þriðjudagur, júlí 04, 2006

Oddur seldur

Já, það hefur átt sér stað. Oddur minn er farinn og það gerðist svo hratt að ég náði varla að spá í það. Hann fékk allavega góða fjölskyldu en ég fékk næstum tár í augun þegar ég horfði á hann keyra í burtu. Það eru ekki allir sem tengjast bílnum sínum tilfinningaböndum en hann hefur nú einu sinni verið eini stöðugi punkturinn í lífi mínu síðustu 3 árin, hefur farið með mér í ferðalög, komið mér í skólann (svona yfirleitt allavega) og að sjálfsögðu í búðir. Hann hefur aldrei kvartað, þó hann hafi lagt niður störf einstaka sinnum, og ég verð að viðurkenna að ég á eftir að sakna hans þegar ég verð komin á reiðhjólið í Danmörku.

Í staðinn fyrir Odd er kominn í stæðið Volvoinn hennar Gunnu frænku en hún var svo yndisleg að leyfa mér að nota hann þangað til ég fer út. Það er svona "Gunnufrænkulykt" í honum sem er mjög krúttlegt. Þegar ég kem inn í hann er eins og ég sé komin á Illugagötuna og megi von á því að fá ís eða eitthvað annað rosa gott að borða von bráðar. Fyndið hvað ákveðin lykt getur rifjað upp fyrir manni gamlar, góðar minningar.

Anyways - Brassarnir dottnir út á HM sem þýðir að ég er ekki lengur að spá í hvar mögulegt sé að horfa á úrslitaleikinn í London. Ef einhver hefur gleymt því þá verð ég komin út til London í 25 stiga hita um hádegi á föstudag og get hreinlega ekki beðið. Það verður verslað og verslað og verslað og verslað og farið á söfn og veitingahús borgarinnar mega jafnvel búa sig undir innrás frænknanna. Skynsemin segir mér samt að "verslið" verði að vera í lágmarki því farangur til Danmerkur verður að vera í enn meira lágmarki en við sjáum til hvernig fer.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Elsku litli Oddurinn, eins gott að vel verði farið með stubbinn. ...

Nafnlaus sagði...

Já, það segi ég með þér. Ef einhver sér hann illa til fara á meðan ég er í Århus þá er sá hinn sami vinsamlegast beðinn um að láta mig vita og þá set ég pabba í málið!

Nafnlaus sagði...

Hæ frænka! Lenti inn á þessari síðu þegar ég setti nafnið Sigurjón Vikar á google... Sniðugt!! Ertu bara að flytja út??? Þú verður nú að koma aðeins áður en það gerist! Annars er gott að vita af skyldmenni í Danaveldi ef maður skellir sér þangað von bráðar ;-) jæja bestu kveðjur úr 680 Paradís og habbðu það gott!

Nafnlaus sagði...

Vertu velkomin til Danaveldis frænka - það verður sko nóg pláss fyrir stórfjölskylduna ef hún skyldi ákveða að bregða sér út fyrir landsteinana :) Er reyndar ekki alveg viss hvort ég komist heim áður en ég fer út - það er svo stutt þangað til! Stoppa þá bara lengur næst ;)