Jæja, þá eru allir 6 sumarfrísdagarnir mínir búnir og bara vinna í fyrramálið. Mikið verður nú gaman þegar hægt verður að fara að vinna eins og venjulegt fólk gerir og fá svo almennilegt sumarfrí. Reyndar ekki magnið sem skiptir máli heldur gæðin og þetta sumarfrí skoraði bara mjög hátt á gæðaskalanum. Fór til Vestmannaeyja með settinu og ömmu og hef bara sjaldan lent í öðru eins dekri. Við skelltum okkur í Jónsmessunæturgöngu á föstudagskvöldið en þar fyrir utan var mest borðað (á svona u.þ.b. 2ja tíma fresti) og reynt að njóta þess að vera í fríi.
Nú styttist bara og styttist í það að ég flytji út, fékk reyndar nett taugaáfall fyrir helgi þegar ég fékk loksins myndir af íbúðinni minni - hún reyndist 20 fermetrum minni en ég hafði gert ráð fyrir ... Danir telja nefnilega stigaganginn og alla sameign með inní fermetrafjölda íbúðarinnar. Svo sem allt í lagi að vera í lítilli íbúð en mesti gallinn við þessa er sá að hún nýtist svo illa. Eldhúsið og stofan í einu rými sem minnir meira á hol og ég sá ekki fram á það að geta komið fyrir bæði eldhúsborði og sófa! Hún var sem sagt ekki að skora hátt á gæðaskalanum. En allt er gott sem endar vel og þegar ég var búin að lýsa áhyggjum mínum fyrir konunni sem er að vinna í málinu fyrir mig og eiginlega farin að huga að því að finna mér aðra íbúð um leið og ég væri komin út, þá fann hún bara fyrir mig aðra í annarri blokk við sömu götu. Greyið, heldur örugglega að ég sé nett greindarvísitöluskert, allavega alger frekja en hún fær allavega þolinmæðisstig dagsins og næstu vikna.
Já ég er sem sagt byrjuð að hrella fólkið í Danmörku með eftirminnilegum hætti og það skemmtilegasta við þetta allt saman er að þetta er bara rétt að byrja ;)
mánudagur, júní 26, 2006
Sumarfrí
Birt af Gulla kl. 15:56
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli