Í dag er ég í fyrsta skipti á ævinni 28 ára. Ekki ýkja merkilegt nema fyrir það að í dag eru líka 10 ár síðan ég hélt upp á afmælið mitt í Mið-Ameríkunni, nánar tiltekið í Guatemala. Nú 10 árum síðar er ég svo alls ekki á þeim stað í lífinu sem ég ætlaði mér að vera á þegar ég stóð í Mið-Ameríku og ákvað að þetta væri aðeins upphafið að öllum þeim ævintýrum sem ég ætlaði að lenda í um ævina. Aðeins upphafið að því að ég myndi leggja allt mitt í að bjarga heiminum. Ég hafði miklar og ákveðnar skoðanir á heiminum sem að mínu mati var í ruglinu og ég ætlaði sko að sjá til þess að það lagaðist. Ég ætlaði alltaf að búa í ferðatöskum og fara á milli fátækra landa í sjálfboðaliðastörf. Þegar ég hugsa tilbaka þá finnst mér svo langt síðan þetta var en samt eins og allt hafi þetta gerst í gær. Í raun held ég að þetta eina ár í lífi mínu hafi haft mest um það að segja hver ég er í dag þó hugmyndirnar væru aðrar þá um hvernig ætti að nálgast takmarkið. Ég gerði mér líka grein fyrir því að það þarf kanski aðeins meira en eina stelpu frá nesinu langa til þess að geta breytt ástandinu í heilu landi en ég lærði líka að það táknar ekki að maður eigi að gefast upp og líta undan.
Þetta blogg ber ekki að skilja sem svo að ég hafi ekki lent í neinum ævintýrum eftir Guatemalaævintýrið en eins og gefur að skilja þá kemur það einhvern veginn alltaf til með að standa uppúr. Ég vonast reyndar til þess að geta bætt í ævintýrabankann næsta haust þegar stefnan verður tekin á Danmörku í lærdóm en þessu tvennu verður þó alls ekki hægt að líkja saman. Þó ég sé spennt fyrir því að komast út fyrir landsteinanna (eitthvað sem hefur ekki gerst í allt of langan tíma) þá hef ég grun um að þetta verði meira svona eins og heima á Íslandi.
Þetta er annars orðið ágætis hlé frá dómalistanum endalausa í Réttarfarinu.
miðvikudagur, apríl 19, 2006
Enn einn afmælisdagurinn
Birt af Gulla kl. 10:43
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli