sunnudagur, desember 31, 2006

Áramót

Árið 2007 á morgun, síðasti dagur ársins 2006 í dag - eins og svo oft áður hefur tíminn flogið áfram án þess að maður geri sér grein fyrir því. Árið hefur hins vegar verið mjög viðburðarríkt og gott og vonandi að árið 2007 haldi áfram á sömu braut.


Jólin búin vera yndisleg. Aðfangadagur var óvenjulegur en ég hefði ekki getað hugsað mér hann betri. Við borðuðum ofboðslega góðan mat eins og vera ber, spiluðum og kjöftuðum fram á nótt. Þó svo að það hefði örugglega verið gaman að fara heim um jólin (þar sem alltaf er best að vera) þá er ég alveg búin að sjá að jólin snúast ekki bara um hefðir og að allt sé eins og það hefur alltaf verið heldur miklu frekar um það að gera "heima" þar sem maður er í það og það skiptið. Að njóta þess að eiga óvenjuleg jól í stað þess að sakna jólanna sem maður hefur alltaf átt.

Martin, Þór og Áróra á aðfangadag


Jóladagur og annar í jólum einkenndust af bókalestri, Nóa Síríus (sem leyndist mér til mikillar gleði í einum jólapakkanna), smákökum, laufabrauði og malti og appelsíni. Alveg ótrúlega næs. Brugðum okkur reyndar að sjá Bond á annan í jólum - bara þrælgóður Bond og þrælflottur í kaupbæti ;)

Takk öll sömul fyrir jólakveðjurnar og jólakortin – gott að vita til þess að það er hugsað til manns í útlöndunum. Í tilefni þess hef ég sett inn myndir undir jól og áramót ef einhverjir vilja sá heimildarmyndir af herlegheitunum :)

Jóhann og Anna María mín komin og svo yndislegt að hafa þau :) Við Anna María erum búnar að hreinsa allverulega úr búðunum og fæturnir aðeins farnir að þreytast eftir margra klukkutíma þramm á strikinu. Karolina, vinkona mín frá Póllandi, kom svo í gær og verður hjá okkur um áramótin. Klikkuðum reyndar á því að kaupa flugelda þar sem þeir voru ekki seldir á strikinu ;) Vonum að dönsku kreppurnar séu ekki jafn sparsamar á flugeldana eins og þær eru á jólaskreytingarnar! Það er eitt hús í mínu hverfi sem er almennilega skreytt en jólaseríur sjást annars á stangli. Menn hafa hins vegar verið býsna ötulir við að sprengja síðan fyrir jól þannig að ég vona að við sjáum nokkra flugelda.

Engin áramótaheit komin á listann - tillögur vel þegnar í kommentin ;)

Gleðilegt nýtt ár!

laugardagur, desember 23, 2006

Lille juleaften

Þorláksmessukvöld og jólin bara á morgun. Búið að baka og skúra og gera og græja, allt klappað og klárt :) Skrýtið að vera ekki á þvælingi á Þorláksmessunni, ekkert jólatré við Kaupfélagið og engir jólasveinar með karamellur og epli í poka. Verður samt skrýtnast að fá ekki jólasvein inn að rúmi í fyrramálið - Glóan mín fékk þá reyndar alla leið upp í rúm í fyrra þessar elskur.

Lambalæri frá Nýja Sjálandi á matseðlinum annað kvöld með tilheyrandi kræsingum og að sjálfsögðu sendi mamma mér laufabrauð og malt og appelsín til þess að þetta verði nú fullkomið. Anna María mín búin að pakka niður í fjársjóðskistu öllu því sem var á óskalistanum mínum frá Íslandi þannig að nú tel ég bara niður þangað til hún og Jóhann koma. Held að jólin gætu bara hreinlega ekki orðið betri :)

Óska ykkur öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári. Vona að enginn fari í jólaköttinn og hlakka til að sjá ykkur sem flest á nýja árinu.

Jólakveðja frá Árósum

þriðjudagur, desember 19, 2006

Mjaðmir ljúga ekki ....

Ójá, það er staðfest og miðinn keyptur. Þann 9 mars 2007 verðum við, ég, Áróra og Lydia í Álaborg á tónleikum með Shakira :) Það eru ekki nema rétt um 10 ár (mögulega 11) síðan ég keypti mér Piez descalsos og mér finnst eins og það hafi verið í gær. Tónlistin hefur aðeins breyst, er orðin meira comercial en mjaðmir ljúga ekki og hún stórvinkona mín hún Shakira er "pura latina" og mikið rosalega verður gaman að "mover las caderas" við almennilega tónlist svona til tilbreytingar.

