Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í gær mann í 4 mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir líkamsárás á heimili fyrrum sambúðarkonu sinnar. Mun maðurinn hafa slegið hana hnefahögg í höfuð og líkama svo að hún féll í gólfið og misþyrmt henni með öðrum hætti með þeim afleiðingum að hún fékk kúlu á hnakka, mar á bak við hægra eyra og bólgnaði á eyranu, bólgnaði og marðist í andliti, marðist yfir rifjum vinstra megin og á báðum handleggjum.
Þetta vakti athygli mína við lestur dómsins:
„Þegar [A] var kynntur framburður ákærða um sömu atburði sagði hún einfaldlega að hann væri í stöðugri afneitun og þætti henni verst að hann skyldi ekki sýna meiri iðrun. Þau hefðu engu síður tekið upp sambúð að nýju í apríl síðastliðnum, í kjölfar áfengismeðferðar ákærða og hefði hann ekki bragðað vín síðan. Sambúðin gengi vel, en því miður hefði aldrei mátt ræða umrædda atburði eða annað ofbeldi, sem hann hefði beitt hana í fyrri sambúð. [A] taldi dvöl sína í Kvennaathvarfinu þó hafa orðið til þess að ákærði gæti ekki eytt öllum staðreyndum strax, kennt henni um hvernig farið hefði og allt farið í fyrra horf í samskiptum þeirra. Í framhaldi var [A] spurð um afstöðu sína til refsingar á hendur ákærða og kvaðst hún ekki vilja að hann hlyti fangelsisdóm, heldur aðeins að hann gerði sér grein fyrir því hvert stendi ef hann héldi svona áfram. Þá kvaðst hún ekki vilja fá dæmdar bætur úr hendi ákærða.“
Get ekki annað en velt því fyrir mér hvort öll umræðan um heimilisofbeldi og væntanleg breyting á hegningarlögunum komi til með að skila einhverju. Hversu lengi ætla konur að trúa því að menn sem hafa gengið í skrokk á þeim í fjölda skipta séu allt í einu breyttir og ekki til í þeim ofbeldi. Mögulega er það hægt en ég væri ekki til í að taka sénsinn!
Annað sem ég velti fyrir mér er hvort höfðun dómsmáls sé allt í einu orðin leið til þess að kenna mönnum lexíu. Maður spyr sig.
laugardagur, september 30, 2006
Maður spyr sig
mánudagur, september 25, 2006
Í sól og sumaryl
Hef komist að því að geggjað veður og lærdómur getur vel farið saman :) Fór með Áróru og Ásgeiri Karli á ströndina í gær, þar lágum við eins og fínar frúr með öl í annarri og bókina í hinni á meðan Ásgeir tíndi steina og veiddi marglyttur - við vorum hins vegar ekki alveg jafn spenntar fyrir marglyttunum eins og gefur að skilja ;)
Sat svo í dag á svölunum heima hjá mér og las í blankalogni og um 30 stiga hita (í sól þ.e.a.s.). Gamla meira að segja komin með smá lit og marglyttan sést ekki - allavega ekki í bráð! Fór svo að hitta Áróru og Ásgeir þar sem Áróra fór að sækja bílinn sinn í Norrænu og ég átti alveg 30 kg. tösku í þeim eðalvagni. Ótrúlegt hvað hægt er að koma miklu dóti fyrir í einum bíl og vorum við alveg að tapa okkur í upppakkelsi (nýtt orð!) og fagnaðarlátum yfir því hvað leyndist í töskunum (maður getur nú ekki alveg munað hverju maður pakkaði niður fyrir 2 mánuðum síðan).
Setti inn myndir undir september 2006 - reyndar ekki margar en eitthvað er betra en ekkert ;) Fer vonandi að bæta úr því en ferðaplön eru í fullum gangi. Álaborg, Skövde, Helsinki, Pétursborg, Skagen og Kaupmannahöfn eru efst á blaði. Miklar spegúleringar eru í gangi hvort ég lifi af kuldann í Montréal í janúar en á bara eftir að skoða hvort fjármagn sé til fyrir slíkri ferð. Langar svo að heimsækja Gaby mína og Luis og að sjá litla Luka sem ég hef bara aldrei hitt en þar sem ég hef gerst sjálfskipuð "tia" þá fylgja því ákveðnar skyldur sem flestar fela það í sér að ofdekra molann :) Afleggjari af peningatré óskast, þarf að vera í góðu standi og gefa vel af sér ;)
laugardagur, september 23, 2006
Merkilegt nokk
Fer að líða að því að ég hafi verið hérna í Danmörkinni í 2 mánuði en mér finnst eins og ég hafi alltaf verið hérna og langar ekkert að fara aftur heim til Íslands. Væri svo til í að taka restina af mastersnáminu mínu hérna úti en verð þó að viðurkenna að kúrsarnir sem kenndir eru í HÍ eru meira við mitt hæfi þó það séu líka fínir kúrsar hérna og kennslan er mun betri hér en í lagadeildinni heima (með of fáum undantekningum). Það eru því miklar pælingar í gangi þessa dagana um hvað ég ætli mér eiginlega að gera við lífið.
Gamall draumur um að gerast sjálfboðaliði í Mið-Ameríku eða Afríku hefur líka verið að láta á sér kræla en vonandi að ég nái að halda honum í skefjum þangað til ég á peninga til þess að láta slag standa - þetta er ekki lengur spurning um hvort heldur hvenær.
Lífið gengur sinn vanagang og allt að komast í rútínu sem gæti þótt frekar leiðinleg en mér finnst ágæt. Kúrsarnir mínir eins og áður sagði frábærir, þó merkilegt að kúrsinn sem ég var spenntust fyrir - The UN Human Rights System - olli smá vonbrigðum á meðan International Copyright er að koma mjög sterkur inn og gott betur en það. Børne- og ungdomsret er svo þarna mitt á milli og væri mun skemmtilegri ef ég gæti tekið meiri þátt í tímum. Það er bara ekki alveg mín sterkasta hlið að tala dönskuna, sem mér finnst ég ekki nógu góð í, fyrir framan 30 dani. Þó mér fari fram í hverri viku þá fer það óendanlega í taugarnar á mér að ég skuli ekki geta talað fullkomlega - einn þolinmæðisskammtur óskast sendur með DHL sem fyrst!
Annars er gaman að segja frá því að við Áróra erum byrjaðar í ræktinni af fullum krafti. Fitness DK niðrí miðbæ varð fyrir valinu og er aðstaðan þar öll eins og hún gerist best og vonandi að það skili sér í kílóatapi sem er orðið mjög nauðsynlegt eftir lifnaðarhætti síðustu 2 mánaða ;)
Jæja, ekki hægt að vera alltaf að slæpast, børne- og ungdomsret bíður mín í sólinni á svölunum.
Vil minna á að það er enn yfir 20 gráðu hiti hér í Danmörku og stefnir allt í að það haldist næstu daga. Marglyttusyndrómið er á undanhaldi og vonandi að það komi aldrei aftur!
þriðjudagur, september 19, 2006
ARG
Annars hefur stemningin verið góð og hún kemur til með að haldast góð um leið og mér tekst að laga prentarann sem mér skal takast að sjálfsögðu.
Glóan mín á afmæli í dag, er orðin 22 ára skvísan. Til hamingju með daginn engillinn minn. Te quiero mucho.
laugardagur, september 16, 2006
Settið á leiðinni í bæinn
Reyndar ekki fyrr en í nóvember en það verður að fara í að finna handa þeim hótel í Kaupmannahöfn því þar ætlum við að vera fjóra fyrstu dagana eftir að þau koma. Er búin að vera að skoða og skoða hótel og það er víst óhætt að segja að það sé af nógu að taka. Ég var á mjög fínu gistiheimili þegar ég var í Köben í fyrra þannig að ég veit ekkert um hótelin þarna - ef einhver er vel að sér í hótelgæðum í Kaupmannahöfn þá er sá hinn sami vinsamlega beðinn um að láta mig vita ... med det samme ;)
Allt gott að frétta eins og alltaf. Fór út að borða með Binna, Lindu og Hrannari í gær á Ítalíu og var það að sjálfsögðu rosalega gott. Ekki síðri Ítalía hér heldur en heima ;) Svo kíktum við aðeins á Fatter Eskil en ég var nú samt bara komin snemma heim enda mikill lærdómur bókaður um helgina.
Allavega, bækurnar lesa sig víst ekki sjálfar en ef þið þekkjið eitthvað til í Köben þá endilega látið mig vita (við erum ekki að leita að dýrustu hótelunum, bara eitthvað fínt og vel staðsett og þá erum við glöð).
lærdómur!
Your Toes Should Be Pink |
![]() You love to dress girly and work your feminine charms, with a bit of an edge. Your ideal guy: Is confident enough to get any girl he wants Stay away from: Jerks who only see you as eye candy |
Já, ég á að vera að lesa en maður getur ekki alltaf verið fullkominn ;) Er reyndar með bleikt naglalakk á tánöglunum....
fimmtudagur, september 14, 2006
Sól, sól, skín á mig
Loksins, loksins fór ég á ströndina :) Veðrið síðustu daga búið að vera yndislegt (vá, gott að blogga um veðrið!) og ég nýtti mér það sko í dag og las í sólbaði niðri á strönd. Lífið gæti bara ekki verið betra.
