Jæja, þá eru allir 6 sumarfrísdagarnir mínir búnir og bara vinna í fyrramálið. Mikið verður nú gaman þegar hægt verður að fara að vinna eins og venjulegt fólk gerir og fá svo almennilegt sumarfrí. Reyndar ekki magnið sem skiptir máli heldur gæðin og þetta sumarfrí skoraði bara mjög hátt á gæðaskalanum. Fór til Vestmannaeyja með settinu og ömmu og hef bara sjaldan lent í öðru eins dekri. Við skelltum okkur í Jónsmessunæturgöngu á föstudagskvöldið en þar fyrir utan var mest borðað (á svona u.þ.b. 2ja tíma fresti) og reynt að njóta þess að vera í fríi.
Nú styttist bara og styttist í það að ég flytji út, fékk reyndar nett taugaáfall fyrir helgi þegar ég fékk loksins myndir af íbúðinni minni - hún reyndist 20 fermetrum minni en ég hafði gert ráð fyrir ... Danir telja nefnilega stigaganginn og alla sameign með inní fermetrafjölda íbúðarinnar. Svo sem allt í lagi að vera í lítilli íbúð en mesti gallinn við þessa er sá að hún nýtist svo illa. Eldhúsið og stofan í einu rými sem minnir meira á hol og ég sá ekki fram á það að geta komið fyrir bæði eldhúsborði og sófa! Hún var sem sagt ekki að skora hátt á gæðaskalanum. En allt er gott sem endar vel og þegar ég var búin að lýsa áhyggjum mínum fyrir konunni sem er að vinna í málinu fyrir mig og eiginlega farin að huga að því að finna mér aðra íbúð um leið og ég væri komin út, þá fann hún bara fyrir mig aðra í annarri blokk við sömu götu. Greyið, heldur örugglega að ég sé nett greindarvísitöluskert, allavega alger frekja en hún fær allavega þolinmæðisstig dagsins og næstu vikna.
Já ég er sem sagt byrjuð að hrella fólkið í Danmörku með eftirminnilegum hætti og það skemmtilegasta við þetta allt saman er að þetta er bara rétt að byrja ;)
mánudagur, júní 26, 2006
Sumarfrí
miðvikudagur, júní 14, 2006
Hans í koti
Nú er það búið! Nú sel ég þennan eðalvagn minn, þ.e.a.s. þegar ég verð búin að fara með hann 1x enn á verkstæðið. Eins og við Oddur eigum í góðu og skilningsríku sambandi þá fer þetta nú að verða dálítið þreytandi en vonandi að hvíld á bílastæði í borginni fram til morguns fái hann til þess að fara í gang - Mikið hafa verkstæðisgaurarnir grætt á þessum bílakaupum mínum. Það er eins gott að það er svo nóg til af peningum í heiminum.
þriðjudagur, júní 13, 2006
Allt að bresta á
Búin að panta flug til Danmerkur 28. júlí, nú þarf ég að fara að plana allt sem ég ætla að gera áður en ég fer út ;) Það munaði ekki nema 60 þúsund krónum á flugi aðra leið til Kaupmannahafnar milli Icelandair og Iceland express - merkilegt nokk. Ég græddi því 60 þúsund í dag - gott að eiga nóg af peningum!
Tapas á laugardagskvöldið. Mikið rosalega var það skemmtilegt, þökk sé ótrúlega góðum mat og ekki síður góðum félagsskap. Mikið rökrætt og mikið hlegið - Takk stelpur þetta var frábært kvöld.
Eins og mér finnst gott og gaman að fara út að borða þá hefur mér alltaf þótt mjög áhugavert að kanna hvort ekki sé hægt að fá bara næringu í æð svona dags daglega... Mér finnst óheyrilega leiðinlegt að ákveða hvað ég á að borða, hvenær ég á að borða það, svo ekki sé talað um að versla í matinn og elda. Væri mun einfaldara ef maður fengi bara 1 poka sem maður gæti fest á öxlina og hann myndi duga út daginn. Lífið væri svo mun einfaldara!
föstudagur, júní 09, 2006
London baby
Ójá, gamla er bara á leiðinni til London (og það í fyrsta skipti!) í byrjun júlí - Bara stemning fyrir því. Það er ekki á hverjum degi sem uppáhalds frænkan hringir og býður manni með í helgarferð til London. Takk Rósa Björg - þetta verður besta "frænkuferð" sem farin hefur verið ;) Við skvísurnar höfum ýmislegt planað en fyrst og fremst á að njóta þess að vera til. Ég get hreinlega ekki beðið.
Af danmerkurför er það að frétta að ég er búin að fá íbúð. Hljómar vel en ég fæ myndir í næstu viku. Hef svo sem ekki miklar áhyggjur því blokkin er svo til alveg ný, íbúðin 3ja herbergja, á 3ju hæð og 3 km í skólann. Hins vegar er Ikea í göngufæri og þangað verður stefnan tekin fyrsta daginn því íbúðin er ekki með neinum húsgögnum (nema þvottavél og þurrkara sem er bara gott - vona reyndar að uppþvottavél leynist í eldhúsinu) og ég nenni ekki að hafa neitt með mér út nema fötin mín og kanski nokkrar bækur.