Hasta la vista beibís!

mánudagur, desember 18, 2006

Einhvern tíman verður allt fyrst



Hef ósjaldan haldið því fram að miðað við undirbúing fyrir próf þá sé stefnan tekin á 11. Það hefur nú meira verið gert til þess að peppa sjálfa mig og aðra upp í lærdómnum þegar myglan er orðin gríðarleg og nennan engin. Það hlaut því að koma að því að 11 yrði staðreynd í einkunnabókinni og merkilegt ef það var ekki bara í faginu sem ég taldi mig vera lélegasta í ;). Nú liggur leiðin bara upp á við, enda enn hægt að stefna á 13 ;)

Jólahreingerning á morgun, ekki seinna vænna þar sem "kettirnir" eru orðnir óvenju stórir miðað við árstíma ;) Svo er bara nægur tími til þess að njóta þess að jólin séu að koma - allt of langt síðan ég hef verið komin í jólafrí svona snemma. Ætla svoleiðis að gera ekki neitt, nema baka smákökur og svo er aldrei að vita nema maður skelli sér á jólamarkað í Den Gamle By, en þar er þessi mynd einmitt tekin

laugardagur, desember 16, 2006

Allt að hafast

Próf á mánudaginn, það síðasta fyrir jól. Í þetta skiptið (og í fyrsta skipti síðan sögur hófust) hef ég ákveðið að láta duga að lesa bara glósurnar enda ekki alveg tími til að lesa 600 bls. um höfundarétt sem á tíðum er bara fullur af tæknimáli og öll tækni komin frá hinum vonda. Ef ekki væri fyrir sjónvarpsútsendingar og internet þá væri lesefnið helmingi minna og á mun skiljanlegra tungumáli ;) Er annars að hugsa um að skella í mig eins og 2 bjórum fyrir prófið til þess að róa taugarnar og geta þá allavega ruglað mig út úr þessu ef svo skyldi fara að kunnáttan verði ekki upp á marga fiska ;)

Jólakort og jólagjafir farnar að streyma í Gulluland, nú vantar bara jólahreingerninguna og smákökubakstur til þess að jólin geti komið. Svindluðum reyndar aðeins og höfðum Christmas dinner á fimmtudaginn þar sem allir komu með einn rétt og jólapakka og svo var spilað upp á pakkana - sem hreinlega slógu í gegn, sumir þó meira en aðrir og þá sérstaklega forláta fjólublár klósettbursti! Það þarf sem betur fer lítið til þess að gleðja þessar elskur. Ég fékk hins vegar þessa dýrindis Bangsímon eldhúsklukku sem hlotið hefur heiðurspláss í höllinni.

Þar til næst, hafið það gott og farið varlega í jólastressinu :)

þriðjudagur, desember 12, 2006

Magasár

Hressandi að valda sjálfum sér og öðrum vonbrigðum í fyrsta prófinu ... náðist ... en ekki með tilætluðum árangri. Maður skyldi ætla að þegar maður er farinn að æla blóði sólarhringinn fyrir próf og löngu hættur að sofa í gegnum heila nótt, að maður gæti drullast til þess að koma því frá sér sem baráttan hefur snúist um síðustu vikur, sérstaklega þegar maður kann alveg efnið! En nei, það er greinilega ekki hægt að búast við því. Hver stjórnar þessu - ég bara spyr!

sunnudagur, desember 10, 2006

Próf, próf, próf

Hún Stína mín elskulegust gerði mér kleift að sleppa lærdómnum í 10 mínútur með þessu snilldar "prófi". Það verður nefnilega að heita próf til þess að ég láti frá mér bækurnar, þvílíkur er áhuginn ;) Til þess að endurgjalda greiðann hef ég ákveðið að skella þessu hérna inn, vona Stína mín að ég nái að stytta þér aðeins stundirnar í próflestrinum ;)

Þið hin, ef einhver eru, megið endilega svara þessu líka :) Ykkur ber eiginlega skylda til þess þar sem ég er í próflestri og á svo agalega bágt vegna þess ;)

Koma svo, vera með!

