þriðjudagur, apríl 25, 2006

Lærdómsstemning

Eða þannig! Hef aldrei lent í öðru eins - það er bara ekki séns að ég nenni að læra! Síðustu daga hef ég fundið mér allt annað til að gera sem skyndilega hefur orðið mjög mikilvægt. T.d. er Oddur núna kominn á sumardekkinn (ekki viljum við að hann sé inni í bílageymslu, óhreyfður, í rúman hálfan mánuð í viðbót). Ég er búin að stúdera Danmerkurdæmið endalaust vel, enda ekki seinna vænna, ég er á leiðinni út í lok júlí. Ég hef eldað oftar síðastliðna viku heldur en alla önnina. Ég hef sjaldan verið jafn vel að mér í því sem er að gerast úti í hinum stóra heimi og síðustu viku. Og síðast en ekki síst þá tók ég upp á því að byrja að blogga í miðjum próflestri... Já ég held að stefnan sé tekin á 11 í næsta prófi, sem nota bene verður tekið í KR-heimilinu! Ég myndi mögulega leggja leið mína í KR-heimilið ef til stæði að vefja klósettpappír utanum það eða jafnvel flagga ÍBV fánanum á svæðinu en hef fulla trú á því að það kunni ekki góðri lukku að stýra að þurfa að taka þar 3 próf. Þetta verður stemning.

Það er hins vegar stemning hjá nágranna mínum (þ.e. þeim sem á svalirnar við hliðina á mér) sem er orðinn svolítið gamall og situr úti í sólbaði alla daga þegar sólin lætur sjá sig. Gamli tjúnnar óperuna og sest út með kanaríeyjahandklæðið í sólstólinn og situr sem fastast þar til sólin fer af svölunum. Fyrir vikið er karlinn orðinn svartur en ég sit og skæli því það skín bara sól á mínar svalir í klukkutíma á dag og þá bara á smá part þannig að ég er ennþá með marglyttusyndrómið og sumarið alveg að koma. Já það er sko ekki tekið út með sældinni að vera í próflestri.

Engin ummæli: