mánudagur, maí 28, 2007

La vida es un carnaval ...

... söng vinkona mín hún Celia Cruz hér um árið og ég held að hún hafi nú bara haft rétt fyrir sér. Helginni var eytt í Álaborg hjá Karolinu sem var svo yndisleg að bjóða mér í heimsókn svo ég gæti nú upplifað Karnival a la Álaborg áður en ég fer heim á Klakann.


Á föstudagskvöldið voru það atvinnumennirnir í Karnivalstemningunni sem sýndu listir sínar. Hópar héðan og þaðan úr heiminum sem komu í kuldann í Danmörku til að létta okkur lundina. Es más bello vivir cantando!

Eftir einn ei aki neinn - enda tókum við strætó ;)

Það voru samt rólegheit hjá okkur á föstudagskvöldinu (létum okkur þó ekki vanta í einn öl í tilefni dagsins) því aðalmálið var laugardagurinn þar sem búið var að plana svaka skrúðgöngu og við að sjálfsögðu í búningum svo við myndum ekki missa af neinu.
Rita og Marisol mættar í skrúðgönguna svo fínar og sætar

Við vorum mætt í "mátun" og morgunmat kl. 09.00 á laugardagsmorgun og svo var bara málið að sýna sig og sjá aðra í skrúðgöngunni. Þetta var alveg ótrúlega gaman og fyndið og skemmtilegt, sumir höfðu greinilega lagt mikla vinnu í búningana og voru flottir eftir því. Aðrir kanski ekki alveg jafn vinnusamir en aðalmálið að vera með. Eftir skrúðgönguna var farið "to the park" og þar var dansað og dansað og dansað. Var bara gaman og allt of langt síðan ég hef komist í svona salsa stemningu - pottþétt bætt úr því þegar heim verður komið!

The Bjarnabófar


Thank you for a great weekend Karolina, I had such a good time :) Hope to see you in Iceland soon ;)

miðvikudagur, maí 23, 2007

Svona verð ég!

65 ára gömul kona eignaðist dreng á fæðingadeildinni. Hún fékk að fara heim fljótlega og þegar ættingjarnir komu í heimsókn vildu þeir náttúrulega sjá barnið.
"Getum við séð barnið?" spurðu systur konunnar."Ekki strax" sagði móðirinn. "Ég ætla að laga kaffi og með því fyrst". Hálftíma seinna spurði annar ættingi - "Getum við fengið að sjá barnið núna?" "Ekki strax" sagði móðirinn. Eftir nokkrar mínútur spurðu ættingjarnir aftur, "Getum við séð barnið núna?" "Nei, nei - ekki strax" svaraði móðirinn. Ættingjarnir voru orðnir verulega óþolinmóðir og spurðu aftur - "Jæja,hvenær fáum við að sjá barnið?" "ÞEGAR HANN GRÆTUR" hastaði hún pirruð"ÞEGAR HANN GRÆTUR?" "Af hverju þurfum við að bíða þangað til hann grætur????."ÚT AF ÞVÍ, að ég gleymdi hvar ég setti hann!!"

þriðjudagur, maí 22, 2007

Átak - Dagur 1

Loksins, loksins, loksins er það byrjað og þó fyrr hefði verið! Hafði það af að fara út að hlaupa í morgun og nú skal spikið burt! Náði nú örugglega ekki að hlaupa nema 2x 400 m (ca. 2-3 mín í hvort skipti) en ég labbaði bara þeim mun meira ;)

Ekki annað hægt en að nýta sólina og góða veðrið í það að hreyfa sig og vonandi á þetta eftir að leka af manni. Annars langar mig í Boot Camp í sumar - er einhver með??

mánudagur, maí 21, 2007

Photos for Christian

Hope that you are not too bored studying :)

Próflestur og próf í aðalhlutverki þessa dagana, tvö búin og bara eitt eftir. Mannréttindi á dönsku í morgun - fékk að sjálfsögðu einu spurninguna þar sem maður þurfti að kunna á danska kerfið, þekkja gamlar lagabreytingar og svoleiðis skemmtilegt en sem betur fer tókst mér að komast frá því án þess að verða mér til algerrar skammar og fékk þessa líka alveg ágætu einkunn. Annars er skrýtið að reyna að einbeita sér að lærdómnum þegar fólk er farið að huga að heimferð og planlagning kveðjuveislna í hávegum höfð.

Leo og Óli í góðum gír
Leo minn, sæti og góði, hélt afmælis- og kveðjuveislu á föstudaginn og lét maður sig ekki vanta þó ég hafi nú ekki stoppað lengi vegna lærdómsins. Eins og sjá má af myndinni var hann leystur út með gjöfum og sæmdur heiðursorðu sem besti skiptineminn. Þetta var mikil gleði og mikið gaman og verst að þurfa að fara heim svona snemma.


Áróra, Óli og ég

Er öll eitthvað svo meyr og væmin yfir þessu öllu saman. Á svo eftir að sakna allra þessara yndislegu vina sem ég hef eignast síðasta árið - það er ekki annað hægt en að vera þakklátur og glaður með allt þetta góða fólk í kringum sig.

