sunnudagur, febrúar 25, 2007

Ferðahugur

Sem mótmæli við flensunni, sem virðist hafa yfirtekið líf mitt þessa dagana, dreif ég mig út í fyrradag og tók nokkrar myndir af snjónum sem hefur sett Danmörku á annan endan. Ekkert nema gott um það að segja enda sjaldan verið jafn fegin því að komast út úr húsi ;) Mjög svo fúl yfir því að hafa eytt heilli viku í þessa vitleysu og enn fúlli þegar ég fór að pæla í því hversu mun betur tímanum hefði verið varið hefði ég bara ákveðið að skrópa í skólann og drífa mig til útlanda - eitthvert þar sem sólin skín nota bene!

Nú hefur flensan að mestu leyti yfirgefið svæðið en mig langar enn til útlanda! Páskarnir á næsta leyti og mig langar svooo að gera eitthvað skemmtilegt - ég meina maður getur nú alveg lesið skólabækurnar í sólbaði ;) Vil því hér með óska eftir ferðafélaga í viku eitthvert þar sem veðrið er gott og sólin skín. Þá vil ég einnig óska eftir vinningi í lottóinu því peningatréð sem óskað hefur verið eftir hefur ekki skilað sér til mín ;)


Glóan mín að koma eftir viku :) Ég hlakka svo til að sjá hana að ég get eiginlega ekki beðið og það er ekki bara af því að hún kemur með allt sem mig langar mest í frá Íslandi (nema fisk - pabbi er búinn að lofa að elda bara fisk handa mér í viku þegar ég kem heim) heldur líka af því að hún er nú einu sinni uppáhalds litla systir mín :) Það er því ekki orðið seinna vænna en að fara að plana sætsíing og komast að því hvað er um að vera í stórborginni Árósum næstu 2 vikurnar.


föstudagur, febrúar 23, 2007

Úti er alltaf að snjóa

Það verður ekki tekið af vinum mínum Dönum að þeir eru algerlega bjargarlausir eftir tveggja daga snjókomu. Það mætti halda að aldrei fyrr hefði fallið svo mikið sem eitt snjókorn á danska jörð. Samgöngur eru lamaðar, fyrirtæki eru lokuð og skólum aflýst vegna "óveðursins" sem lýsir sér í snjókomu og skafrenningi. Ég er ansi hrædd um að Danir hefðu lagst í dvala hefðu þeir fengið vetur eins og við norðlendingar erum vön að fá.

Ég get ekki annað en hlegið þegar ég sé snjómokstursaðferðirnar og hvað þá þegar ég sé menn mætta á svæðið með salt til þess að dreifa yfir snjóinn, því enginn er klakinn. Virðist formúlan vera að á 3 cm af snjó fari 6 cm af salti ;)

Annað sem ég get ekki annað en hlegið að er klámhysterían sem gripið hefur um sig á Íslandi undanfarna daga og þá sérstaklega ummæli talskonu femínistafélagsins á baksíðu moggans í dag: "Okkur finnst þetta frábær sigur fyrir kynfrelsið og mjög gott að sjá þjóðina standa saman um það að hafna kláminu." Svolítið í anda fegurðardrottninganna og alheimsfriðar. Gott að Bændasamtökin eru allt í einu orðin að þjóðinni allri enda þeir einu sem virkilega sögðu nei takk, við kærum okkur ekki um þetta og burt með ykkur ;) Flestir aðrir held ég að hafi séð fáránleikann sem felst í því að ætla að hindra fólk í því að koma til landsins vegna þess að atvinna þess brýtur gegn íslenskum lögum EF hún væri unnin á Íslandi. Auðvitað vill enginn pólitíkus vera fylgjandi klámi opinberlega og auðvitað segja allir að slíkt sé ekki velkomið í okkar heilaga landi en af hverju hafa þeir hinir sömu ekkert sagt eða gert þegar kemur að sölu slíks efnis á Íslandi því þar erum við jú að tala um ólöglegt athæfi ... maður spyr sig.

