fimmtudagur, ágúst 31, 2006

Bara varð...

að deila því með ykkur að ég á núna nýtt uppáhaldslag þökk sé Stínu minni á Dalvíkinni. Lagið góða heitir Ojala pudiera borrarte og er með Maná sem hefur verið ein af mínum uppáhaldshljómsveitum síðan ég var í Guatemala. Þeir eru nákvæmlega jafn góðir og fyrir 10 árum síðan! Spurning um að kaupa diskinn ...

Home Sweet Home

Komin heim aftur eftir velheppnaða íslandsferð sem jafnvel hefði mátt vera einum degi lengri en það þýðir víst ekkert að vera vitur eftirá.

Ætla ekki að fara að skrifa langa ferðasögu en hér kemur svona það helsta sem ég gerði á 4 dögum í Reykjavíkinni fyrir sunnan.

Fékk þær skemmtilegu fréttir þegar ég var nýlent í KEF að það væri skírn hjá Jóhanni og Önnu og dreif ég mig að sjálfsögðu þangað þegar ég komst loksins til Reykjavíkur en 45 mínútna bið í flugrútunni eftir því að lagt væri að stað frá Keflavík var ekki að gera góða hluti. Komst að lokum í veisluna og fékk að knúsa þessi yndislegu frændsystkini mín aðeins. Er strax farin að hlakka til að fara yfir til Svíþjóðar til að knúsa þau aðeins meira :)

Fór í kveðjupartý til Laufeyjar á laugardagskvöldið en hún heldur til Finnlands í skiptinám á föstudaginn. Það verður nú ekki leiðinlegt fyrir frúna að vera í faðmi Finna í eitt ár. Helsinki er að sjálfsögðu komin á listann yfir borgir sem heimsækja verður á næstunni, ekki verra að vera með boð um svefnpokapláss á júróvisjón næsta vor en fyrir þann tíma er planlagt að halda til Pétursborgar í Rússlandi, frá Finnlandi - ég verð orðin altalandi á finnsku miðað við hversu oft ég ætla að fara þangað ;)

Endaði svo laugardagskvöldið með Völlu minni á rúntinum niður laugarveginn og af gömlum vana tókum við einn hring á Hressó.

Svaf svo mikið mikið á sunnudaginn enda ekki annað í boði þegar maður er búinn að vaka í rúmlega sólarhring. Dömurnar efndu svo til mikils kökuboðs í Skálagerðinu hjá Tótu og var sú ákvörðun tekin þar að fara í dömuferð til Barcelona næsta haust. Get því haldið áfram að hlakka til ferðalaga þó ég verði komin heim og svo er að sjálfsögðu pressa á dömurnar að kíkja í dömuferð til Árósa - því fyrr því betra!

Settið kom svo á sunnudagskvöldið. Það er náttúrulega ekki hægt að láta frumburðinn koma alla leið til Reykjavíkur og koma ekki að heimsækja hann - já, ég er svolítið mikið dekruð :) Ótrúlega gott að hafa þau í Reykjavíkinni enda eru þau best í heimi.

Matarboð hjá Tótu í Skálagerðinu á þriðjudagskvöldið (félagsmiðstöðin Skálagerði öðru nafni) í góðum félagsskap Gumma, Gauju og Þuríðar Ástu en þau eru nýflutt í Kópavoginn úr dýrðinni og dásemdinni og gaman að fá þau í hópinn. Gamla er orðin ráðsett húsmóðir og bauð uppá ljúffengan mangókjúkling og hvítlauksbrauð - ég minni á skiptið þegar við fórum í sumarbústað með myglaða smjörið og útrunna vöffludeigið úr skápunum hjá Tótu ;) Ótrúlegt hvað við erum að verða þroskuð og ráðsett öll sömul ;)

Kíkti svo á Svönu, Binna og Helgu Björgu í Kúrlandið og eins og alltaf var frábært að hitta þau. Við Svana kíktum aðeins á kaffihús í smá kjaft eins og okkur er einum lagið. Mjög áhugavert að sjá krepputúrista reyna að sleppa við að borga hluta af reikningnum sínum - það er greinilegt að þau hafa ekki heyrt að það er svo nóg til af peningum í heiminum!

Pabbi keyrði mig svo út á flugvöll á miðvikudagsmorgun á mjög svo ókristilegum tíma og nú er ég sem sagt komin heim :)

Er loksins búin að setja inn myndirnar af íbúðinni minni og þær myndir sem ég tók í skírninni hennar Karitasar Guðrúnar. Set inn á eftir nokkrar myndir til viðbótar undir ágúst 2006 linkinn.

fimmtudagur, ágúst 24, 2006

Århus - Reykjavík - Århus

Stefnan er tekin á Reykjavík á laugardaginn, verð heima í 4 daga og svo kem ég aftur út í dýrðina og dásemdina :) Það verður rosa gott að komast aðeins heim - smá galli að fjölskyldan ætlar öll að vera á Þórshöfn á Langanesi! Allar fullu töskurnar bíða eftir að það verði vandlega valið úr þeim hvað skal tekið með út og hvað kemur til með að bíða betri tíma. Sem sagt, þið sem ætlið að koma í heimsókn til mín komið til með að þurfa að grípa með ykkur aðeins af drasli fyrir dekurrófuna sem að sjálfsögðu getur ekki verið án allra skóparanna og jakkanna í útlandinu ;)

Annars gengur allt sinn vanagang, akkúrat núna bíð ég eftir því að strákarnir komi með svefnsófann til mín - það verður mikil gleði þegar hann verður kominn í hús.

Fórum í gærkvöldi á nýja uppáhalds staðinn minn - Fatter Eskil - sem verður að tilkynnast að er alger snilld. Í öll þau skipti sem við höfum farið þá er lifandi tónlist og í gær (reyndar öll miðvikudagskvöld) var "jamming session" þar sem alls konar tónlistarmenn, úr öllum áttum og af stærðum og gerðum, tróðu upp. Næsti maður greip bara gítarinn eða trommurnar eða hvað sem er og svo var bara spilað og sungið. Þetta var bara gaman og stemningin gerist ekki betri :) Vildi óska að það væri svona staður á Íslandi - er vægast sagt orðin þreytt á djamminu í Reykjavíkinni fyrir sunnan.

Valla mín á svo afmæli í dag - 25 ára gamla! Til hamingju með það dúllan mín - hlakka ekkert smá til að komast í kökuboð á laugardaginn :)

Og já, ég fór í dönskupróf í gærmorgun - alltaf gott að sjá hvar maður stendur. Hef svo sem ekki miklar áhyggjur af því að hafa fallið (það gæti þó hafa gerst) en það kom mér smá á óvart hvað prófið var erfitt og langt. Flestir féllu á tíma en maður er nú kominn í svo góða æfingu í ólesanlegri hraðskrift úr lagadeildinni að ég náði barasta að klára þetta allt saman! Reyndar mjög ánægð að það kemur bara fram á diplómanu hvort við höfum staðist prófið eða fallið þannig að það skiptir í raun engu máli hvort ég hafi fengið 9 eða 6 (sem er reyndar aðeins líklegra).

Læt þetta duga í bili, sjáumst í Reykjavíkinni um helgina :)

þriðjudagur, ágúst 15, 2006

Mér finnst rigningin góð

Ekki laust við að þetta lag hljómi á repeat í hausnum á manni þessa dagana. Hér rignir eins og hellt sé úr fötu og það oft á dag!! Var ég ekki búin að fá næga rigningu heima á Íslandi? Jú ég held það bara en það er greinilegt að veðurguðirnir eru ekki á sama máli. Það hefur því verið sent út neyðarkall til Íslands og jakkar og fleiri buxur á leiðinni í pósti - Var nefnilega bara pláss fyrir hlýraboli í ferðatöskunni ;)

Á laugardaginn var International Party - mjög gaman og mikil stemning og lengi djammað. Reyndar voru ekki allir sem höfðu úthald í þetta allt saman en við létum það sko ekki á okkur fá og djömmuðum til rúmlega 6. Sunnudagurinn fór svo í lærdóm og aftur lærdóm. Myndir af herlegheitunum má sjá undir International Party.

