fimmtudagur, mars 29, 2007

Löggur og bófar

"Lögg' og bóa" var vinsæll leikur í Sunnuveginum í gamla daga, svo sem ekki skrýtið þar sem strákar voru í meirihluta í götunni en ástæðan fyrir því að ég lék hann oftar en ekki sú að stundum var dálítið langt að labba alla leið yfir lækinn til þess að komast í barbí ;)

Á vef Nyhedsavisen í dag kemur fram að börn á leiksólum Kaupmannahafnarsvæðisins leiki nú nýja útgáfu af þessum leik sem nefnist á frummálinu "Politiet mod Ungdomshuset" eða Lögreglan á móti Ungsómshúsinu á hinu ástkæra ylhýra. Í þessari nýju útgáfu eru mótmæli og vegatálmar í aðalhlutverki og barnsraddir sem kalla "lögregluofbeldi" heyrast inn á milli!

Væri svo miklu meira en til í að vera fluga á vegg þegar þessi leikur er leikinn :) Bara fyndið og jafnvel svolítið krúttlegt hvað þau eru fljót að grípa það sem gengur á í samfélaginu hverju sinni ;)

Vildi annars bara minna á að ég er að koma heim eftir 5 daga!

þriðjudagur, mars 27, 2007

Home Sweet Home

Jamm, breytt plön og ég á leiðinni heim í páskafríinu :) Ætla meira að segja að fara alla leið í dýrðina og dásemdina til mömmu og pabba og láta stjana aðeins við mig ;)

Allavega, kem heim um kvöldið 3. apríl og fer svo á Akureyri, Valla mín svo góð að ætla að kippa mér með þeim hjónakornum og Anna María mín búin að búa til pláss fyrir mig hjá sér. Við ætlum svo að vera mestu pæjurnar á Eyrinni í 2 daga, fara á kaffihús og gera allt sem okkur dettur í hug.

Vantar svo reyndar far heim í dýrðina og dásemdina á föstudaginn langa en viss um að Guðmundur Hólm sér mér fyrir eðalvagni ef það reddast ekki öðruvísi ;) Hlakka svo til að koma heim og hitta fólkið mitt, slappa af og borða góðan mat og fara í sund og fara út að hlaupa og ... og... og. Allt of langt síðan ég hef verið heima (næstum 1 og 1/2 ár) og þetta verður æðislegt :) Eygló, er Odinn reddí fyrir partý???

Stefnan er svo tekin á Reykjavíkina við tækifæri svo ég missi nú ekki af neinu ;) Vonast til þess að hitta sem flesta og gera sem mest :)

Hef svo líka sett inn nýjar myndir undir mars 2007 !

Hlakka til að sjá ykkur!

fimmtudagur, mars 22, 2007

Allt að gerast

Skattskýrslan alveg að klárast - sem betur fer ! Finnst mjög einkennilegt af hverju starfsmenn ríkisskattstjóra hafa aldrei verið tilnefndir til sérstakra verðlauna fyrir einstaka þjónustulund og glaðværð. Þurfti nauðsynlega að hafa samband við skattinn svo ég væri nú með það 100% pottþétt hvað ég þyrfti að senda með skattaskýrslunni minni. Konan sem ég talaði við í sérstöku þjónustuveri sem sett hefur verið á laggirnar vegna skattskila landans var svo HRESS að ég hélt hreinlega að hún myndi hrökkva uppaf úr leiðindum á meðan hún svaraði þeim spurningum sem ég hafði. Í stað þess að lesa yfir konugreyinu um þjónustörf og þjónustulund setti ég í gleðigírinn og hef sjaldan á ævi minni verið jafn kurteis og indæl og ánægð með lífið og tilveruna sem endaði með því að ég þakkaði konunni vel og innilega fyrir veitta aðstoð og óskaði þess að hún ætti nú góðan dag :)

Gleðilegri fréttir eru hins vegar þær að dömurnar eru búnar að bóka ferð í Barcelona í byrjun september :) Aðeins 162 dagar í brottför og ekki seinna vænna en að fara að huga að undirbúningi! Eðal ferðafélagar sem gera það að verkum að ferðin getur ekki annað en heppnast frábærlega - Spurning hins vegar um hvort gera þurfi borgaryfirvöldum viðvart vegna inrásarinnar þar sem við eigum eftir að mála bæinn rauðan með tilheyrandi "dömulegum" hlátrasköllum og látum :)