miðvikudagur, febrúar 21, 2007

Snjóstormur

Það er ca. 20 cm hár snjór á bílastæðinu fyrir framan íbúðina mína og strákarnir eru búnir að festa Carlsberg trukkinn - og ég er ekki að grínast! Nú djöflast félaginn og reynir að fara annað hvort aftur á bak eða áfram en hann situr sem fastastur - ætli þeir hafi aldrei heyrt talað um skóflur ;) Langar svo að fara út með myndavélina en ætla að reyna að hemja mig - þetta hressir mann annars mjög svo við eftir allt of langa inniveru ;)

þriðjudagur, febrúar 20, 2007

Allt í rusli

Mál málanna í Árósum þessa dagana er verkfall ruslakarla hjá ákveðnu fyrirtæki sem sendi 2 starfsmönnum aðvörun vegna fjarvista þeirra vegna veikinda og til þess að gera þetta enn meira krassandi fá starfsmenn þessa sama fyrirtækis lægri laun en almennt gengur og gerist í bransanum. Er skemmst frá því að segja að allir starfsmennirnir hafa lagt niður vinnu í mótmælaskyni og hefur rusl í ákveðnum hverfum ekki verið hirt í mjög langan tíma (það finnst allavega fólkinu sem býr við hliðina á ruslahaugunum sem nú hafa myndast). Það er líka svo einkar skemmtilegt við þessa ruslahauga að þeir eru ekki bara fallegir fyrir augað, og þjóna þannig augljósum fagurfræðilegum tilgangi, heldur hafa þeir þá aukaverkun að nú heimsækja haugana þessar líka fallegu rottur og lifa eins og kóngafólk af veitingum þeim sem uppá er boðið - hvað er hægt að biðja um meira!

Þetta ágæta fyrirtæki hefur þó ekki séð sér fært að ganga að kröfum starfsmanna sinna og þeir (þ.e. starfsmennirnir) hafnað þeim sáttatilboðum sem borist hafa. Því hafa ruslakarlar (og væntanlega konur líka) um gjörvalla Danmörku sameinast um að fara í samúðarverkfall þar til úr deilunni leysist. Ég hef hingað til verið svo heppin að rusl í mínu hverfi hefur verið hirt svo ég vona bara að málið verði leyst fyrir föstudag svo vinir mínir, ruslakarlarnir, mæti nú á svæðið eins og venjulega. Ég get svo svarið það að ef það fer að myndast haugur fyrir framan húsið mitt (og hvað þá ef ég sé svo mikið sem eina rottu) þá flyt ég aftur heim med det samme!!!

Er svo loksins búin að setja inn nýjar myndir (undir janúar og febrúar) - Allar svo sérdeilis fagrar og skemmtilegar ;)

Þangað til næst, hafið það gott og passið ykkur á flensunni - hún er leiðinleg ;)

mánudagur, febrúar 19, 2007

Til hamingju, þú hefur unnið hálskirtla á stærð við golfkúlu!

Og í kaupbæti færðu með beinverki sem hverfa ekki þrátt fyrir að fara yfir ráðlagðan dagsskamt af verkjatöflum ... Hata að vera veik - ætla aldrei að verða það aftur!

sunnudagur, febrúar 18, 2007

Þorrablót

Þreytt, þreytt, þreytt í dag. Velheppnuð helgi að baki, Friday Dinner með krökkunum á föstudaginn og svo þorrablót Íslendingafélagsins í gærkvöldi þar sem Helga Braga var veislustjóri. Hún er náttúrulega bara fyndin og skemmtileg og var mikið hlegið. Þarf ekki annað en að sjá hana og þá byrja ég að hlægja - hún er bara dásamleg. Hljómsveitin Sixties hélt svo uppi fjöri fram á nótt og tók þá við einkar "skemmtileg" barátta um að ná leigubíl niður í bæ. Við Soffía máluðum bæinn aldeilis rauðan og hefur annað eins ekki sést í háa herrans tíð. Mikið rosalega hló ég mikið og mikið var allt þetta fólk heppið að ég skyldi hafa lagt leið mína í bæinn ;)

