Ótrúlegt hvað tíminn er fljótur að líða. Allt í einu eru komnir páskar og sumarið á næsta leyti. Ekki nóg með það að ég sé búin með ritgerðina sem ég hélt að ég myndi aldrei klára (allavega ekki með þeim hætti að ég héldi geðheilsunni) heldur er ég líka útskrifuð og byrjuð að vinna á fullu. Þegar ég byrjaði í lögfræðinni sá ég ekki fyrir endan á þessu blessaða námi og á tímabili var ég alveg ákveðin í því að hætta þessu bara því þetta ætti ekki við mig en ótrúlegt en satt þá hafðist þetta allt saman og nú get ég bara unnið eins og alvöru manneskja og þarf aldrei að fara í skóla meir.
Páskafríið hefur einkennst af almennri leti, lestri góðra bóka og handavinnu og ég notið þess í botn að vera ekki að vinna upp lestur í einhverju fagi eða að byrja próflesturinn. Helmingurinn af kvenfélaginu var með páskadinner í gærkvöldi sem var mjög vel heppnaður, sérstaklega sérlega páskatertan hennar Höddu sem var vel skreytt í tilefni dagsins :) Við systur ætlum svo að græja eitthvað gott saman í kvöld þannig að maður verður að passa sig að borða ekki yfir sig af páskaegginu stóra og góða :)
Gleðilega páska gott fólk, vona að þið hafið haft það gott í páskafríinu og njótið þess sem eftir er :)
sunnudagur, apríl 12, 2009
Gleðilega páska!
sunnudagur, nóvember 30, 2008
Gleði, gleði
sunnudagur, nóvember 16, 2008
Að taka eða taka ekki höfundarétt
það er sem sagt stóra spurningin akkúrat núna en ég get bara hreinlega ekki tekið ákvörðun. Þó því fylgi engir sérstakir verkir að vera eins og ég er þá stundum vildi ég óska að ég gæti bara, þó ekki væri nema einu sinni, ákveðið eitthvað án þess að þurfa að velta því fyrir mér fram og tilbaka. Dilemmað núna snýst sem sagt um það hvort ég eigi að segja mig úr eina kúrsinum sem ég ákvað að taka með meistararitgerðinni eða hvort ég eigi að láta mig hafa það, girða í brók og hætta þessu væli.
Það sem mælir með því að ég segi mig úr kúrsinum er:
1. Ég er nú þegar búin að taka 24 einingum of mikið (skv. nýja einingakerfinu - 12. skv. gamla) og ef ég tek þetta líka þá verð ég með 30 einingum of mikið en maður getur víst bara verið með 120 einingar tilgreindar á meistaraskírteininu.
2. Ég er búin að eyða allt of löngum tíma í að skrifa ritgerð sem á að skila á morgun og er ekki búin.
3. Ég er búin að lofa því að senda hluta af mastersritgerðinni minni í yfirlestur á morgun og er ekki byrjuð að laga þá hluti sem þar þarf að laga og hvað þá fara yfir hvort eitthvað vanti.
4. Ég kem væntanlega ekki til með að hafa tíma til þess að lesa almennilega undir prófið þar sem ég má ekki missa mikið úr mastersritgerðarvinnunni sem engan endi virðist ætla að taka.
5. Það eru ágætar líkur á því að ég fái hærra fyrir mastersritgerðina ef ég einbeiti mér að henni.
6. Ég get jafnvel séð mér fært að mæta í vinnuna nokkrum sinnum fyrir jól.
7. Ég fer mögulega að sofa betur þegar ég sé fram úr fyrirliggjandi verkefnum.
Það sem mælir á móti því að ég segi mig úr kúrsinum er:
1. Maður á að klára þau verkefni sem maður tekur að sér.
2. Ef ég skyldi nú slysast til að fá góða einkunn í kúrsinum þá væri það alveg fínt upp á einkunnablaðið að gera.
3. Ef ég klára þetta ekki þá finnst mér ég vera alger vesalingur – fólk hefur nú gert annað eins.
Þetta er sem sagt alveg að ná að drepa niður gleðina í Gullulandi og magna upp þráhyggjuna sem er alltaf jafn velkomin eða þannig ;)
Gott að skrifa vorkenniðmérvælublogg svona mitt í kreppunni - það gerir lífið skemmtilegra ;) Spurning hvort ekki sé kominn tími á að dusta rykið af jólaserimóníunum og koma þeim í gluggana. Svo hugguleg birtan af þeim alveg hreint og það allra besta að rykhnoðrarnir í hornunum, sem eru alveg á stærð við meðal kettlinga, hætta að sjást ;)
sunnudagur, nóvember 09, 2008
Ástandið
laugardagur, október 18, 2008
Mig langar svo!
