föstudagur, febrúar 23, 2007

Úti er alltaf að snjóa

Það verður ekki tekið af vinum mínum Dönum að þeir eru algerlega bjargarlausir eftir tveggja daga snjókomu. Það mætti halda að aldrei fyrr hefði fallið svo mikið sem eitt snjókorn á danska jörð. Samgöngur eru lamaðar, fyrirtæki eru lokuð og skólum aflýst vegna "óveðursins" sem lýsir sér í snjókomu og skafrenningi. Ég er ansi hrædd um að Danir hefðu lagst í dvala hefðu þeir fengið vetur eins og við norðlendingar erum vön að fá.

Ég get ekki annað en hlegið þegar ég sé snjómokstursaðferðirnar og hvað þá þegar ég sé menn mætta á svæðið með salt til þess að dreifa yfir snjóinn, því enginn er klakinn. Virðist formúlan vera að á 3 cm af snjó fari 6 cm af salti ;)

Annað sem ég get ekki annað en hlegið að er klámhysterían sem gripið hefur um sig á Íslandi undanfarna daga og þá sérstaklega ummæli talskonu femínistafélagsins á baksíðu moggans í dag: "Okkur finnst þetta frábær sigur fyrir kynfrelsið og mjög gott að sjá þjóðina standa saman um það að hafna kláminu." Svolítið í anda fegurðardrottninganna og alheimsfriðar. Gott að Bændasamtökin eru allt í einu orðin að þjóðinni allri enda þeir einu sem virkilega sögðu nei takk, við kærum okkur ekki um þetta og burt með ykkur ;) Flestir aðrir held ég að hafi séð fáránleikann sem felst í því að ætla að hindra fólk í því að koma til landsins vegna þess að atvinna þess brýtur gegn íslenskum lögum EF hún væri unnin á Íslandi. Auðvitað vill enginn pólitíkus vera fylgjandi klámi opinberlega og auðvitað segja allir að slíkt sé ekki velkomið í okkar heilaga landi en af hverju hafa þeir hinir sömu ekkert sagt eða gert þegar kemur að sölu slíks efnis á Íslandi því þar erum við jú að tala um ólöglegt athæfi ... maður spyr sig.

Engin ummæli: