Ég er svo endurnærð eftir daginn og tilbúinn í slaginn næstu daga - hreinlega get ekki fengið undir 11 í næsta prófi.
Ég fór sem sagt í dag í Flatey á Breiðafirði í vinnuferð. Við byrjuðum á því að fara að skoða ríkisjörð í Ytri Hraundal og eitthvað hefur leiðin þangað reynst ráðuneytisbílnum erfið því það "púnteraði" hjá okkur (Fyrir ekki norðlenska skal þess getið að orðið punkterað er notað fyrir norðan um það atvik þegar dekk springur á bíl). Var ekki um annað að ræða fyrir mig en að sveifla mér út úr jeppanum og leiðbeina strákunum svo stórkostlega vel varðandi það hvernig skuli bera sig að við það að skipta um dekk á jeppum, enda ekki óvön eftir að hafa verið á Daihatsu Charade í 5 ár. Að sjálfsögðu kom þessi líka svaka haglél um leið og við stigum út úr bílnum og við svona nett að verða sein í Stykkishólm til að taka ferjuna út í Flatey. Það hafðist þó á síðustu stundu og hefði ekki mátt tæpara standa.
Við fengum geggjað veður í Flatey (reyndar smá rok) og ég verð að viðurkenna að ég er heilluð af eyjunni. Öll þessi gömlu hús og engir bílar og mig hreinlega langaði til að verða eftir. Kirkjan er líka geggjuð. Baltasar Samper málaði hvelfinguna og altaristöfluna og ég hef sjaldan séð annað eins (mögulega gæti sixtínska kapellan slegið þetta út en það verður að koma í ljós). Við fengum náttúrulega höfðinglegar móttökur og svignuðu borðin undan veitingum og kræsingum.
Langt síðan ég hef verið svona þreytt eftir einn dag en það er svo góð þreyta. Með sjóriðu og sólbrennd í framan - gerist ekki betra.
fimmtudagur, maí 11, 2006
Hver var að kvarta yfir ævintýraskorti?!
Birt af Gulla kl. 22:23
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
ohh ég er öfundsjúk - ég er komin með prófmyglu á hæsta stigi!
Skrifa ummæli