mánudagur, maí 29, 2006

það er komið sumar

Þá er Glóan mín farin heim í dýrðina og dásemdina í sumar en ég fékk Joe í heimsókn í staðinn svo ég er ekki orðin alein í Reykjavíkinni enn. Annars er stefnan tekin á að njóta sumarsins í botn, vinna (að sjálfsögðu), fara í sund, á línuskauta og jafnvel verið að íhuga hvort göngutúrar á Esjuna gætu verið inní myndinni. Grillið hans pabba er að gera góða hluti og er planið að nýta það sem best í sumar (júróvisjónlærið verður þó varla endurtekið nema mikill undirbúningur liggi að baki!). Svo er bara vonandi að ég komist út til Danmerkur í júlí en þá yrði sumarið fullkomið - ef ekki þá verður Spánn eða Portúgal fyrir valinu í haust svo ég losni nú einhvern tíman við marglyttusyndrómið.

Drepiði mig nú samt ekki alveg með þessari post-kosninga biturð sem herjar á alla fréttatíma frá því á laugardaginn. Kosningabaráttan var nógu leiðinleg og ekki tekur betra við. Sjálfstæðismenn og framsókn í meirihluta í borginni - held að sjálfstæðismenn hafi ekki valið besta kostinn í stöðunni en það er þó bara mitt álit. Fannst Ólafur (sem enn er í hádegishléi) svolítið kasta steinum úr glerhúsi í fréttunum en manni getur nú víst sárnað þó ekki komi tár ;)

laugardagur, maí 27, 2006

Hvar er sólin?

Passar að þegar ég hef loksins orðið mér úti um sumarkjóla þá hættir sólin að skína. Ég fer því væntanlega ekki á kjörstað því fallega glóðaraugað mitt krefst sólgleraugna af stærstu gerð og frekar glatað að rölta um í sólarleysinu með ofvaxin sólgleraugu.

Merkileg síða spámaður.is, þar kíki ég á stjörnuspána á hverjum degi og jafnvel dreg mér eins og eitt spádómsspil svona til að tryggja stöðuna (nei, þetta er ekki eitthvað sem ég trúi á en getur verið skemmtilegt þegar maður er búinn að vera heima í 5 daga og má ekki gera neitt!). Stjörnuspáin í dag allt of andlega sinnuð og leiðinleg en dró hins vegar ágætt spil sem endaði á þessum snilldar orðum - "Betri helmingur þinn er innra með þér" - Mikið var ég glöð að fá þetta staðfest og get nú hætt að kvarta yfir því offramboði sem er á vesalingum og þegar næsta gamla frænka spyr hvers vegna ég sé ekki gift og með börn þá hendi ég fram þessari fleygu setningu og get þá hvílt þær sem hingað til hefur verið hent fram í þeim eina tilgangi að sjá svipinn á frænkunum þegar svarið er ekki alveg í átt við það sem þær bjuggust við. Leitinni hefur því verið hætt enda enginn jafn fullkominn og ég sjálf og því hef ég fundið hinn fullkomna betri helming ;)

fimmtudagur, maí 25, 2006

Arg

Eyddi síðustu færslu - fannst hún jaðra við að vera í átt við þunglyndi en ekkert þunglyndi í gangi bara miklar pælingar um hvort grasið sé grænna hinum megin.

Er annars með ljótuna á háu stigi þessa dagana og næstu, svo háu að alls óvíst er hvort hún náist burt. Til þess að reyna að losna við hana hef ég ákveðið að vera ótrúlega dugleg að fara á línuskautana mína sem til þessa hafa bara verið til skrauts og til að horfa á. Auglýsi hér með eftir einhverjum til að sýna mér hvernig á að fara upp og niður brekkur á græunni - þoli ekki þegar ég kann ekki eitthvað og það gengur ekki eins og í sögu í fyrsta skipti sem ég prófa.

þriðjudagur, maí 23, 2006

Ég þoli ekki ....

KB-banka hrægammana í Kringlunni sem ómögulegt er að losna við. Hvað er svona flókið við orðið nei og ef það er ekki skiljanlegt þá nei, ég hef ekki áhuga á að skipta um banka og viðbótarlífeyrissparnaðurinn minn er bara í góðum málum. Vá hvað ég á eftir að lesa yfir næsta manni sem býður mér ótrúlegagotttilboð í bankaviðskiptin mín.