Gott að hugsa um það eitt þessa dagana hversu sniðugt það væri að leigja íbúðina mína, hætta að skrifa þessa blessuðu ritgerð og drífa mig bara út til Guatemala í einhvers konar sjálfboðaliðastarf! Alls engin geðveiki á þessum bænum ;)
miðvikudagur, október 15, 2008
Áfram Ísland
Loksins, loksins! Loksins gerðist eitthvað jákvætt á þessu blessaða landi okkar, 1-0 sigur á Makedóníu í fótbolta nægir mér til að gleyma helv.. kreppunni þó ekki sé nema í smá stund. Öskur á sjónvarpið eru líka svo hressandi svona hvers dags ;)
Annars hefur kreppan engin áhrif á mig umfram það sem almennt er en maður getur ekki annað en borist með straumnum enda ekki um annað talað hvar sem maður kemur. Nú er ekkert annað að gera en að girða í brók, hætta að væla og rífa sig uppúr þessu! Það er eins gott að eftir 50 ár þá getum við sagt að við höfum lært eitthvað af þessu öllu saman!
Ókeypis sparnaðarráð í kreppunni frá mér er að drífa sig út í göngu - alveg fríkeypis og svo ótrúlega hressandi að anda að sér ferska loftinu. Ekki verra að slökkva á sjónvarpinu í leiðinni :) Betra en sálfræðimeðferð og ókeypis líkamsrækt! Ég fór í ótrúlega vel heppnaða göngu á Esjuna um daginn með Laufeyju, Ölmu og Iain vini Laufeyar frá Englandi sem var hér í heimsókn. Snjórinn, yndislega veðrið og skemmtilegur félagsskapur gerði þetta að mjög svo góðum degi og ég afrekaði það í fyrsta skipti að komast alla leið uppá topp - geri aðrir betur. Annars segja myndir meira en þúsund orð og koma hér nokkrar í tilefni dagsins.
Annað merkilegt er ekki að frétta héðan úr S5, ritgerðarskrif og heimildalestur í algleymingi og ég ekki alveg að standa mig nægilega vel í þeim efnum en ég SKAL þó klára á réttum tíma. Ég get hreinlega ekki meiri skóla og alls ekki meira krepputal ;) En þangað til næst, verið góð hvert við annað og reynið nú að hafa gaman af því að vera til - það þarf ekkert að kosta svo marga peninga.
föstudagur, október 03, 2008
Snjóar í kreppunni
Pínulítið hippókratískt að mitt í frostinu sem tröllríður íslensku efnahagslífi skuli snjóa í Reykjavíkinni fyrir sunnan og það í byrjun október ;) Snjórinn gleður hins vegar mitt litla hjarta og ég væri mest til í að fara bara út að leika mér! Æ, hvað það væri nú notalegt að hafa snjóinn bara fram að jólum sem minnir á það að það fer að verða kominn tími til að huga að serimóníum til að skreyta höllina í svartasta skammdeginu.
Kreppuna hef ég hins vegar kosið að leiða hjá mér enda er maður svo sem vanur henni á námslánunum ;) Mig munar bara ekkert um það að borga þennan 15 þús kall auka á mánuði sem íbúðalánin mín hafa hækkað um - þakka bara fyrir að vera ekki með lán í erlendri mynt.
Af lífinu er það að frétta að lærdómur mikill mun yfirtaka það næstu vikur og mánuði en meistararitgerðinni á að skila þann 5. janúar 2009. Eftir það verður mér alveg sama þó ég þurfi aldrei að setjast aftur á skólabekk ;) Ég er reyndar mjög spennt fyrir efninu mínu og hlakka mikið til þess að kljást við það og reyna að skila frá mér einhverju af viti. Mesti vandinn er hins vegar að festast ekki í heimildaleitinni og byrja að skrifa, 10 bls. af ca 100 komnar og mættu vera fleiri ;) Það gengur sem sagt hægt en örugglega við ritgerðarskrifin líkt og með átakið góða!