Já, fyrst mér tókst að standast munnlegt próf á dönsku og bara með fínustu einkunn, þar sem ég var ekki einu sinni lægst, þá held ég að núna séu mér allir vegir færir ;) Hefði reyndar alveg viljað vera fluga á vegg þegar ég var inni í prófinu - það gekk á ýmsu við framburð og útskýringar en þetta hafðist og þegar ég var búin að segja aktindsigt nægilega oft þá var framburðurinn barasta orðinn nokkuð réttur ;)
Anja bjargaði mér svo eftir prófið með því að drífa mig með sér í kaffi sem hefur gert það að verkum að ég er ekki alveg ónýt enda komin á fætur á mjög svo ókristilegum tíma. Merkilegt að á öllu þessu háskólasvæði sé ekki hægt að finna almennilegt kaffihús. Þá er nú gott að eiga vinkonur sem búa í næsta húsi við háskólann og gera líka svona gott Latte.
Næst á dagskrá er að þrífa höllina, setja í þvottavél eða 4, kaupa skólabækur og byrja að lesa fyrir næstu átök. Annað átak komið í gang af einskærri nauðsyn en átakið mun kallast heilsuátak og hefur ekki gengið sem skyldi síðasta árið (eða 3). Nú er hins vegar að duga eða drepast því ekki viljum við hafa bingóið í sviðsljósinu á Þorrablóti íslendingafélagsins og svo verður maður nú að vera til stakrar prýði og fyrirmyndar í dömuferðinni sem fara á til Barcelona í haust :) Er eðlilegt að vera strax kominn með fiðring í magann fyrir ferðinni - það er nú ekki á hverju ári sem bóndinn fer í lest í fyrsta skipti á ævinni ;)
miðvikudagur, janúar 24, 2007
Nú get ég allt sem ég vil ;)
mánudagur, janúar 22, 2007
Loksins kominn snjór
Það var bara alhvít jörð þegar ég fór á fætur í morgun, mér til mikillar gleði. Búnir að lofa og lofa snjókomu strákarnir í veðrinu og svo hefur bara rignt og ringt og ringt og ringt.
Er nett að brjálast úr hlátri yfir snjómokstursaðferðum húsvarðarins míns sem er búinn að eyða mestum hluta morgunsins í að fjarlægja 3 cm jafnfallna snjóinn frá útidyrahurðum og af gangstígum hér í næsta nágrenni. Gamli nýtur við þetta verkefni grænnar vígalegrar gröfu og nú mokar hann svo og mokar - bara krúttlegur - er svolítið eins og lítill strákur sem fengið hefur nýtt dót í jólagjöf og getur ekki beðið eftir að prófa það ;)
Mikið ógeð fyrir próflestri einkennir annars stemninguna þessa dagana, mikið rosalega verð ég fegin þegar þetta er búið. Verður mjög fróðlegt að sjá hvernig fer með strætóferðir ef það snjóar meira næstu daga - kannski þarf ég að huga að því að labba í prófið ;)
laugardagur, janúar 20, 2007
Er maður orðinn gamall eða bara latur??
Já maður spyr sig! Búin að lesa í um 10 tíma og er gjörsamlega búin á því! Langar mest til þess að skríða undir sæng og fara bara að sofa. Í þá gömlu góðu daga þegar ég var að lesa fyrir almennuna (og flest próf sem fylgt hafa á eftir) gat ég lesið frá kl. 8 á morgnanna til kl. 22 á kvöldin þó með hádegis- og kvöldmatarpásum. Er maður virkilega orðinn svo gamall að maður getur ekki "unnið" nema í 10 tíma á dag - frekar vandræðalegt!
Annars mest fúl yfir því að ég skyldi ekki geta horft á Ísland - Ástralía á í gegnum netið en beinum útsendingum frá HM í handbolta, yfir RÚV vefinn, er einungis hægt að sjá innanlands! Liggur við að ég fari bara að halda með Danmörku - þeir eru allavega með nokkra sæta í liðinu ;)
Áfram Ísland!
