Þessi mynd sem ég tók þegar ég keyrði heim af Kátum í sumar er dálítið lýsandi fyrir stemninguna í Gullulandi undanfarna daga og vikur. Rigningin sem er BARA búin að vera síðan ég kom heim frá Kanada er aðeins farin að verða þreytandi og liggur við að ég myndi frekar vilja hafa snjó í september en þessa endalausu rigningu sem gerir allt svo grátt og litlaust en fær mann þó til þess að hugsa og pæla í hlutunum og hvað það er sem maður sjálfur getur gert til þess að gera lífið svolítið skemmtilegra í staðinn fyrir að sitja og bíða eftir því að eitthvað gerist. Ég skellti mér loksins á salsanámskeið með Rán og Gló og nú dönsum við á sunnudögum eins og enginn sé morgundagurinn. Það er BARA gaman! Kvenfélagið er líka komið í átak og gott ef ég er ekki sú eina sem búin er að þyngjast í því átaki ;) Það er svo gott fyrir móralinn ;) Foreldrarnir áttu 30 ára brúðkaupsafmæli á miðvikudaginn sem eru að sjálfsögðu mikil gleðitíðindi og merkileg :) Gulla amma varð líka 80 ára í gær og hefur ákveðið að bjóða til fjölskylduveislu í bústað við Apavatn um helgina, með tilheyrandi áti og skemmtilegheitum. Ekki laust við að ég hlakki svolítið mikið til að komast aðeins út úr borginni þó ekki sé nema í 2 daga.
Annars hafa síðustu dagar farið í miklar pælingar um lífið og tilveruna og þátttöku mína í þeim leik. Pælingar um tilganginn með þessu öllu saman og sumt eflaust væmnara en eðlilegt þykir. Ég held að á síðustu árum hafi algengasta áramótaheitið mitt verið að komast aftur í samband við gamla vini - fólk sem mér þykir svo ótrúlega skemmtilegt en af einhverjum ástæðum hef misst samband við og finnst erfitt að hringja í eftir svona langan tíma. Ég hef misst af svo mörgum finnst mér, fyrst þegar ég fór í Zöruævintýrið góða og gleymdi því að ég gæti átt mér líf fyrir utan vinnuna og svo ekki síður núna í lærdómsgeðveikinni sem hefur staðið yfir síðustu 5 árin. Ég hef oft pælt í því hvað þetta fólk sé að gera í dag og einhvern vegin gert ráð fyrir því að það sé hamingjusamt og í góðum málum almennt - sem það örugglega er. Flestir að sinna sínu eins og ég hef verið að sinna mínu. Suma þekkti ég bara í stuttan tíma, aðra næstum alla mína ævi, en allt á þetta fólk sameiginlegt að hafa verið hluti af mínu lífi í einhvern tíma og átt vissan þátt í því að ég er sú sem ég er í dag.
Það er ekkert eðlilegra en að fólk missi samband hvert við annað, fólk þroskast í mismunandi áttir, sækist eftir ólíkum hlutum í lífinu eða bara hlutirnir æxlast með þessum hætti -það þarf ekkert að vera neitt slæmt. Manni verður engu að síður brugðið þegar maður sér að lífið er ekki jafn einfalt og gott og þær skýjaborgir sem maður hefur byggt sér í huganum og að slæmir hlutir geta hent fólk sem maður þekkti einu sinni og það er ekki hræsni að taka slíkt nærri sér. Ég er svo þakklát fyrir að hafa fengið að gera allt það sem ég hef gert í lífinu og fengið að kynnast öllu þessu fólki og ég geri mér grein fyrir að ég er sérstaklega heppin að hafa í kringum mig fólk sem gafst ekki upp á mér þrátt fyrir tímaleysi, sambandsleysi, próftímabil og tilvistarkreppur. Vini og fjölskyldu sem hafa gefið mér svo óendanlega mikið og ég vona að á einhverjum tímapunkti í lífinu þá nái ég að endurgjalda þeim.
Það sem síðustu dagar hafa kennt mér er að þegar mínum tíma lýkur vil ég hafa lifað lífinu, verið hamingjusöm, gert hluti öðrum til góðs og ekki hafa þá tilfinningu að ég hafi misst af einhverju sem ég hefði viljað gera af því að ég þorði ekki að láta slag standa.
föstudagur, september 26, 2008
Haustið
Birt af Gulla kl. 08:35
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
5 ummæli:
Hæhæ sæta!
Svo innilega sammála þér í þessu bloggi!! Það er ótrúlegt hvað maður man þegar maður fer að rifja upp gamalt. Vildi bara láta þig vita að ég fylgist alltaf með þér.
Kveðja af landsbyggðinni hehe
Kristín á Húsavík
Við fylgjumst alltaf með þér úr fjarska !!!
Kveðja
Hjalti og Dagbjört
Eins og þú veist þá fylgist ég alltaf með þér á blogginu :)
Guffi
Jebb og ég kíki hérna inn annað slagið :)
Kveðja
Elfa Björk
Takk elskurnar :) Gaman að sjá hverjir reka hér inn nefið. Aldrei að vita nema maður reki inn nefið í kaffi hjá landsbyggðarfólkinu næsta sumar ;)
Skrifa ummæli