laugardagur, september 23, 2006

Merkilegt nokk

Fer að líða að því að ég hafi verið hérna í Danmörkinni í 2 mánuði en mér finnst eins og ég hafi alltaf verið hérna og langar ekkert að fara aftur heim til Íslands. Væri svo til í að taka restina af mastersnáminu mínu hérna úti en verð þó að viðurkenna að kúrsarnir sem kenndir eru í HÍ eru meira við mitt hæfi þó það séu líka fínir kúrsar hérna og kennslan er mun betri hér en í lagadeildinni heima (með of fáum undantekningum). Það eru því miklar pælingar í gangi þessa dagana um hvað ég ætli mér eiginlega að gera við lífið. 

Gamall draumur um að gerast sjálfboðaliði í Mið-Ameríku eða Afríku hefur líka verið að láta á sér kræla en vonandi að ég nái að halda honum í skefjum þangað til ég á peninga til þess að láta slag standa - þetta er ekki lengur spurning um hvort heldur hvenær.

Lífið gengur sinn vanagang og allt að komast í rútínu sem gæti þótt frekar leiðinleg en mér finnst ágæt. Kúrsarnir mínir eins og áður sagði frábærir, þó merkilegt að kúrsinn sem ég var spenntust fyrir - The UN Human Rights System - olli smá vonbrigðum á meðan International Copyright er að koma mjög sterkur inn og gott betur en það. Børne- og ungdomsret er svo þarna mitt á milli og væri mun skemmtilegri ef ég gæti tekið meiri þátt í tímum. Það er bara ekki alveg mín sterkasta hlið að tala dönskuna, sem mér finnst ég ekki nógu góð í, fyrir framan 30 dani. Þó mér fari fram í hverri viku þá fer það óendanlega í taugarnar á mér að ég skuli ekki geta talað fullkomlega - einn þolinmæðisskammtur óskast sendur með DHL sem fyrst!

Annars er gaman að segja frá því að við Áróra erum byrjaðar í ræktinni af fullum krafti. Fitness DK niðrí miðbæ varð fyrir valinu og er aðstaðan þar öll eins og hún gerist best og vonandi að það skili sér í kílóatapi sem er orðið mjög nauðsynlegt eftir lifnaðarhætti síðustu 2 mánaða ;)

Jæja, ekki hægt að vera alltaf að slæpast, børne- og ungdomsret bíður mín í sólinni á svölunum. 
Vil minna á að það er enn yfir 20 gráðu hiti hér í Danmörku og stefnir allt í að það haldist næstu daga. Marglyttusyndrómið er á undanhaldi og vonandi að það komi aldrei aftur!

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hæ hæ, smá öfund út af veðrinu. En það er nú reyndar búið að vera með skásta móti hér, samt engin 20 stiga hiti. Við erum bara að glíma við guttann hérna heima á milli þess sem maður tekur á móti gestum og hvílir sig ;o)

Nafnlaus sagði...

Gaman að segja frá því að ég var að koma af ströndinni ;) Ég öfunda þig bara af guttanum í staðinn. Er fastagestur á síðunni að sjá litla molann.