Annars er lítið að frétta. Önnur vikan í skólanum að klárast og ég einhvern vegin ekki að standa mig. Hef svo sem lesið, bara aðeins of lítið en stefnan er tekin á maraþonlærdóm um helgina og jafnvel ekkert djamm - en það er nú samt ekki alveg víst ;) Binni hennar Svönu er búinn að vera í bænum í nokkra daga og bara skemmtilegt að hitta hann. Vonandi að fleiri taki sér hann til fyrirmyndar og skelli sér til Árósa ;)
Svo fjölgaði í nánasta lögfræðihópnum fyrir stuttu. Jóna og Steini eignuðust lítinn prins þann 10.
september. Mig langar svo að koma heim og kíkja á hnoðrann sem er náttúrulega
þvílíkt sætur :)
Setti inn heilar þrjár nýjar myndir undir ágúst 2006, síðan við kvöddum Lydiu en ég hef einhvernveginn ekki tekið mikið af myndum undanfarið - reyni að bæta úr því við tækifæri :)
föstudagur, september 08, 2006
Det var ikke så svært
Búin að vera með í maganum í marga marga daga út af þessum eina danska kúrsi sem ég asnaðist til að taka... fór í fyrsta tímann í dag og þetta var bara mun léttara en ég átti von á! Ég skildi náttúrulega ekki allt en það gerir ekkert til því ég náði samhenginu og gat meira að segja glósað ágætlega. Þá er bara að fara að drífa sig í að ná að tala dönskuna betur svo ég falli nú ekki á því í prófinu ;)
Annars líst mér bara nokkuð vel á þetta allt saman, fínir kennarar og mjög áhugaverðir kúrsar. Stóð í rúma 2 tíma við ljósritunarvélina í lagadeildinni í gær við mikinn fögnuð samnemenda minna en þeir urðu bara að sætta sig við biðina því kreppan þurfti að ljósrita 600 bls ;)
Er annars komin með nýtt símanúmer +45 28 71 33 34 ef ske kynni að einhverjir þyrftu að ná á mér :)
Jæja, íbúðin þrífur sig víst ekki sjálf (merkilegt að það skuli ekki vera hægt í Danmörku) og hún er vægast sagt ekki smekkleg akkúrat núna ;)
miðvikudagur, september 06, 2006
Áfram Ísland!
Ísland - Danmörk á eftir og mun hugarorkan verða nýtt til hins ýtrasta svo möguleikar á hagstæðum úrslitum stóraukist. Svo að sjálfsögðu kem ég til með að leiðbeina drengjunum í gegnum sjónvarpið eins og alltaf og vonandi að þeir taki nú einu sinni mark á mér ;) Væri nú mjög gaman að vinna Danina svona eins og einu sinni en það þýðir víst ekki að vera með frekju svo ég sætti mig við jafntefli ;)
Fór í fyrsta tímann í morgun - The UN Human Rights System - og þar kom leikurinn m.a. við sögu. Ég gaf það að sjálfsögðu frá mér að það kæmi ekkert annað til greina en sigur enda við með stórstjörnuna Gudjonsen innanborðs. Held að kennarinn minn hafi ekki verið alveg sammála mér um yfirburði íslenska liðsins og jafnvel spurning um að fara að útvega sér hauspoka ef ævintýrið skyldi enda illa.
Annars er bara brjálað að gera eins og alltaf. Århus Festuge í gangi en það er rúm vika af alls konar tónleikum og listviðburðum og mikil stemning. Fór á kvennasafnið á laugardaginn sem var mjög skemmtilegt og svo lentum við á mjög góðum tónleikum á sunnudagskvöldið en ég hef ekki hugmynd um hvaða hljómsveit var að spila sem er dálítið vandræðalegt.
Við Áróra settum íslandsmet í myndarskap í fyrradag! Eftir rölt í bænum settum við nefnilega í húsmóðurgírinn (já hann er til) og elduðum dýrindis kvöldmat, földuðum gardínur, styttum buxur, boruðum í veggi og bökuðum smákökur með smá hjálp frá Betty stórvinkonu okkar ;) Dugnaðurinn var þvílíkur að annað eins hefur bara ekki sést í hinum vestræna heimi og þó víðar væri leitað ;)
Keypti mér nýjan síma í gær, hann er bleikur og með blómi, mér finnst hann flottastur.
Læt þetta gott heita í bili - borgar sig að fara að kíkja í bækurnar :)
P.s. Lumar einhver á bókinni World Copyright Law eftir J.A.L. Sterling uppi í hillu hjá sér?? Gullbókin er á lesefnislista annarinnar og kostar ekki nema rétt 3000 kr. danskar sem þykir gjafprís (hver er ekki tilbúinn til að borga rúmar 35.000 fyrir eina bók) en ekki á færi þessa fátæka námsmanns. Ljósritunarkort komið á tossalistann fyrir morgundaginn!