Christian var hress

Fleiri nýjar myndir undir maí 2007, samt ekki mjög margar því ég bara hreinlega missti mig í stemningunni og gleymdi að taka myndir.



fimmtudagur, maí 10, 2007

Allt tekur enda fyrr eða seinna

Er að átta mig á því að ég er alveg að fara að flytja heim. 9 mánuðir búnir að fljúga áfram og nú er ég búin að panta flugið heim og dagsetningin komin. Ég verð að viðurkenna að ég hlakka til en samt verður skrýtið að fara héðan frá Danmörku. Þó svo að það að búa hérna eigi ekki sérstaklega vel við mig, hvorki fjárhagslega (alveg laust við það að það sé ódýrara að búa hér en heima) né persónulega þá hef ég nú haft það betur en margur og svo hef ég kynnst svo mikið af skemmtilegu fólki - og reyndar líka ekki svo skemmtilegu fólki en ég þarf aldrei að hafa samband við það meir ;)

Ég hlakka svo til að fara að vinna, að fá Önnu Maríu mína í heimsókn, að fara ísrúnt og í sund með Völlu minni, að hitta dömurnar í hláturskasti, að komast í gott spjall og skemmtilegheit hjá "ðí eisgardens", að knúsa alla villingana (ég sá voða lítið af þeim þegar ég kom heim), að fara í löns með lögfræðiskvísunum eða bara að njóta sólarinnar á austurvelli, að fara heim á Káta daga og síðast en ekki síst þá hlakka ég svo til þess að blokkin mín verði með fegurri blokkum bæjarins og ég er alveg að fara að flytja aftur í hana :)

Annars eru voða miklar pælingar í gangi varðandi sumarið. Verð að sjálfsögðu að vinna í ráðuneytinu "mínu" en er mikið að spá í hvort það gæti mögulega verið skynsamlegt að verða sér úti um kvöldvinnu svona til þess að minnka mínusinn aðeins ;) Ég veit bara ekki hvers konar vinna það ætti að vera því ég nenni ekki að vinna á veitingastað eða bar og ekki einu sinni þó ég fái borgað fyrir það ;) Svo þarf ég eiginlega að fara að hreifa mig í sumar líka því þrátt fyrir miklar yfirlýsingar um annað þá hef ég ekki hreift á mér rassgatið síðan ég flutti til Danmerkur. Hér hjóla allir eins og geðsjúklingar en mér dettur það hins vegar ekki til hugar, finnst það með eindæmum leiðinlegt og hef ekki stigið á hjól síðan dekkin á gamla bleika hjólinu mínu bráðnuðu þegar kveikt var í bragganum hans pabba í gamla daga. Fæ seint fullþakkað þeim sem stóð fyrir því - sorrý pabbi minn, ég veit maður má ekki segja svona ;)

Hér rignir bara og rignir þessa dagana en það kemur ekki að sök því á mínu heimili er tekin við baráttan við bækurnar. Síðasta prófið 4. júní og þá verður nú heldur betur gaman. Svo þarf ég bara að fara að pakka niður og selja allt dótið mitt og ferðast svo aðeins um Danmörku áður en ég kem heim.

Júróvisjón í kvöld, væri svo til í að vera Laufey sem er í Helsinki núna og að sjálfsögðu löngu búin að tryggja sér miða á keppnina :)

sunnudagur, maí 06, 2007

Kapseladsen og afmælispartý

Allt að gerast og enginn tími fyrir lærdóm, verður fróðlegt að sjá hvernig útkoman verður úr prófunum eftir enga lærdómsnennu þessa önnina og hvað þá núna þegar sólin er farin að láta sjá sig.

Á fimmtudaginn var það Kapseladsen eða Boat Race sem var aðalmálið og við létum okkur sko ekki vanta enda veðrið gott og ekki oft sem staðið er fyrir skemmtunum sem þessum hér við háskólann. Við vorum nú reyndar meira í því að njóta sólarinnar heldur en að lifa okkur inn í keppnina en það kom ekki að sök og var keppnin (já eða sólbaðið) hin besta skemmtun.

12.000 manns saman komin að fylgjast með deildunum keppa innbyrðis í "boðróðri" - þetta byrjaði þannig að liðin í fyrsta riðlinum kynntu liðin sín með ýmis konar gjörningum, Turtles mættu á svæðið og svo voru einhverjir með úlfalda og þar fram eftir götunum. Þegar öll liðin í riðlinum höfðu kynnt sig tók við kappróður þar sem farið var frá einum bakka háskólatjarnarinnar yfir á annan, þar var drukkinn bjór og snúnir 10 hringir umhverfis flöskuna og svo róið aftur til baka yfir á hinn bakkann. Til að gera langa sögu stutta þá endaði þetta með því að læknadeildin stóð uppi sem sigurvegari og hlaut hið gyllta bekken.



Við Áróra í sólinni á Kapseladsen
Óli átti svo afmæli þann 1. maí og var haldin afmælisveisla í tilefni þess á föstudaginn. Boðið var uppá þessa fínu kokteila og grillað í góða veðrinu. Eftir að sólin var horfin úr garðinum var haldið inn þar sem stuðið hélt áfram fram eftir nóttu, með dansi og mikilli gleði. Við gerðum svo allt brjálað á barnum þar sem menn dönsuðu upp á borðum og héldu ekki heim fyrr en undir morgun. Ég hló svo mikið að ég var með strengi í maganum daginn eftir og gott að taka eina svona skemmtun fyrir próflesturinn en eftir hann er ég ansi hrædd um að ég verði búin að gleyma hvað skemmtun er.

Óli afmælisbarn og Jón Anton með fína gjafavoucherinn

Lærdómurinn hefur nú tekið völdin enda kominn tími á ef ekki á illa að fara. Langar nú reyndar voða mikið til að sleppa prófinu sem ég á að taka á dönsku en get varla farið að láta spyrjast út um mig að ég sé alger aumingi - hvað með það þó maður skilji ekki almennilega hvað þeir meini með einni spurningunni, bara sleppa því að draga hana!

Búin að setja inn nýjar myndir undir maí 2007.