Það er að sjálfsögðu allt að gerast í próflestrinum, þ.e.a.s. allt nema lestur ;) Held í vonina að kennarinn minn aumki sig nú yfir mig og hleypi mér í gegn - íslenski hreimurinn á dönskunni minni fær vonandi einn heilann og þá ætti nú ekki að vera mikið mál fyrir gömlu að muna rest ;)
HM í handbolta byrjað og strákarnir okkar að spila fyrsta leikinn í dag. Ég má að sjálfsögðu ekki missa af því, enda getur það ekki verið annað en gott fyrir lærdóminn, að koma sér í baráttuham yfir sjónvarpinu :)
[Uppfært kl. 16.00 - Hvað er málið með þetta???!! "Bein útsending á leikjum frá HM í handbolta er aðeins aðgengileg innanlands. Búast má við miklu álagi á streymivef Sjónvarpsins á meðan á sýningu HM stendur." Gott að vera íslendingur í útlöndum núna!]
Undankeppni Eurovision er annað á dagskrá sjónvarpsins í dag sem ekki má missa af. Það borgar sig ekki að lesa yfir sig - það getur verið mannskemmandi ;)
Svo er nú alltaf gaman að fá gleðifréttir að heiman - Rúnar og Hilma eignuðust prinsessu númer 2 þann 17 janúar, alveg ofboðslega fallega :) Til hamingju með það stóra fjölskylda :)
föstudagur, janúar 19, 2007
Til hamingju! Þú hefur unnið þvottavél ....
Orðið greindarvísitöluskertur hefur í dag öðlast nýja merkingu. Það fyrsta sem ég rak augun í þegar ég skoðaði mbl.is í morgun var sú stórfrétt að Ólafur Geir Jónsson, fyrrverandi fegurðardrottning í nokkra daga, hefur fengið gjafsókn til þess að höfða skaðabótamál gegn forsvarsmönnum Fegurðarsamkeppni Íslands vegna sviptingar á titlinum Herra Ísland. Telur hann sig hafa misst vinnuna vegna þessa og orðið fyrir ærumeiðingum.
Ég segin nú bara eins og Ragnar Reykás hér forðum daga; Ma.., ma..., maður bara áttar sig ekki á svona vitleysu! Hversu gamalt þarf fólk eiginlega að vera til þess að átta sig á því að það þýðir ekki að kenna öðrum um eigin heimsku! Þarf fólk aldrei að horfast í augu við það að maður ber sjálfur ábyrgð á því sem maður tekur sér fyrir hendur og þarf að sama skapi að takast á við afleiðingarnar. Nú er ég engin sérstakur stuðningsmaður fegurðarsamkeppna og finnst eiginlega bara frekar glatað að keppa í fegurð - ég veit, ég veit, þetta er það sem við ljóta fólkið segjum alltaf ;) - en komm on, hversu mjög getur það verið mönnum til ærumeiðingar að vera sviptur titlinum þegar atvinna manns er almennur fávitaskapur í sjónvarpi!
Það getur vel verið að ég hafi rangt fyrir mér, kannski horfa atvinnurekendur á það hvort menn hafi hlotið eða verið sviptir titlinum Herra Ísland þegar kemur að því að velja menn í vinnu og láta það vera ráðandi þátt í því hvort viðkomandi hlýtur vinnuna eða ekki. Kannski hefur það engin áhrif á atvinnurekendur hvað menn aðhafast í sjónvarpsþætti eða í kjölfar þess að vera sviptir titlinum Herra Ísland. Kannski er ég bara bitur af því að ég var aldrei með í fegurðarsamkeppni ;)
Stundum verða menn að líta í eigin barm og takast á við afleiðingar eigin ákvarðana. Þannig er lífið bara.