Annað sem fer mikið í taugarnar á mér í kringum kosningarnar eru símtölin sem maður fær frá stjórnmálaflokkunum. Alveg gjörsamlega óþolandi þegar ókunnugt fólk hringir og spyr hvort ég hafi gert upp hug minn og ef svo er hvort þeir megi forvitnast um hvað ég ætli að kjósa. That is none of your business! Fékk þetta afar fína sms TVISVAR sinnum í gær frá samfylkingunni:
Yfir 30 tus. krona kjarabot a manudi. kjosum samfylkingu, kjosum gjaldfrjalsan leikskola. XS-Samfylkingin.
Ég sé ekki alveg hvernig ég, barnlausa konan, á að hagnast á gjaldfrjálsum leikskóla. Held að því sé akkúrat öfugt farið og að ég sé svo heppin að fá að borga leikskólagjöldin fyrir borgarbörnin án þess að eiga neitt í þeim. Jibbí, endilega sendið mér fleiri sms með frábærum kjarabótum. Ekki misskilja mig - ég hef ekkert á móti börnum og þekki meira að segja fullt af skemmtilegum börnum en mér finnst ekkert gáfulegt við gjaldfrjálsan leikskóla! Það vantar alveg að Samfylkingin hafi sýnt fram á hvernig dæmið er reiknað á raunhæfan hátt og hvernig þetta á að vera framkvæmanlegt því útsvar í Reykjavíkinni góðu er nú þegar í botni. Mín persónulega skoðun er sú að sniðugra væri að tekjutengja leikskólagjöldin, námsmenn og fólk með lægstu launin fái frítt og hinir greiða miðað við tekjur. Ríkisbubbarnir sem fljúga tvisvar í viku á einkaþotunni til Parísar til að fara út að borða geta bara alveg borgað full leikskólagjöld að mínu mati!

Það er allavega á hreinu að sms-fylkingin fær ekki mitt atkvæði

sunnudagur, maí 21, 2006

Skand-Suður-Evrópa

Það er ekkert jafn mikil snilld og að horfa á veðurfréttirnar á Stöð 2 þessa dagana en hún Sigríður sem þar treður upp hlýtur að fá næstu Eddu sem sjónvarpsstjarna ársins. Það er alveg merkilegt að henni tekst alltaf að standa helst fyrir þeim stað sem maður á að vera að horfa á á kortinu og frasarnir sem koma frá henni eru algerir gullmolar - Og við færum okkur hér yfir til Skand-, Skand-Suður-Evrópu - Ég tel mig nú hafa farið aðeins um heiminn en til Skand-Suður-Evrópu hef ég aldrei komið og jafnvel verður það bara sett í forgang næsta sumar að heimsækja þann eðalstað enda var veðrið þar með því besta sem gerðist það kvöldið. Svo er líka svo frábært að hún getur sagt til um það uppá mínútu hvenær t.d. frystir fyrir norðan og þá örugglega líka hvenær ský dregur frá sólu eða hvenær byrjar að rigna. því verður hér eftir heilög stund á mínu heimili þegar veðurfréttirnar byrja.

Annars lítið að gerast. Byrjuð að vinna. Einkunnin fyrir BA-ritgerðina komin í hús og gamla bara nokkuð sátt. Nú er bara beðið eftir hinum einkunnunum og þess beðið á hverju kvöldi að mikil (og jafnvel óhæfileg) sanngirni verði viðhöfð við yfirferð og einkunnagjöf fyrir Refsiréttinn svo Danmerkurdraumurinn geti nú orðið að veruleika næsta haust.

mánudagur, maí 15, 2006

Halló sumarpróf!

Fleiri orð þarf ekki að hafa um það!

sunnudagur, maí 14, 2006

Fokk í rass

Oft hefur útlitið verið svart en aldrei eins og núna. Vá hvað prófið á morgun þarf að vera extra sanngjarnt - pant fá 60% raunhæft verkefni.

fimmtudagur, maí 11, 2006

Hver var að kvarta yfir ævintýraskorti?!

Ég er svo endurnærð eftir daginn og tilbúinn í slaginn næstu daga - hreinlega get ekki fengið undir 11 í næsta prófi.

Ég fór sem sagt í dag í Flatey á Breiðafirði í vinnuferð. Við byrjuðum á því að fara að skoða ríkisjörð í Ytri Hraundal og eitthvað hefur leiðin þangað reynst ráðuneytisbílnum erfið því það "púnteraði" hjá okkur (Fyrir ekki norðlenska skal þess getið að orðið punkterað er notað fyrir norðan um það atvik þegar dekk springur á bíl). Var ekki um annað að ræða fyrir mig en að sveifla mér út úr jeppanum og leiðbeina strákunum svo stórkostlega vel varðandi það hvernig skuli bera sig að við það að skipta um dekk á jeppum, enda ekki óvön eftir að hafa verið á Daihatsu Charade í 5 ár. Að sjálfsögðu kom þessi líka svaka haglél um leið og við stigum út úr bílnum og við svona nett að verða sein í Stykkishólm til að taka ferjuna út í Flatey. Það hafðist þó á síðustu stundu og hefði ekki mátt tæpara standa.

Við fengum geggjað veður í Flatey (reyndar smá rok) og ég verð að viðurkenna að ég er heilluð af eyjunni. Öll þessi gömlu hús og engir bílar og mig hreinlega langaði til að verða eftir. Kirkjan er líka geggjuð. Baltasar Samper málaði hvelfinguna og altaristöfluna og ég hef sjaldan séð annað eins (mögulega gæti sixtínska kapellan slegið þetta út en það verður að koma í ljós). Við fengum náttúrulega höfðinglegar móttökur og svignuðu borðin undan veitingum og kræsingum.