Svo má ekki gleyma litla prinsinum þeirra Jóhönnu og Guffa sem kom í heiminn í gær, svolítið löngu fyrir áætlaðan tíma og var hann bara 6 merkur elskulegastur. Til hamingju með viðbótina við fjölskylduna elskurnar, vona að allt gangi vel og hlakka svo til að koma heim og fá að knúsa ykkur öll :)

Þangað til næst, verið góð hvert við annað og njótið þess að vera til :)

sunnudagur, mars 18, 2007

Lærdómurinn enn einu sinni

Ójá 2 bls. lesnar í evrópurétti í dag - meira en lesið hefur verið í því ágæta fagi síðastliðinn mánuðinn - Batnandi mönnum (konum) er best að lifa ;) Hins vegar búin að afreka það að setja inn myndir frá Eyglóarheimsókninni og bara fallegar myndir þar á ferð eins og vanalega.

Hadda átti afmæli í gær! Til hamingju með daginn gamla mín, vona að þið hafið getað fengið ykkur við því í tilefni dagsins ;)

Spánn hefur vinningsstöðu í páskafrís-samkeppninni, það er hvort eð er orðið svo stutt þangað til ég kem heim. Ég veit þið saknið mín ógurlega (enda þarf ég að hafa mig alla við svo ég geti svarað þessum gríðarlega fjölda kommenta á síðunni) en ég verð að hryggja ykkur með þeim fréttum að eins og staðan er núna hlotnast Santiago de Compostela væntanlega sá heiður að vera nærveru minnar aðnjótandi yfir páskahátíðina. Svo fékk ég líka páskaegg frá Glóunni minni þannig að ég þarf engu að kvíða ;)




fimmtudagur, mars 15, 2007

Shakira, Shakira!!

Þá er Glóan mín farin og ég ein í kotinu aftur. Tíminn vægast sagt búinn að fljúga áfram og búið að vera svo gaman hjá okkur. Lydia, vinkona mín frá Spáni, kom á miðvikudaginn síðasta og var hjá okkur fram á sunnudag þannig að það er búið að vera mikið líf og fjör.

Tónleikarnir með Shakira standa að sjálfsögðu uppúr enda bara flottust :) Lögðum í hann upp úr hádegi á föstudaginn (sumar hressari en aðrar eins og gengur) á fáknum hennar Áróru sem skilaði okkur örugglega uppá hótel í Álaborg. Þar lágum við nú bara í leti fram að tónleikunum enda tilgangurinn með ferðinni að slappa af og njóta þess að vera til. Lentum að sjálfsögðu í röð dauðans til þess að komast inn í Gigantium þar sem tónleikarnir voru haldnir en þetta hafðist á endanum og tók þá við biðin endalausa eftir því að tónleikarnir byrjuðu. Komum okkur vel fyrir, í miðri þvögunni, með gott útsýni á sviðið því við ætluðum sko ekki að missa af neinu og svo biðum við og biðum og biðum og svo mætti upphitunaratriðið sem var ekki alveg að gera sig og svo biðum við og biðum og biðum eftir aðal atriðinum. Gáfumst upp á að bíða í þvögunni áður en hún mætti á sviðið enda gamlar konur komnar með í bakið af því að standa í svona langan tíma og geta varla hreyft sig ;) Öll biðin var svo fyrirgefin þegar Shakira vinkona mín mætti loksins á sviðið og söng svona líka fallega og dansaði fyrir allan peninginn. Óvæntur bónus við tónleikana að hitta þar Þórhöllu frænku, Öddu og Evu Dögg sem áttu ekki von á að hitta okkur frekar en við þær :) Verst að þær skyldu ekki geta komið með okkur í bæinn eftir tónleikana en það hlýtur að koma annað tækifæri til þess ;) Takk fyrir kvöldið stelpur, æðislegt að hitta ykkur svona óvænt :)