Vakti athygli mína í Mogganum áðan að það þjást fleiri af offitu heldur en hungri í heiminum... held við ættum að skoða svolítið hvert við stefnum. Það hlýtur að vera hægt að jafna þetta út einhvern veginn - ég er allavega hætt að raða í mig kræsingum eins og ég fái borgað fyrir það!

föstudagur, ágúst 11, 2006

Það er allt að verða vitlaust

Jeminn eini! Það er bara varla tími til að blogga því það er svo mikið að gera í skólanum og á alls konar fyrirlestrum og kynningum. Ég sem hélt að Danirnir væru svo rólegir og ligeglad en sú er ekki raunin, allavega ekki ennþá. Ég er bara búin að komast á ströndina einu sinni sem klárlega hlýtur að falla undir einhvers konar mannréttindabrot! En það er samt búið að vera ógeðslega gaman og svo fullt af skemmtilegu fólki sem ég er búin að kynnast.

Danskan er öll að koma til og verður betri með hverjum bjórnum... Er það ekki þannig að í hverjum Carlsberg séu 1000 dönsk orð?? Maður spyr sig.

Stóra svefnsófamálið hefur orðið enn stærra en það var í upphafi - afhendingin frestaðist þangað til um miðjan október - fannst það aðeins of langt þannig að ég er komin á byrjunarreit. Það koma því ekki inn myndir af íbúðinni fyrr en það er komið í lag. Undir ágúst 2006 er ég samt búin að setja inn nokkrar myndir af því sem búið er að vera að gerast.

International Parý á morgun sem verður án efa skemmtilegt og svo er bara að krossa fingur og vona að sólin láti sjá sig á sunnudaginn svo hægt verði að sóla sig á ströndinni.

Nenni ekki að vera að hafa þetta langt í bili, enda betra að þegja og vera talinn heimskur heldur en að tala og taka af allan vafa.

föstudagur, ágúst 04, 2006

Nu skal man drikke øl og være glad

Jú ég er á lífi og hef það bara nokkuð gott. Fór á pósthúsið í dag að sækja pakkann sem ég sendi sjálfri mér (dálítið spes, ég veit) og þá beið bara internetstartpakkinn eftir mér þar líka og búinn að bíða síðan í síðustu viku. Ég skildi ekkert í þessu því þetta átti að vera löngu komið en heppin að gamla á pósthúsinu var nógu vakandi til að taka eftir því að ég átti fleiri en einn pakka.

Annars hefur byrjunin verið róleg. Bjargaði upphafinu á Danmerkurdvölinni að hún Stína mín var í sumarhúsi í Ebeltoft og hún skutlaðist eftir mér á laugardaginn. Þar var setið og kjaftað og hlegið fram eftir kvöldi, þannig að ég var með strengi í maganum daginn eftir. Við skelltum okkur að sjálfsögðu á diskótekið í Ebeltoft sem var mjög skemmtileg upplifun og þá sérstaklega planið á skóstuldinum mikla. Ekki höfðum við þó skó upp úr krafsinu en afrakstur kvöldsins var Tuborg upptakari og voru menn misánægðir með það eins og gengur og gerist. Sunnudagurinn var svo tekinn í sólbað og afslappelsi eins og það gerist best.

Skólinn byrjaði svo á miðvikudaginn. Þetta hefur verið mjög rólegt framan af sem er mjög gott því það verður að viðurkennast að danskan er ekki upp á marga fiska. Við erum 3 frá Íslandi á námskeiðinu og svo er einn frá Frakklandi sem talar "bínulítla íslenska". Höfum við að sjálfsögðu gert hann að heiðurs Íslendingi á svæðinu.

Íbúðin mín er algert æði, ennþá dálítið tóm en það er svo merkilegt með það að í dönskum verslunum er ekkert atriði að eiga hlutina til á lager - hver getur ekki beðið í 5 vikur eftir einum svefnsófa...Maður spyr sig! Eðal vindsæng úr Jysk Sængetøjslager hefur tekið við sófahlutverkinu þangað til gullsófinn mætir á svæðið. Sjónvarp, eldhúsborð og stólar og svoleiðis smáhlutir eru ennþá á innkaupalistanum en það er nú stefnt að því að bæta úr því á morgun - ef heilsan leyfir, það er nebblega stefnt á smá djamm með liðinu í kvöld ;)

Læt þetta duga í bili - Góða skemmtun um verslunarmannahelgina og gangið nú hægt um gleðinnar dyr :)