Eins og mér finnst gaman að fara á þorrablót heima (og nú í Árósum líka) og reyni að fara ef ég mögulega get þá verð ég að viðurkenna að mér finnst þorramatur ógeðslegur. Skil bara ekki af hverju það er verið að borða skemmdan mat þegar það er nóg til af góðum mat. Svo ekki sé talað um það að fólk er að borga fyrir allan skemmda matinn - ansi hrædd um að ég þyrfti að fá væna summu til þess að fást til þess að láta þetta ofan í mig. En þar sem ég er svo sem ekkert að deyja úr hor þá gerir nú ekki mikið til þó maður gúffi ekki í sig kræsingunum kvöld eftir kvöld. Þetta endaði með gríðarmikilli skemmtun og miklum hlátri þar sem nokkrir unnu þvottavél (aðallega Soffía) og aðrir ekki ;)

Annars lítið að frétta, lestur og aftur lestur á dagskránni - vil ekki eiga hann eftir þegar Glóan mín kemur loksins til mín :) Hlakka svo mikið til að fá hana til mín svo ekki séð talað um að hrista mjaðmirnar með Shakiru, stórvinkonu okkar ;)

Reyni að setja inn myndir á morgun - búin að taka helling en hef ekki haft tíma til að setja þær inn.

laugardagur, febrúar 10, 2007

Take That í Horsens

Já, það er sko öllu tjaldað til í Melodi Gran Prix og ef menn þurfa að fá Take That til að vera rúsínan í pylsuendanum þá er það bara gert. Finnst þeir nú aðeins hafa látið á sjá síðan mér fannst þeir æði (eins gott að ég er alltaf jafn vel haldin) og að sjálfsögðu vantar aðalmanninn hann Robbie en þetta var flott hjá Dönunum að gera þetta aðeins meira "spænnende".

Verður að segjast að hér er undankeppni júróvisjón aðeins metnaðarfyllri heldur en heima. Sjóið er flottara, lögin eru betri og síðast en ekki síst eru hér flytjendur sem halda lagi og tóni, eitthvað sem mér fannst eiginlega frekar vera undantekningin heima. Ekki það að það eru alveg ca. 5 lög sem hlusta má á ;)

Framlag Dana í Helsinki í ár verður DQ með lagið Drama Queen. Lagið er bara alveg ágætt, alvöru drag drottning á sviði með öllu tilheyrandi (þ.á.m. kórónunni á sviðinu). Vonandi bara að þessi drottning leiki ekki eftir Silvíustælana sælla mininga ;)

fimmtudagur, febrúar 08, 2007

Stundum verður manni orða vant

Var að horfa á myndina The Road to Guantanamo og ég get eiginlega ekki lýst því hvernig mér líður. Held að allir verði hreinlega að sjá hana til að mynda sér sína eigin skoðun. Þvílíkur skepnuskapur og þvílíkir djöfulsins aumingjar sem bera ábyrgðina á þessu. Og sumu fólki finnst þetta bara í lagi (og jafnvel nauðsynlegt) af því að tilgangurinn er sá allra mikilvægasti - all is fair in war agains terror. Af hverju hafa allir þessir "hryðjuverkamenn" (sem sumir hafa verið þarna í fleiri ár) ekki verið sóttir til saka og dæmdir ? Maður spyr sig ...

Hvað er að frétta?

