) Hef nú afrekað það að sofna bara í ca. 20 mínútur yfir bókunum í dag sem er mikil framför síðan í gær en þá sofnaði ég í örugglega 2 tíma!!

Spurning hvort maður hefur haft það of gott síðustu tvö árin þar sem maður hefur ekki farið í eitt einasta skriflegt próf sem sást best á því að ég áttaði mig á því í morgun að ég á engan almennilegan penna fyrir þetta blessaða próf á þriðjudaginn!! Því var snarlega kippt í liðinn og vinnupenninn sóttur ;) Maður er náttúrulega ekkert eins og fólk er flest og getur þar af leiðandi ekki skrifað með hvernig penna sem er og það sem er ennþá betra er að nú er maður farinn að blogga um penna eða pennaleysið öllu heldur ;) Spennan í lífinu er gríðarleg þessa dagana.

Nú er bara spurningin hvort maður geti haldið út í 5 daga í viðbót og lifi af kaffidrykkjuna sem verður lagst í fyrir barnaréttarprófið á miðvikudaginn þar sem stefnan er tekin á 24 tíma lestur fyrir próf.

þriðjudagur, maí 06, 2008

Próflestur

Vá hvað maður nennir endalaust að blogga þegar maður er í próflestri - kannski ekki skrýtið þegar maður á að vera að lesa um "and-mismununar löggjöf" ;) Tvö próf búin og þrjú eftir og merkilegt nokk þá hefur bara gengið skítsæmilega miðað við lestur og almennan undirbúning. Það er bara alveg gjörsamlega vonlaust að einbeita sér að bókunum svona á vorin, þá á maður bara að vera að gera eitthvað allt annað!

Plönin fyrir sumarið eru þau að gera þetta að göngusumrinu mikla og fara loksins að gera eitthvað sem manni finnst skemmtilegt í staðinn fyrir að bíða eftir því að eignast mann sem nennir að dröslast með manni á fjöll. Það er orðið útséð með það vegna hins háa aldurs (og eflaust af fleiri ástæðum) og því ekkert annað í stöðunni en að taka málin í eigin hendur, hætta þessu væli og reima á sig skóna.

Skálagerðisbúar eru svo búnir að leggja það í nefnd að fá að byggja sér sólpalla til að njóta hins frábæra íslenska sumars til hins ítrasta. Pallapartý og grillveislur um hverja helgi! Greyið Gummi að hafa fengið það verkefni að smíða 3 palla með aðstoð frá Skálagerðisdömunum ;) Held nú samt að það sé hægt að setja okkur í fleiri verkefni en virðist við fyrstu sýn - við erum nú ekki dreifbýlingar fyrir ekki neitt!

Annars best að halda áfram með lesturinn - bara rétt rúm vika eftir!