laugardagur, september 30, 2006

Maður spyr sig

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í gær mann í 4 mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir líkamsárás á heimili fyrrum sambúðarkonu sinnar. Mun maðurinn hafa slegið hana hnefahögg í höfuð og líkama svo að hún féll í gólfið og misþyrmt henni með öðrum hætti með þeim afleiðingum að hún fékk kúlu á hnakka, mar á bak við hægra eyra og bólgnaði á eyranu, bólgnaði og marðist í andliti, marðist yfir rifjum vinstra megin og á báðum handleggjum.

Þetta vakti athygli mína við lestur dómsins:
„Þegar [A] var kynntur framburður ákærða um sömu atburði sagði hún einfaldlega að hann væri í stöðugri afneitun og þætti henni verst að hann skyldi ekki sýna meiri iðrun. Þau hefðu engu síður tekið upp sambúð að nýju í apríl síðastliðnum, í kjölfar áfengismeðferðar ákærða og hefði hann ekki bragðað vín síðan. Sambúðin gengi vel, en því miður hefði aldrei mátt ræða umrædda atburði eða annað ofbeldi, sem hann hefði beitt hana í fyrri sambúð. [A] taldi dvöl sína í Kvennaathvarfinu þó hafa orðið til þess að ákærði gæti ekki eytt öllum staðreyndum strax, kennt henni um hvernig farið hefði og allt farið í fyrra horf í samskiptum þeirra. Í framhaldi var [A] spurð um afstöðu sína til refsingar á hendur ákærða og kvaðst hún ekki vilja að hann hlyti fangelsisdóm, heldur aðeins að hann gerði sér grein fyrir því hvert stendi ef hann héldi svona áfram. Þá kvaðst hún ekki vilja fá dæmdar bætur úr hendi ákærða.“

Get ekki annað en velt því fyrir mér hvort öll umræðan um heimilisofbeldi og væntanleg breyting á hegningarlögunum komi til með að skila einhverju. Hversu lengi ætla konur að trúa því að menn sem hafa gengið í skrokk á þeim í fjölda skipta séu allt í einu breyttir og ekki til í þeim ofbeldi. Mögulega er það hægt en ég væri ekki til í að taka sénsinn!

Annað sem ég velti fyrir mér er hvort höfðun dómsmáls sé allt í einu orðin leið til þess að kenna mönnum lexíu. Maður spyr sig.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Já maður spyr sig. Sumar konum er bara ekki bjargandi. Það er alveg ótrúlegt hvað margar konur taka aftur upp eða halda áfram að vera í sambandi við svona menn. alveg óskiljanlegt.