Hér í Danmörku eru allir fjölmiðlar uppfullir af þeirri stórfrétt að Alexandra prinsessa, fyrrverandi eiginkona Jóakims prins, ætli að gifta sig aftur og hættir því að vera hluti af dönsku kóngafjölskyldunni. Myndir af þeim skötuhjúum hafa verið birtar og sagan rakin frá A-Ö af öllum helstu sérfræðingum um málefni konungsfjölskyldunnar. Merkilegt að við þessar breytingar þarf Alexandra að fara að greiða skatta af sínum tekjum eins og aðrir "venjulegir" borgarar svo ekki sé talað um virðisaukaskattinn af öllu því sem hún verslar. Ég myndi nú nýta tímann fram að brúðkaupinu í verslunarleiðangur ef ég væri hún ;)

Ekki jafn skemmtilegar fréttirnar að heiman. Finnst ég varla sjá annað en umræður um kynferðisbrot eða annað ofbeldi í einni eða annarri myndi. Þetta Breiðavíkur mál er meira en lítið óhugnalegt en vonandi að málið verði rannsakað og að þeir sem þarna báru ábyrgð sjái sóma sinn í því að viðurkenna að kerfið hafi brugðist þessum drengjum og að reynt verði að bæta þeim það tjón sem þeir urðu fyrir, ekki síst þá sálarlegu áverka sem svona brot skilja eftir sig.

Finnst annars merkilegast af því sem ég hef séð í umræðunni að eftir Kompásþáttinn margumtalaða séu foreldrar farnir að leika tálbeitur fyrir barnaníðinga á internetinu. Nú er ég enginn sérfræðingur í barnauppeldi (og verð það vonandi ekki á næstunni) en ég hefði haldið að tímanum væri betur varið með börnunum. Ég er bara svo vitlaus að ég held að hægt sé að koma í veg fyrir allavega hluta af þessum tilvikum sem eru í umræðunni í dag með því að foreldrar taki sig til og ræði opinskátt við börnin sín. Ég veit að þetta hljómar mjög barnalega og ég veit að vandamálið er flóknara en svo, en ég er þess fullviss að slíkt myndi bera árangur. Börn eru ekkert vitlaus og það má alveg útskýra fyrir þeim hluti og þau mega alveg vita að heimurinn er ekki fullkominn. Ég þykist vita að flestir foreldrar roðni og bláni þegar á að fara að ræða þessa hluti en tel að það sé ekki til of mikils ætlast að krefjast þess af foreldrum að þau taki þátt í baráttunni og leggi sitt af mörkunum. Það er ekki nóg að hneykslast bara og tala um hversu mjög dómstólar eigi að skammast sín.

þriðjudagur, febrúar 06, 2007

Stemning

Það er alltaf hressandi að sitja í strætó á leiðinni heim með þær vinkonur ilmvatnsfýlu og sígarettu í sætinu fyrir framan - alveg var ég við það að gubba þegar ég loksins fór út! Er eitthvað flókið við það að skilja að þó ilmvatnið komi í flösku á ekki að tæma hana þegar það loksins er notað .... jakk, mér er ennþá óglatt ;)

Samt bara gott að vera byrjuð í skólanum aftur :)

fimmtudagur, febrúar 01, 2007

Bored to death

Leiðindastuðullinn er í botni akkúrat núna! Hver nennir að vera í 10 daga fríi - eftir 4 þá er maður búinn að öllu sem manni dettur í hug að gera og því 6 dagar sem fara í tiltekt eða þrif eða bara almenn leiðindi og flakk um veraldarvefinn. Ég er sem sagt búin að lesa bókina sem Laufey lánaði mér (kláraði hana strax á fyrsta degi nota bene), fara í bæinn, hitta krakkana í lunch, gráta yfir úrslitum handboltaleiks, fara út að hlaupa (og ef ég er byrjuð á því þá er ég ansi langt leidd í leiðindunum), fara í ljós og svo fleira minna spennandi.

Skóli á mánudaginn - gæti bjargað geðheilsunni að fara að læra ;)