Laugardeginum var svo eytt að mestu í Álaborg þar sem við fundum þetta ótrúlega kósý kaffihús með þvílikt girnilegum matseðli og góðum mat (eitt af því sem vantar í Árósum). Eftir kósýheitin átti svo aldeilis að taka búðarrápið með trompi en okkur var því sem næst hent út úr búðunum því í Álaborg loka þær enn fyrr en í Árósum!! Létum það ekki á okkur fá og fundum búðirnar sem voru opnar til fimm og keyptum og keyptum fyrir allan peninginn :) Drifum okkur svo heim enda ekki seinna vænna því búið var að boða til partýhalds í Skejbytoften og átti eftir að gera og græja. Eins og alltaf var bara gaman að fá allt liðið í partý (allavega þangað til daginn eftir) og bærinn klikkaði ekki frekar en vanalega. Kebab-ið setti svo punktinn yfir i-ið og endaði gott kvöld.

Kaffihúsaferð á sunnudaginn þar sem flestir komu til að kveðja Lydiu. Djúpar rökræður um siðferðileg málefni sem enduðu á að fólk féllst á að vera sammála um að vera ósammála. Við systur fórum svo út að borða á mánudag og vildi svo vel til að við sáum fullt af búðum sem við höfðum ekki komist yfir að fara í þannig að verkefni þriðjudagsins voru næg ;) Vorum svo boðnar í dýrindis pestókjúkling til Áróru á þriðjudagskvöldið og ekki var verra að fá heimagerða ostaköku í eftirmat. Niðurpakk þar sem ég gat komið nokkrum flíkum með í yfirvigtartösku Glóunnar minnar og svo var hún bara farin á miðvikudaginn og skildi mig aleina eftir. Takk fyrir komuna engillinn minn, hlakka til að sjá þig aftur í Reykjavíkinni í sumar :)

Set inn myndir af herlegheitunum síðar - nenni því ekki núna ;)

miðvikudagur, mars 07, 2007

Shop untill you drop!!

Allar svo appelsínugular og fínar eftir verslunarferð gærdagsins, markmiðið var að kaupa ekkert svart og var staðið við það að mestu leyti ;) Vorum mjög þreyttar þegar heim var komið enda ekki nema fyrir hörðustu atvinnumenn að versla í 8 tíma streit og ekki verið gert hér á bæ síðan við Anna María hreinsuðum út úr öllum betri búðum Árósa ;)

Aros listasafnið varð svo nærveru okkar aðnjótandi í dag en þar stendur yfir núna sérleg sýning á verkum Paul McCarty, sem er að mínu mati alvarlega veikur í höfðinu. Skil ekki hvernig sumt fólk hugsar og get bara ekki séð listina við það að sýna hjólhýsi útatað í Hersey's sírópi og myndband þar sem sýnt er hvernig 3 manneskjur maka á sig sýrópinu og velta sér um allt hjólhýsið og það var þó það skársta í sýningunni, allt svo skítugt og blóðugt og ógeðslegt. Frumlegheitin þvílík að ég sá ekki alveg listina.

Stefnan tekin á Álaborg á föstudaginn þar sem við systur, ásamt Áróru og Lydiu, ætlum að hrista mjaðmirnar með Shakiru - það verður bara gaman - Shakira, Shakira!!

Miklar pælingar í gangi varðandi páskana, er jafnvel að spá í að fara heim, þ.e. Reykjavíkur heim en ekki alveg heim heim þó það sé allt of langt síðan ég var heima síðast.


Svo á hún Stína mín elskulegust afmæli í dag, orðin 30 ára skvísan :) Til hamingju með daginn dúllan mín, vildi svo óska að ég kæmist norður í afmælið um helgina en við fögnum bara all rækilega í sumar í staðinn :)

fimmtudagur, mars 01, 2007

Magnað

Þegar manni finnst maður vera búinn að eyða tæpu ári í tóma vitleysu þá er ekki gaman að vera til ! Það eina í stöðunni virðist hins vegar vera að læra af reynslunni og reyna að muna næst að maður er orðinn of gamall fyrir svona unglingaævintýri.

Glóan mín að koma ekki á morgun, ekki hinn, heldur hinn :) Það verður mikil gleði í gullulandi þá :)