En að öðru ... Laufey farin og maraþon lærdómur á dagskrá. Ekki frá því að það hafi hreinlega bjargað geðheilsunni að fá svona gott tækifæri til að líta upp úr bókunum í smá stund. Við létum rigninguna (og síðar slydduna) ekkert á okkur fá og þrömmuðum um bæinn svona til að sjá allavega það markverðasta ;) Kíktum á Aros listasafnið sem er algert möst fyrir alla sem koma til Árósa, röltum þar um í rólegheitum og skoðuðum listina. Hrossið, sem er í 50 krukkum ca., vekur alltaf jafn mikla athygli - Marilyn Monroe hans Andy Warhol og The Boy eru líka góð ástæða til þess að gera sér ferð. Út að borða á Grappa, frekar veðurbarðar og blautar í tærnar, og spjall fram eftir kvöldi toppaði svo daginn :)
Takk Laufey mín fyrir komuna (og fyrir hvítvínið, Kristalinn og þristana) og fyrir að bjarga mér frá próflestrinum :)
miðvikudagur, janúar 17, 2007
Lærdómspása
Mjög svo mikil þörf á henni - alveg að mygla á lestrinum en ekki vegna þess að mér finnist efnið leiðinlegt heldur af því að það tekur mig aðeins lengri tíma að tileinka mér allan danska orðaforðan sem tilheyrir kúrsinum ... Akkúrat núna finnst mér ekki svo skynsamlegt að hafa valið að taka einn kúrs á dönsku og að ætla að þrjóskast við að taka prófið á dönsku þó svo að mér standi til boða að tala ensku í prófinu. En eins og svo oft áður þá er þrjóskupúkinn skynseminni yfirsterkari, ég get, ég vil, ég skal, ég ætla!
Laufey á leiðinni til mín - smá dítúr á leiðinni "heim" til Finnlands - og ég hlakka svo til að taka mér smá pásu frá barnaréttinum og njóta þess að hafa einn dag í að sýna henni allt það markverðasta hér í Árósum, spjalla yfir góðu hvítvínsglasi og þar fram eftir götunum. Spáir reyndar rigningu og stormi á morgun en við erum nú ekki víkingar fyrir ekki neitt og látum slíkt ekkert á okkur fá ;)
Annars lítið títt nema almennar pælingar um sumarið og haustið og lífið og tilveruna - tilvistarkreppan í hámarki en alveg að fást niðurstaða í þetta allt saman. Það er svo gott við próflesturinn að maður getur einbeitt sér að öllu öðru en lærdómnum og klárað svo ótrúlega mörg ókláruð mál - sem þó gætu vel beðið þangað til eftir próf ;) Mottó í próflestri: Aldrei að geyma það til morguns sem maður getur gert í dag - nema það heiti lestur eða lærdómur ;)
fimmtudagur, janúar 11, 2007
Home alone
Þá er ég orðin ein í kotinu aftur. Þrátt fyrir að vera algerlega ósambúðarhæf þá verð ég að viðurkenna að það er nú bara hálf tómlegt að vera allt í einu ein eftir að hafa haft þetta frábæra fólk (í misstórum skömmtum þó) í heimsókn :) Takk Jóhann og Anna María fyrir komuna, þið björguðuð algerlega áramótunum :) Hlakka til að fá ykkur aftur sem allra fyrst ;)
Áramótin komu og fóru, Árósabúar gáfu Reykvíkingum ekkert eftir í "flugeldauppskjóti" sem var mjög hressandi eftir að jólaskreytingavonbrigðin ;) Að sjálfsögðu létum við okkur ekki vanta í bæinn á eftir og skriðum svo heim í ból undir morgun eftir ævintýralega heimferð. Nýjársdegi var svo eytt í sælgætis- og smákökuát yfir Sex and the City maraþoni við mikinn fögnuð bróðurs sem hefði örugglega ekki viljað eyða deginum öðruvísi ;)
Við Jóhann fórum svo til Svíþjóðar þann 3. janúar í heimsókn til Jóhanns Sigurðar, Önnu Ýrar, Tóta og Karitasar Guðrúnar. Það er eitthvað við það að koma til þeirra, það er allt svo hyggeligt og kósí og við höfðum það svo allt of gott. Frábær matur á hverju kvöldi að hætti húsfreyjunnar og gott spjall yfir Daimkaffi og súkkulaði (eða rauðvíni) gerði þetta að algeru eðalfríi. Aðalpersónur heimsóknarinnar voru náttúrulega gullmolarnir Tóti og Karitas Guðrún og var yndislegt að fá að knúsa þau aðeins og kreista. Elsku Jóhann og Anna, hjartans þakkir fyrir okkur, eins og alltaf var yndislegt að fá að gera hjá ykkur innrás.
Næst á dagskrá er að girða í brók og læra Børne- og ungdomsret af kappi, verður stemning að fá að taka eitt munnlegt próf á dönsku!
Búin að setja inn myndir frá Svíþjóðarferðinni undir Svíþjóð - surprise, surprise ;)