1.Hvað er það fyrsta sem þér dettur í hug um mig ?

2. Hvaða lag minnir þig á mig?

3. Hvaða mynd minnir þig á mig?

4. Hver er fyrsta minningin þín um mig?

5. Hvaða dýr minni ég þig helst á og afhverju?

6. Er eitthvað sem þú veist ekki um mig og langar að vita ?

7. Höfum við djammað saman ?

8. Ætlarðu að setja þetta á þitt blogg svo ég geti svarað um þig ?

laugardagur, desember 09, 2006

Heilsuátaki frestað um óákveðinn tíma

Allavega fram yfir próflestur! mögulega aðeins lengur ;) Má bara alls ekki við að missa 3 tíma á dag úr lærdómnum en það tekur um það bil svo langan tíma að fara í ræktina. Hins vegar má ég vera að því að skoða sólarlandaferðir, blogg- og barnalandssíður og annað mjög svo áhugavert á veraldarvefnum!

Fór líka að spá í það að ég hef aldrei verið jafn vel á mig komin, heilsuátakslega séð, eins og þegar ég var að vinna í Zöru í Smáralind og þá borðaði ég twix í svo til öll mál og drakk kók. Til hátíðabrigða var djúpsteiktur kjúklingur og franskar úr Nóatúni ... nammi namm (eða þannig). Breytingar hafa því verið gerðar á mataræði undirritaðrar. Kók og súkkulaði verða nú aðaluppistaðan í fæðinu og kjúklingur (þó ekki djúpsteiktur) við sérstök tilefni!

Takk fyrir bless!

föstudagur, desember 08, 2006

Lærdómur - þrældómur

Mikið vildi ég óska að Glóan mín væri núna hjá mér, að kokka handa mér chilibuff og pico de gallo og til að sjá um að gera í mig fastar fléttur svo hárið þvælist ekki fyrir lestrinum :)

Bara 10 dagar eftir í lestri og 20 dagar þangað til Anna María og Jóhann koma til mín - þetta reddast, allt saman :)

miðvikudagur, desember 06, 2006

It makes you think

Alltaf gott að gera allt annað en að lesa fyrir próf - allt of fáar blaðsíður á lestrarlista dagsins en það reddast. Valnámskeið fyrir veturinn 2007-2008 hafa verið birt og mjög gleðilegt að ég get hugsað mér að taka 9 einingar á haustönn og 6 á vorönn! Spurning hvort maður sé á rangri hillu í lífinu ...

Heilsuátakið byrjar vel - 7 dagar búnir af desember og ég hef ekki enn farið í ræktina ;) Jibbíkóla!

sunnudagur, desember 03, 2006

Dekurhelgi að baki ...

og formlegur próflestur hafinn :( Já tími jogginggalla, ullarsokka, matar sem elda má á 3 mínútum eða skemur er tekinn við með tilheyrandi þrifpásu - mér til mikillar gleði eða þannig ;)

Helgin hefur verið ljúf það sem af er. Lydia (sem var með okkur á dönskunámskeiðinu í ágúst) kom á miðvikudagskvöldið og fer aftur í dag. Við ákváðum að vera ekkert of aktívar í djamminu vegna próflesturs svo það var "girls night in" á föstudagskvöldið. Elduðum góðan mat og svo tók dekrið við - litun, plokkun og maskar og Nynne í tækið með tilheyrandi hlátrasköllum. Hún Nynne er danska útgáfan af Bridget Jones og alveg jafn misheppnuð ef ekki verri - Alveg nauðsynleg fyrir stelpukvöldin.

Í gærkvöldi átti nú aldeilis að lyfta sér aðeins upp í tilefni væntanlegrar einangrunar. Eftir margra tíma tilbúning var skundað á Social Club því þar er bjórinn fríkeypis milli 11 og 12 og kreppa mikil í gangi - ekki það að ég var bara í vatninu. Eini gallinn við Social Club er hins vegar að þar er meðalaldurinn ca. 18 ár og tónlistin er vægast sagt hörmung og ég segi það ekki bara af því að ég er orðin gömul! Ég gafst sem sagt upp kl. 12 og fór heim að sofa!

Nýjasta nýtt er að ég er komin í heilsuátak enn einu sinni en nú skal það takast - ég skal hunskast í ræktina alla daga í desember (nema prófdaga) og ég skal verða aftur mjó - gúdd bæjj hliðarspik og bingó!