Allt að gerast og enginn tími fyrir lærdóm, verður fróðlegt að sjá hvernig útkoman verður úr prófunum eftir enga lærdómsnennu þessa önnina og hvað þá núna þegar sólin er farin að láta sjá sig.
Á fimmtudaginn var það Kapseladsen eða Boat Race sem var aðalmálið og við létum okkur sko ekki vanta enda veðrið gott og ekki oft sem staðið er fyrir skemmtunum sem þessum hér við háskólann. Við vorum nú reyndar meira í því að njóta sólarinnar heldur en að lifa okkur inn í keppnina en það kom ekki að sök og var keppnin (já eða sólbaðið) hin besta skemmtun.
12.000 manns saman komin að fylgjast með deildunum keppa innbyrðis í "boðróðri" - þetta byrjaði þannig að liðin í fyrsta riðlinum kynntu liðin sín með ýmis konar gjörningum, Turtles mættu á svæðið og svo voru einhverjir með úlfalda og þar fram eftir götunum. Þegar öll liðin í riðlinum höfðu kynnt sig tók við kappróður þar sem farið var frá einum bakka háskólatjarnarinnar yfir á annan, þar var drukkinn bjór og snúnir 10 hringir umhverfis flöskuna og svo róið aftur til baka yfir á hinn bakkann. Til að gera langa sögu stutta þá endaði þetta með því að læknadeildin stóð uppi sem sigurvegari og hlaut hið gyllta bekken.
Við Áróra í sólinni á Kapseladsen
Óli átti svo afmæli þann 1. maí og var haldin afmælisveisla í tilefni þess á föstudaginn. Boðið var uppá þessa fínu kokteila og grillað í góða veðrinu. Eftir að sólin var horfin úr garðinum var haldið inn þar sem stuðið hélt áfram fram eftir nóttu, með dansi og mikilli gleði. Við gerðum svo allt brjálað á barnum þar sem menn dönsuðu upp á borðum og héldu ekki heim fyrr en undir morgun. Ég hló svo mikið að ég var með strengi í maganum daginn eftir og gott að taka eina svona skemmtun fyrir próflesturinn en eftir hann er ég ansi hrædd um að ég verði búin að gleyma hvað skemmtun er.
Óli afmælisbarn og Jón Anton með fína gjafavoucherinn
Lærdómurinn hefur nú tekið völdin enda kominn tími á ef ekki á illa að fara. Langar nú reyndar voða mikið til að sleppa prófinu sem ég á að taka á dönsku en get varla farið að láta spyrjast út um mig að ég sé alger aumingi - hvað með það þó maður skilji ekki almennilega hvað þeir meini með einni spurningunni, bara sleppa því að draga hana!
Búin að setja inn nýjar myndir undir maí 2007.