laugardagur, apríl 29, 2006

Fyrsta prófið búið

Og gekk bara sæmilega, kanski ekki 11 en vona að ég hafi nú allavega náð. Þokkalega sanngjarnt allt saman og get ég engum um kennt nema sjálfri mér ef illa fer. Þá er bara að koma sér í gang fyrir næstu átök en næst verður próf í hinum gríðarlega vinsæla og alls ekki þurra kröfurétti - get ekki beðið eftir að fá að láta ljós mitt skína... Held að af öllu sem ég hef lært um ævina (og það er þónokkuð) þá hafi þetta vinninginn varðandi leiðinlegheit.

Annað aðeins skemmtilegra en kröfurétturinn er að snillingarnir á Þórshöfn á Langanesi samþykktu sameiningu við Bakkafjörð (jebb - góð hugmynd). Ég hef ekkert búið að ráði heima í rúm 10 ár og kanski ekki rétt af mér að gagnrýna þetta en ég skil ekki hverjum datt í hug að þetta gæti komið sveitarfélögunum til góða - Því miður held ég að nú hafi mínir menn skotið sig í fótinn og þó ég hafi lesið glansbæklinginn og spáð og spegulerað sá ég ekkert sem gæti rökstutt þessa sameiningu og þá fyrir hvorugt sveitarfélagið. Held að margir hafi yppt öxlum og frekar spurt sig af hverju ekki í staðinn fyrir af hverju. En það þýðir ekki að væla yfir því heldur bara girða í brók og gera gott úr þessu.
Nú eru sem sagt komnar fram tillögur á hið nýja sveitarfélag - ójá - þær eru góðar!
- AUSTURBYGGÐ
- FONTSBYGGÐ
- FUGLABYGGÐ
- GUNNÓLFSBYGGÐ
- GUNNÓLFSVÍKURBYGGÐ
- GUNNÓLFSVÍKURHREPPUR
- HAFNABYGGÐ
- HAFNARBYGGÐ
- LANGANESBYGGÐ
- LANGANESHREPPUR
- LANGANESSTRÖND
- NESBYGGÐ
- NESJABYGGÐ
- NORÐAUSTURBYGGÐ
- NORÐAUSTURHREPPUR
- NORÐURBYGGÐ
- NORÐURHÖFN
- SAMBYGGÐ
- SJÁVARBYGGÐ
- STAKFELLSBYGGÐ
- STRANDABYGGÐ
- ÞÓRSHAFNARBYGGÐ
Sumt bara allt í lagi en hvað er málið með allt þetta -byggð. Ég er bara ekki að kaupa það. Ég vil búa í hreppi - það er sko alvöru. Væri samt æði að búa í fuglabyggð. Er að hugsa um að færa lögheimilið mitt aftur í dýrðina og dásemdina svo ég geti greitt því atkvæði mitt.

Jæja kröfurétturinn les sig víst ekki sjálfur

föstudagur, apríl 28, 2006

Botni kæruleysisins náð

Það hefur sjaldan gerst að kl. 10 kvöldið fyrir próf þá eiginlega sé ég ekkert búin að læra allan daginn. Prófógleðin góða hefur nú gert vart við sig og því stefnir allt í það að prófstressið láti nú sjá sig eftir mikla bið og eftirvæntingu. Búin að lesa innan við helminginn af glósunum mínum sem þýðir að eftir eru um 4 tímar í lestri allavega... Ég vona að undirmeðvitundin hafi verið að vinna vinnuna mína síðustu vikuna og að fyrir vikið upplifi ég ekki fyrsta fallið mitt um ævina (ef frá er talið þegar ég féll í eðlisfræði í Guatemala um árið, sælla minninga og var sett í útivistarbann í kjölfarið). Það væri nú alveg til að toppa tilveruna að taka upp á því að falla svona þegar útskrift er handan við hornið og ekki séns að komast til Árósa nema ég útskrifist í sumar.

Er samt að hugsa um að fara út að hlaupa (lesist labba - þolið dugar í ca. 3 min) því veðrið er geggjað og ég hef ekki hugsað um annað í allan dag en hvað mig langar að vera úti í staðinn fyrir að hanga inni að læra.

Krossa fingur og vona að KR-heimilið sé til heilla en ekki til bölvunar.

Sól, sól, skín á mig

Í gærkvöldi átti ég eitthvert það allra skemmtilegasta kvöld sem ég hef átt lengi. Fékk óvænt boð á tónleika með Sinfóníuhljómsveitinni, Eivöru og Ragnheiði Gröndal og var það vægast sagt stórkostleg upplifun. Ég fékk gæsahúð strax í fyrsta laginu og hún hvarf svona um það leyti sem ég settist upp í bíl eftir tónleikana. Kaffihús og kjaft um allt og ekkert á eftir gerði svo líka góða hluti enda félagsskapurinn ekki af verri endanum. Takk fyrir kvöldið yndislega fólk.

Próflesturinn gengur hins vegar ekki sem skildi enda ekki hægt að húka inni og lesa þegar veðrið er svona gott. Kæruleysið hefur fundið mig og einkennt próflesturinn til þessa. Áttaði mig á því í morgun að ég átti alveg eftir að lesa eina grein og prófið í fyrramálið! Þakka guði fyrir að lögin eru mjög ítarleg og bjarga miklu fyrir tossa eins og mig. Krossa fingur og vona að það komi ritgerðarspurning um niðurfellingu saksóknar - þá væri miklu bjargað.

Hetjustig dagsins fær fjölskyldan í Svíþjóð og sérstaklega litla prinsessan sem varð þriggja vikna í gær og er alveg að gera frænku sína ótrúlega stolta með hetjuskapnum. Knús og kossar til ykkar.

