Það er einhvern veginn alltaf þannig að á hverju vori er tekin ákvörðun um að nýta sumarið til hins ýtrasta og svo áður en maður veit af er sumarið hálfnað og maður hefur ekki komið helmingnum í verk. Þetta sumar er öðruvísi :) Að sjálfsögðu er skemmtilegast að segja frá göngunni frá Djúpuvík yfir í Bjarnafjörð á Ströndum, yfir trékyllisheiði, enda var þetta bara æðislegt. Það er eitthvað svo hrikalega fallegt við Strandirnar að ég er ekki frá því að þetta sé að verða einn af mínum uppáhaldsstöðum á landinu. Gangan gékk að sjálfsögðu vel, eftir mjög svo sérstaka bílferð í Djúpuvík - Iceland from the rear window verður væntanlegt heiti heimildarmyndar um svaðilför þá ;) Einn göngugarpur þurfti reyndar að snúa við þegar gömul meiðsl tóku sig upp en við vorum sex fjallageitur sem héldum áfram og gengum í u.þ.b. 7 tíma. Sumir ónefndir og þindarlausir tóku reyndar upp á því að hlaupa restina af leiðinni með nestið á bakinu og vakti það mikla lukku hjá þeim sem eftir voru ;) Erfiðast var án efa að fara yfir Goðdalsánna því það var svo mikið leysingavatn í henni og þegar ég stóð a steini út í miðri á, tilfinningalaus í fótunum frá hnjám og niður var ég nokkuð viss um að ég myndi daga uppi og verða að steini sjálf því ekki hvarflaði að mér að halda áfram og ekki gat ég snúið við! En maður er nú ekki dreifbýlingur fyrir ekki neitt þannig að það var ekki annað að gera en að draga djúpt andann og láta sig vaða. Grill í Sunndalnum og spjall við allt þetta skemmtilega fólk kórónaði svo daginn en helgin verður að teljast með þeim betri á árinu.
Í gær var svo haldið í Botnsdalinn ásamt góðum hópi fólks og gengið upp að Glym í glampandi sól og steikjandi hita. Erfiðasta leiðin var að sjálfsögðu valin af sérlegum "farangurstjóra" sem leiðsagði eins og sannur atvinnumaður og passaði að allir færu nú rétta leið en um 70% fólks sem fer að Glym sér aldrei fossinn almennilega þar sem það fer vitlausu megin upp - doltið vandræðalegt ;) Alveg sérdeilis vel heppnaður dagur sem endaði svo í S3 í grillveislu og útilegufundi.
Skálagerðið fer svo að verða komið í sparigallann eftir mikinn mokstur og þó nokkurn dugnað þar sem einu og hálfu tonni af grjóti var mokað í fyrrum blómabeð og allar áhyggjur og óþarfa mórall yfir arfanum sem yfirtekið hafði beðið því horfnar. Stefnan er að klára allt fyrir helgina því nú er komið að "árlegri" útilegu kvenfélagsins ásamt viðhengjum og börnum og svo er stefnan tekin heim í dýrðina og dásemdina á Káta Daga. Passar ágætlega að um helgina er spáð hellirigningu um allt land og hvergi von á sólarglætu. Það borgar sig að hafa plan A og B ef öðru hvoru megin á landinu skyldi vera rigning - þá förum við bara hinum megin!! En maður lætur regnið ekkert á sig fá og klæðir sig bara betur - svo lengi sem sólin skín á Happy Days þá verð ég sátt.
Það er svo ýmislegt annað planað í sumar, pallapartý, tónleikar í Bræðslunni á Borgarfirði Eystri, afslappelsi í bústaðnum hjá mömmu og pabba, heimsókn til Gaby og Luis í Montréal og svo langar mig alveg hryllilega mikið að fara að sjá Buena Vista Social Club en ég var svo heppilega mikið að vinna þegar það ágæta fólk spilaði hér síðast og þó margir góðir séu fallnir frá þá er ég viss um að þetta verða bara æðislegir tónleikar.
Jæja, þá er nóg komið af bulli og best að fara að gera eitthvað af viti!! Fólk á heldur ekkert að vera að lesa bloggsíður núna, farið út og njótið sumarsins :o)
mánudagur, júlí 07, 2008
Allt að gerast
Birt af
Gulla
kl.
21:49
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
3 ummæli:
Ég segi nú bara vááhh... Frábært að vera farin að gera e-ð af viti (hmm), að ferðast fótgangandi um Ísland hlýtur bara að vera geggjað (fyrir utan heilsubótina sem af hlýst). Get ekki neitað að það fór nettur hrollur um mig við að sjá kommentið um Buena vista, hélt þú værir að fara til Kúbu...... en svo náði ég áttum á ný, ætla ekkert að segja hér um hvað flaug í gegnum kollinn......
Bara áfram göngugarpar
Með kveðju af Langanesi sem er gósenland fyrir göngugarpa...
Ekkert að gerast :/ Þarf ekki að fara að setja inn myndir af fallegasta barni í heimi - og frá ferðalaginu???
Bara segi svona.........
Kveðja mamman
Er að vinna í því - ætti að koma inn á morgun en þá var stefnan tekin á lærdóm ;)
Skrifa ummæli