mánudagur, desember 24, 2007

Gleðileg jól

Þá er ég komin heim í dýrðina og dásemdina og hef lítið annað gert en að gæða mér á konfekti, smákökum og hráu hangikjöti. Snjórinn er kominn þannig að nú geta jólin komið. Ég átti yndisleg jól í Danmörku í fyrra þannig að nú hlakka ég enn meira til að vera heima um jólin, enda er það alltaf best.


Ykkur öllum sendi ég mínar bestu óskir um gleðileg jól og hamingjuríkt komandi ár. Takk fyrir allt á árinu sem er að líða og megi árið 2008 færa ykkur gleði, frið og góðar stundir.

mánudagur, desember 17, 2007

Oft var þörf en nú er nauðsyn!

Sérlegir sveitarstjórnarstraumar óskast í dag milli 11:48 og 12:00 (ójá þeir eru sko nákvæmir í tímasetningunni strákarnir)! Allir þeir sem kunna sveitarstjórn (látum réttinn liggja milli hluta) eru beðnir um að leggjast á bæn eða stunda hugleiðslu og senda í sameiningu kunnáttu fyrir allan peninginn í Lögberg. Ástæðan - gamla er ekki alveg nógu vel lesin en þætti djöfullegt að missa meðaleinkunn annarrinnar niður fyrir 9!


Í staðinn verða sendir út sérlegir þakkarstraumar í 12 mínútur frá því einkunn hefur verið kunngerð með formlegum hætti - og nú held ég að það sé tími kominn á að leggja sig ;) Jólafrí eftir 10 tíma!!!

laugardagur, desember 15, 2007

Smákökubakstur

Piparkökumeistararnir Maja og Gunna
Það var nú heldur betur gleðin í Skálagerðinu í dag þegar dömurnar og skæruliðarnir bökuðu smákökur fyrir jólin. Jólatónlistin var tjúnnuð í S3 og piparkökulyktin fannst um allt hverfið. Dagurinn byrjaði á þessu rosalega morgunverðarhlaðborði sem svignaði hreinlega undan hollustunni, þó sumir hafi reyndar kvartað yfir því að enginn væri ísinn með eplapæinu - ég meina komm on, maður má nú leyfa sér smá á laugardögum ;)

Fallegar á leiðinni í ofninn

Guðmundur Hólm og Tóta stóðu sig vel í eldhúsinu

Ránsa í kreminu

Komnar úr ofninum og tilbúnar fyrir glassúrinn

Það var spurning þegar kom að skreytingunum hverjir hafi skemmt sér betur, börnin eða "fullorðna" fólkið - allavega var einbeitningin mikil og allir að keppast um að gera flottustu kökuna. Var mikill harmleikur þegar sumir misstu fullkomnu kökuna á hvolf að verki loknu (nefni engin nöfn en fyrsti stafurinn er Hadda)

Músi mættur með bílana


Jóhann og Orri skreyttu
Það varð nú reyndar líka að taka smá pásur inn á milli, til að fá svala og smakka á piparkökunum góðu fínu.

Dagbjört María sæta skvísa


Unnar Gamalíel

Framleiðslan var með eindæmum vel lukkuð og spurning hvort dömurnar ættu að fara að huga að því að selja á frjálsum markaði því góðar voru þær ;) Ekki spurning um að þetta þarf að endurtaka á næsta ári. Takk fyrir daginn elskurnar - þetta var bara dásamlegt.

Afraksturinn

Bærilegt
Næst á dagskrá er svo sveitarstjórnarrétturinn á mánudag. Ég get ekki beðið eftir að komast í jólafrí.

fimmtudagur, desember 13, 2007

8 dagar í heimferð!

Og bara 4 dagar í síðasta próf.... þá verður sko kátt í höllinni. Annars hafa prófin bara gengið vel og útkoman framar björtustu vonum. Það greinilega borgar sig að fara í tvær utanlandsferðir á önn, vinna allt of mikið, flytja og taka eitt stykki íbúð í gegn og alls ekki, undir neinum kringumstæðum, opna bók! Held nú samt að sveitarstjórnarrétturinn komi til með að draga meðaleinkunnina aðeins niður en who cares!

Dömurnar ætla að baka smákökur og konfekt á laugardaginn, komnar nokkrar geðveikt girnilegar uppskriftir og nokkuð ljóst að það verður massa átak eftir áramót. Spurning hvernig Eyþór ætlar að hafa opið fyrir okkur um jólin.

Anyways, þetta er sem sagt bloggið um ekkert - enda lítið að segja þegar skólabækurnar eiga hug manns allan. Ég gæti mögulega þulið upp fyrir ykkur helstu einkenni lífeyristrygginga og bótaflokka en held að þá verði ég að viðurkenna fyrir sjálfri mér að geðheilsan sé farin ;)

fimmtudagur, desember 06, 2007

15 dagar í dýrðina og dásemdina

Það er ekki annað hægt en að komast í jólagírinn þegar þessi líka fallegi jólasnjór hefur heiðrað Reykjavíkina fyrir sunnan með nærveru sinni :) Það verður allt svo fallegt sem annars er búið að vera grátt síðan í sumar því hér hefur varla stytt upp síðan í ágúst! Það er að sjálfsögðu búið að skreyta allt í S5 og svo ætla dömurnar að hittast allar og baka smákökur þann 15. des (þegar allar verða búnar í prófum nema ég!) og það verður bara til þess að jólastemningin verður alger. Ég fer svo heim í dekrið 21. des, klyfjuð gjöfum og hlýjum fötum því það ætlar að verða svo mikill snjór ;) Ég hlakka svo til, ég hlakka alltaf svooooooo til ......

Fyrsta prófið búið og útkoman bara ljómandi góð, vonandi að þetta haldi svona áfram. Virðist hafa góð áhrif að tína nennunni og metnaðnum svona allavega eina önn.

Jæja, persónurétturinn bíður.

laugardagur, desember 01, 2007

Próflestur þýðir bara eitt ....

Jólin eru á næsta leyti :)

Svona er miðbærinn í Árósum fallegur um jólin :)

Það er eitthvað svo hressandi við jólaauglýsinguna frá Tuborg og minnir mig svo á jólin sem ég átti í Danmörku í fyrra. Er hins vegar mjög ánægð að verða heima um jólin og áramótin núna enda eru stórir flugeldar nú bannaðir í Danmörku eins og sjá má af þessari frétt hjá strákunum á Jótlands póstinum. Þá er nú aldeilis gott að geta verið á stórkostlegri flugeldasýningu í dýrðinni og dásemdinni á Þórshöfn á Langanesi ;)

Helst í fréttum þessa dagana er stress og aftur stress, dauði og djöfull enda próflestur í gangi ;)Get nú samt ekki sleppt því að minnast á þær gleðifréttir að nýjustu íbúðareigendur í Skálagerðinu góða, Halldóra og Gummi, standa nú í flutningum. Bærilegt það :)

En ... Back to the books (svona þegar ég verð búin að fara út í búð að kaupa laugardagsnammi fyrir allan peninginn - nota bene þá eru allir dagar í próflestri laugardagar!)