þriðjudagur, apríl 25, 2006

Lærdómsstemning

Eða þannig! Hef aldrei lent í öðru eins - það er bara ekki séns að ég nenni að læra! Síðustu daga hef ég fundið mér allt annað til að gera sem skyndilega hefur orðið mjög mikilvægt. T.d. er Oddur núna kominn á sumardekkinn (ekki viljum við að hann sé inni í bílageymslu, óhreyfður, í rúman hálfan mánuð í viðbót). Ég er búin að stúdera Danmerkurdæmið endalaust vel, enda ekki seinna vænna, ég er á leiðinni út í lok júlí. Ég hef eldað oftar síðastliðna viku heldur en alla önnina. Ég hef sjaldan verið jafn vel að mér í því sem er að gerast úti í hinum stóra heimi og síðustu viku. Og síðast en ekki síst þá tók ég upp á því að byrja að blogga í miðjum próflestri... Já ég held að stefnan sé tekin á 11 í næsta prófi, sem nota bene verður tekið í KR-heimilinu! Ég myndi mögulega leggja leið mína í KR-heimilið ef til stæði að vefja klósettpappír utanum það eða jafnvel flagga ÍBV fánanum á svæðinu en hef fulla trú á því að það kunni ekki góðri lukku að stýra að þurfa að taka þar 3 próf. Þetta verður stemning.

Það er hins vegar stemning hjá nágranna mínum (þ.e. þeim sem á svalirnar við hliðina á mér) sem er orðinn svolítið gamall og situr úti í sólbaði alla daga þegar sólin lætur sjá sig. Gamli tjúnnar óperuna og sest út með kanaríeyjahandklæðið í sólstólinn og situr sem fastast þar til sólin fer af svölunum. Fyrir vikið er karlinn orðinn svartur en ég sit og skæli því það skín bara sól á mínar svalir í klukkutíma á dag og þá bara á smá part þannig að ég er ennþá með marglyttusyndrómið og sumarið alveg að koma. Já það er sko ekki tekið út með sældinni að vera í próflestri.

fimmtudagur, apríl 20, 2006

Besta afmælisgjöfin

Það verður að viðurkennast að ég átti bara nokkuð góðan afmælisdag. Fékk að fara með Jóhanni að skoða parket og flísar á nýju íbúðina hans (ég veit! það er misjafnt hvað fólki finnst skemmtilegt) og svo fórum við í kaffi til Tótu sem var búin að myndast við að baka afmælisskonsur sem voru náttúrulega alveg að gera sig fyrir verslunarþreytta. Hvítvínsglas með Svönu og gott spjall um kvöldið gerði svo góðan dag enn betri.

Best við daginn í gær var þó að Maja og Gunni eignuðust strák sem er svo heppinn að eiga sama afmælisdag og ég og verður því sérstaklega dekraður af minni hálfu um alla ævi. Innilega til hamingju Maja og Gunni, ég get ekki beðið eftir að fá að sjá prinsinn.

miðvikudagur, apríl 19, 2006

Enn einn afmælisdagurinn

Í dag er ég í fyrsta skipti á ævinni 28 ára. Ekki ýkja merkilegt nema fyrir það að í dag eru líka 10 ár síðan ég hélt upp á afmælið mitt í Mið-Ameríkunni, nánar tiltekið í Guatemala. Nú 10 árum síðar er ég svo alls ekki á þeim stað í lífinu sem ég ætlaði mér að vera á þegar ég stóð í Mið-Ameríku og ákvað að þetta væri aðeins upphafið að öllum þeim ævintýrum sem ég ætlaði að lenda í um ævina. Aðeins upphafið að því að ég myndi leggja allt mitt í að bjarga heiminum. Ég hafði miklar og ákveðnar skoðanir á heiminum sem að mínu mati var í ruglinu og ég ætlaði sko að sjá til þess að það lagaðist. Ég ætlaði alltaf að búa í ferðatöskum og fara á milli fátækra landa í sjálfboðaliðastörf. Þegar ég hugsa tilbaka þá finnst mér svo langt síðan þetta var en samt eins og allt hafi þetta gerst í gær. Í raun held ég að þetta eina ár í lífi mínu hafi haft mest um það að segja hver ég er í dag þó hugmyndirnar væru aðrar þá um hvernig ætti að nálgast takmarkið. Ég gerði mér líka grein fyrir því að það þarf kanski aðeins meira en eina stelpu frá nesinu langa til þess að geta breytt ástandinu í heilu landi en ég lærði líka að það táknar ekki að maður eigi að gefast upp og líta undan.

Þetta blogg ber ekki að skilja sem svo að ég hafi ekki lent í neinum ævintýrum eftir Guatemalaævintýrið en eins og gefur að skilja þá kemur það einhvern veginn alltaf til með að standa uppúr. Ég vonast reyndar til þess að geta bætt í ævintýrabankann næsta haust þegar stefnan verður tekin á Danmörku í lærdóm en þessu tvennu verður þó alls ekki hægt að líkja saman. Þó ég sé spennt fyrir því að komast út fyrir landsteinanna (eitthvað sem hefur ekki gerst í allt of langan tíma) þá hef ég grun um að þetta verði meira svona eins og heima á Íslandi.

Þetta er annars orðið ágætis hlé frá dómalistanum endalausa í Réttarfarinu.

þriðjudagur, apríl 18, 2006

Jæja

Gott að ákveða að prófa að blogga svona í miðjum próflestrinum. Á eftir að sjá hvernig þetta gengur allt saman en núna get ég allavega hætt að hugsa um þetta og farið að læra.