Það er allavega góð stemning í Gullulandi þessa dagana.
miðvikudagur, júní 07, 2006
Átak spátak
Hlaupaferðirnar hafa snúist upp í gönguferðir. Þetta byrjaði allt saman voðalega vel, ég skellti mér í gallan, hljóp niður stigann, dró andann djúpt í anddyrinu áður en ég hætti mér út og lét svo vaða.... við sólfarið var ég svo gjörsamlega sprungin að ég íhugaði að snúa við og láta aldrei á þetta reyna aftur. Kommon, maður á nú að geta farið meira en 300 metra í fyrstu tilraun. Ég labbaði nú samt í tæpan klukkutíma og var bara nokkuð sátt á endanum. Gerði tilraun nr. 2 í kvöld en ákvað að vera ekkert að svekkja mig á því að geta bara hlaupið 300 m. svo ég labbaði bara allan tímann ;) Já, maður verður nú stundum að vera góður við sjálfan sig.
Sæbrautin er ekki sú skemmtilegasta til að ganga eftir en fjörulyktin sem ég fann, þegar létti bensínbrækjunni og lyktinni af brenndu gúmmíi, og kríugargið minnti nú bara mjög á hlaupaferðir á Sætúnssandi nema ef frá skyldi talið að nú hljóp ég ekki. Mávarnir sem éta afgangana á planinu á Aktu Taktu gerðu þetta líka enn skemmtilegra ævintýri. Verð að viðurkenna að þegar kemur að því að fara út að hlaupa þá sakna ég þess að búa úti á landi.
Er mikið að spá í útskriftinni minni þessa dagana. Langar svo ekki að vera viðstödd hana að það er ekki venjulegt. Hélt ég væri laus við það því búið var að plana ættarmót í Vestmannaeyjum sömu helgina en það er búið að fresta því. Mér finnst því miður ekkert merkilegt við þetta allt saman (Ekki eins og maður sé kominn á leiðarenda í þessu námi) og nenni ekki að leggja á mig 4 klukkutíma setu, hlustandi á hvert nafnið þulið upp á fætur öðru og horfa á hverja manneskjuna á fætur annarri rölta upp á svið og svo niður aftur. Mér leiðast svoooo svona samkomur en langar svo að finnast þetta spennandi. Foreldrum mínum finnst ég svolítið spes (held þeim hafi alltaf fundist það) og ég hef fengið svolítið misjöfn viðbrögð við því að nenna ekki að mæta. Á ég að mæta þarna fyrir einhverja aðra en sjálfa mig??
mánudagur, júní 05, 2006
Helgin ...
var frábær og varla að ég nenni að fara að vinna í fyrramálið ;) Fór á laugardaginn með Hjöddu til Önnu Maríu sem var í sumarbústað í Biskupstungum og að sjálfsögðu liðu ekki nema 5 mínútur frá því við komum á staðinn þangað til við vorum komnar í sólbað í heita pottinum. Er ekki frá því að marglyttan hafi aðeins látið á sjá og að ég hafi fengið smá lit. Þegar sólin var farin úr heita pottinum fórum við að skoða Gullfoss og Geysi eins og góðum túristum sæmir. Lágum annars í leti og höfðum það allt of gott eins og gengur og gerist enda ekki annað hægt í jafn góðum félagsskap.
Félagsskapurin í gærkvöldi var svo ekki af síðri endanum og "útiveislumatnum" gerð góð skil (smá einkahúmor - You had to be there). Spjall fram eftir kvöldi, ís og sælgæti - alger snilld.
Vaknaði svo í morgun eftir einhvern þann versta draum sem ég hef átt í langan tíma. Dreymdi að ég var komin heim á Þórshöfn og að spila fótbolta með stelpunum í einhverjum mikilvægum leik og ég var svo léleg að annað eins hefur aldrei sést í fótboltaheiminum. Ég skoraði svoleiðis hvert sjálfsmarkið á fætur öðru og ef ég skaut ekki í eigið mark þá annað hvort hitti ég ekki boltan eða gaf á mótherjann. Vaknaði svoleiðis í öngum mínum í morgun og hef ákveðið að frá og með deginum í dag þá er ég komin í átak! Held að draumurinn hafi verið skilaboð til mín um að fara að taka mig á enda formið í sögulegu lágmarki. Nú er bara að duga eða drepast og aumingjaskapurinn skal í burtu!
laugardagur, júní 03, 2006
Ligeglad og gott betur en það
Síðasta einkunnin komin í hús og sem betur fer rétt hafðist þetta. Einkunnir þessarar annar hefðu getað verið betri en fyrst ég tolldi í fyrstu einkunn tekur því ekki að væla yfir þessu öllu saman. Ég fer sem sagt til Danmerkur í lok júlí og skólinn byrjar svo 2. ágúst. Vantar reyndar enn að fá íbúð en það hlýtur að finnast eitthvað sem ég get hugsað mér að búa í þó reyndar hafi tilraunirnar hingað til ekki borið árangur. Það er óhætt að segja að það sé ekki alveg sami standard á húsnæði í Danmörku og á Íslandi.
Næsta skref er svo bara að dusta rykið af dönskunni og fá sér eins og einn øl.