laugardagur, október 18, 2008

Mig langar svo!

Gott að hugsa um það eitt þessa dagana hversu sniðugt það væri að leigja íbúðina mína, hætta að skrifa þessa blessuðu ritgerð og drífa mig bara út til Guatemala í einhvers konar sjálfboðaliðastarf! Alls engin geðveiki á þessum bænum ;)

miðvikudagur, október 15, 2008

Áfram Ísland

Loksins, loksins! Loksins gerðist eitthvað jákvætt á þessu blessaða landi okkar, 1-0 sigur á Makedóníu í fótbolta nægir mér til að gleyma helv.. kreppunni þó ekki sé nema í smá stund. Öskur á sjónvarpið eru líka svo hressandi svona hvers dags ;)

Annars hefur kreppan engin áhrif á mig umfram það sem almennt er en maður getur ekki annað en borist með straumnum enda ekki um annað talað hvar sem maður kemur. Nú er ekkert annað að gera en að girða í brók, hætta að væla og rífa sig uppúr þessu! Það er eins gott að eftir 50 ár þá getum við sagt að við höfum lært eitthvað af þessu öllu saman!

Ókeypis sparnaðarráð í kreppunni frá mér er að drífa sig út í göngu - alveg fríkeypis og svo ótrúlega hressandi að anda að sér ferska loftinu. Ekki verra að slökkva á sjónvarpinu í leiðinni :) Betra en sálfræðimeðferð og ókeypis líkamsrækt! Ég fór í ótrúlega vel heppnaða göngu á Esjuna um daginn með Laufeyju, Ölmu og Iain vini Laufeyar frá Englandi sem var hér í heimsókn. Snjórinn, yndislega veðrið og skemmtilegur félagsskapur gerði þetta að mjög svo góðum degi og ég afrekaði það í fyrsta skipti að komast alla leið uppá topp - geri aðrir betur. Annars segja myndir meira en þúsund orð og koma hér nokkrar í tilefni dagsins.









Annað merkilegt er ekki að frétta héðan úr S5, ritgerðarskrif og heimildalestur í algleymingi og ég ekki alveg að standa mig nægilega vel í þeim efnum en ég SKAL þó klára á réttum tíma. Ég get hreinlega ekki meiri skóla og alls ekki meira krepputal ;) En þangað til næst, verið góð hvert við annað og reynið nú að hafa gaman af því að vera til - það þarf ekkert að kosta svo marga peninga.

föstudagur, október 03, 2008

Snjóar í kreppunni

Pínulítið hippókratískt að mitt í frostinu sem tröllríður íslensku efnahagslífi skuli snjóa í Reykjavíkinni fyrir sunnan og það í byrjun október ;) Snjórinn gleður hins vegar mitt litla hjarta og ég væri mest til í að fara bara út að leika mér! Æ, hvað það væri nú notalegt að hafa snjóinn bara fram að jólum sem minnir á það að það fer að verða kominn tími til að huga að serimóníum til að skreyta höllina í svartasta skammdeginu.

Kreppuna hef ég hins vegar kosið að leiða hjá mér enda er maður svo sem vanur henni á námslánunum ;) Mig munar bara ekkert um það að borga þennan 15 þús kall auka á mánuði sem íbúðalánin mín hafa hækkað um - þakka bara fyrir að vera ekki með lán í erlendri mynt.

Af lífinu er það að frétta að lærdómur mikill mun yfirtaka það næstu vikur og mánuði en meistararitgerðinni á að skila þann 5. janúar 2009. Eftir það verður mér alveg sama þó ég þurfi aldrei að setjast aftur á skólabekk ;) Ég er reyndar mjög spennt fyrir efninu mínu og hlakka mikið til þess að kljást við það og reyna að skila frá mér einhverju af viti. Mesti vandinn er hins vegar að festast ekki í heimildaleitinni og byrja að skrifa, 10 bls. af ca 100 komnar og mættu vera fleiri ;) Það gengur sem sagt hægt en örugglega við ritgerðarskrifin líkt og með átakið góða!