Langt síðan ég hef verið svona þreytt eftir einn dag en það er svo góð þreyta. Með sjóriðu og sólbrennd í framan - gerist ekki betra.

miðvikudagur, maí 10, 2006

Ævintýraþrá

Í vinnunni minni er ég talin vera svona frekar stabíl og rólyndistípa en ef þeir hefðu bara vitað hvað fór í gegnum hugann á mér þessa 2 tíma sem ég fór í vinnuna í dag ... og nei það var ekkert illgjarnt eða leiðinlegt.

Ég var varla sest við tölvuna mína þegar ég fékk netta ábendingu á msn varðandi sumarið og allt í einu, eins og hendi væri veifað þá langaði mig svooo til þess að lenda í slíku ævintýri þó ekki væri nema einu sinni enn. Mig langaði svo að segja bara allt í lagi, ég geri það og ég spái ekkert í því hvernig ég fer að því eða hvaða afleiðingar það hefur. Mikið rosalega var ég glöð að átta mig á að ég er ekki orðin jafn leiðinleg og ég hélt eftir að hafa lifað mjög svo tilbreytingarsnauðu lífi síðustu 3 árin.

Þó svo að ég grípi ekki þetta tækifæri þá er ég viss um að þegar tíminn er réttur eigi ég svo eftir að fá þessa ævintýratilfinningu aftur - löngunina til þess að stökkva af stað og líta aldrei til baka og sjá svo ekkert eftir því. Ég verð að viðurkenna að ég get ekki beðið.

mánudagur, maí 08, 2006

Mig langar svo til Kúbu

Er einhver með?

2 down - 1 to go

Kröfurétturinn búinn sem betur fer en ekkert skal fullyrt um gengið enda getur þetta bara farið á tvo vegu. Ég á því miður ekki skilið að fá mjög háa einkunn miðað við það hvað ég lagði á mig fyrir þetta próf, meira að segja frumlestur og allt en ég verð nett brjáluð ef ég fell!

Laufey og svalirnar hennar fá sólarstig dagsins en hin ótrúlega góða súkkulaðikaka sem boðið var uppá í sólinni eftir prófið smakkaðist betur en súkkulaðikökur hafa gert í langan tíma.

Refsirétturinn er svo næstur og á meðan ég þykist læra læt ég mig dreyma um sundferðir, ísferðir og línuskautana mína sem enn eru niðri í geymslu. Eins gott að sólin haldi áfram að sýna sig þegar próflesturinn er búinn... ég verð að losna við marglyttusyndrómið.

laugardagur, maí 06, 2006

Hitabylgja

Það vantar ekki að búið sé að spá hitabylgju um helgina. Allt að 18 stiga hiti suðvestanlands, takk fyrir pent! Nú er bara málið að eiga nóg af vatni til að kæla sig niður í öllum hitanum en verst er þó að við Íslendingar skulum ekki eiga gosbrunna á öllum torgum eins og Ítalirnir eiga, svo fólk geti nú kælt sig niður í þeim ef hitinn reynist óbærilegur. Hér á bæ hefur hins vegar verið brugðið á það ráð að draga fyrir alla glugga svo ekkert geti spillt lærdómi þó réttast væri að slá þessu bara upp í kæruleysi, drífa sig út í góða veðrið á sandölum og ermalausum bol og jafnvel fá sér eitt hvítvínsglas í tilefni dagsins.

Gleðilega hitabylgju :)

fimmtudagur, maí 04, 2006

Í dag er dagurinn

og ég vona að hann endi vel og við taki enn betri morgundagur. Ég hef búið mig undir að lærdómurinn verði mögulega aðeins stopull en hef áttað mig á að kanski eru aðrir hlutir sem skipta aðeins meira máli en hvort ég hangi í fyrstu einkunn í skólanum.

Veriði góð hvert við annað

þriðjudagur, maí 02, 2006

Kröfuréttur... þarf ég að segja meira

Það er á dögum eins og þessum sem ég sakna íbúðarinnar minnar óendanlega mikið. Það er nefnilega ekkert betra en próflestur í sólinni og í Skálagerðinu næ ég sólinni hringinn í kringum húsið og algerlega í friði. Held ég fari ekkert að leggjast út í miðjan garð hér á Klapparstígnum með bækurnar til þess að ná nokkrum sólargeislum, enda stöðugur straumur fólks svo ekki sé talað um umhverfishljóðin sem eru af svolítið annarri tegund en fuglasöngurinn í Skálagerðinu. Klukkutíminn sem sólin skín á svalirnar mínar núna er sem sagt liðinn og því ekkert annað hægt að gera en að fara að lesa skuldajöfnuð, eins spennandi og það nú hljómar.