Klárlega setning helgarinnar, sögð með sterkum ítölskum hreim og tilheyrandi handahreyfingum ;) Fíflagangur mikill einkenndi helgina og var hún vægast sagt hreinasta snilld.
Fyrir þá sem vilja fá formlega ferðasögu þá hefst nú lesturinn:
Eftir að hafa farið í rúmfatalagerinn eldsnemma á föstudagsmorgni í svefnpokaleiðangur og svo í tíma þar á eftir, var skundað niður á Hovedbanegård og lestin tekin til Álaborgar. Karolina tók á móti mér á lestarstöðinni og eftir að hafa labbað alla 100 metrana heim til hennar var boðið upp á dýrindis lasagne, reyndar svolítið útlitsgallað en við dæmum náttúrulega ekki eftir útlitinu. Fórum svo "to the street" eða á "götuna" eins og það er kallað í Álaborg, en það er gaman að segja frá því að þar er heil gata með diskótekum og börum allt á sama staðnum og mikil stemning um helgar. Hittum þar fullt af Ítölum og fleiri kreisí útlendingum, þræddum nokkra staði og dönsuðum þangað til kl. 6 um morguninn. Þetta var hin besta skemmtun, liðið svona nett kærulaust og skemmtilegt, mikið hlegið og mikið tekið af myndum eins og vera ber.
Vöknuðum svo um kl. 10 á laugardagsmorgun og drifum okkur út að skoða bæinn, ekki hægt að fara til Álaborgar heila helgi og segjast bara hafa séð "götuna"! Við löbbuðum útá höfn og fórum svo á "götuna" að fá okkur hádegismat. Fannst það dálítið vandræðalegt að að allt í kringum okkur sátu danir sem voru vel í því kl. 3 á laugardagseftirmiðdegi og við voða rólegar og dannaðar eins og alltaf ;)
"Leggjan" var svo mjög velkomin rétt fyrir kvöldmat og sváfum við í allavega 2 tíma áður en Karolina töfraði fram þennan dýrðlega pólska pastarétt (já, það var eins og ég væri drottning miðað við hversu mjög var stjanað við mig). Eftir matinn héldum við svo í partý á Luna Kollegiet með alþjóðlegu félagi vitleysinga ;) Þar voru leiknir drykkjuleikir af miklum móð og sungnar drykkjuvísur þegar leið á kvöldið ;) Fórum svo á "götuna" aftur, eftir langa leið frá kollegi-inu. Svolítið erfitt þegar three amigos fá að ráða ferðinni, stökkva yfir grindverk til að prófa rólur og rennibrautir, klifra upp um allt, faðma ljósastaura og syngja drykkjuvísur ;) Já, það var stemning! Allavega þá fundum við "the street" á endanum og líkt og á föstudagskvöldið var dansað fram undir morgun.
Sunnudagurinn byrjaði rólega en endaði svo á "Chinese Dinner" sem 2 kínverjar sem eru með Karolinu í hóp í skólanum stóðu fyrir. Þvílíkt flottur matur, súpa í forrétt og svo 4 aðalréttir sem voru geðveikt góðir þrátt fyrir að koma svolítið spánskt (jafnvel kínverskt) fyrir sjónir í fyrstu. Þau útskýrðu fyrir okkur þá hefð í Kína að gestgjafinn skálar við hvern og einn við borðið og þeir drekka saman (ef maður drekkur ekki þá er það móðgun við gestgjafann) og svo er góður siður fyrir hvern og einn gest að "drekka tilbaka" með gestgjafanum, þ.e. þakka fyrir sig og skála fyrir lífinu ;) Fórum svo að sjálfsögðu niður í "afþreyingarherbergið" og spiluðum borðtennis enda ekki annað hægt þegar gestgjafarnir eru kínverjar. "Fussball" borðið vakti líka mikla lukku þrátt fyrir að keppnisskapið hafi gripið um sig eins og við má búast þegar "fótbolti" er annars vegar. Var svona stemning eins og á opnu húsi í gamla daga í Grunnskólanum á Þórshöfn, held meira að segja að ég hafi ekki spilað borðtennis síðan þá en hef greinilega engu gleymt og fór hreinlega á kostum í hælaskónum og pilsinu ;)
Kom svo tilbaka í morgun, þreytt en ánægð með frábæra helgi. Í næstu viku er það svo Finnlandsför og ég get hreinlega ekki beðið. Verður bara gaman að hitta Laufeyju mína og sjá hvernig hún hefur það í Finnlandinu, svo ekki sé talað um Rússlandsferðina sem við erum búnar að hlakka til að fara í síðan skólinn byrjaði.
Jæja, bækurnar lesa sig víst ekki sjálfar! Fyrir þá sem eru ekki löngu búnir að gefast upp á að lesa þá setti ég inn nýjar myndir undir Álaborg :)
mánudagur, október 16, 2006
Sorry for the later, I lost the street
Birt af Gulla kl. 13:16
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
Drottinn minn dýri, svo er það ég sem er með hausverk:(( er ekki alveg að fatta þetta, kannski bara aldurinn?? Maður spyr sig!!
Já, maður spyr sig! Ef frá er talið þursabitið sem ég græddi áðan (við lærdóminn nota bene!) þá er ég við hestaheilsu ;)
Skrifa ummæli