fimmtudagur, febrúar 08, 2007

Hvað er að frétta?

Hér í Danmörku eru allir fjölmiðlar uppfullir af þeirri stórfrétt að Alexandra prinsessa, fyrrverandi eiginkona Jóakims prins, ætli að gifta sig aftur og hættir því að vera hluti af dönsku kóngafjölskyldunni. Myndir af þeim skötuhjúum hafa verið birtar og sagan rakin frá A-Ö af öllum helstu sérfræðingum um málefni konungsfjölskyldunnar. Merkilegt að við þessar breytingar þarf Alexandra að fara að greiða skatta af sínum tekjum eins og aðrir "venjulegir" borgarar svo ekki sé talað um virðisaukaskattinn af öllu því sem hún verslar. Ég myndi nú nýta tímann fram að brúðkaupinu í verslunarleiðangur ef ég væri hún ;)

Ekki jafn skemmtilegar fréttirnar að heiman. Finnst ég varla sjá annað en umræður um kynferðisbrot eða annað ofbeldi í einni eða annarri myndi. Þetta Breiðavíkur mál er meira en lítið óhugnalegt en vonandi að málið verði rannsakað og að þeir sem þarna báru ábyrgð sjái sóma sinn í því að viðurkenna að kerfið hafi brugðist þessum drengjum og að reynt verði að bæta þeim það tjón sem þeir urðu fyrir, ekki síst þá sálarlegu áverka sem svona brot skilja eftir sig.

Finnst annars merkilegast af því sem ég hef séð í umræðunni að eftir Kompásþáttinn margumtalaða séu foreldrar farnir að leika tálbeitur fyrir barnaníðinga á internetinu. Nú er ég enginn sérfræðingur í barnauppeldi (og verð það vonandi ekki á næstunni) en ég hefði haldið að tímanum væri betur varið með börnunum. Ég er bara svo vitlaus að ég held að hægt sé að koma í veg fyrir allavega hluta af þessum tilvikum sem eru í umræðunni í dag með því að foreldrar taki sig til og ræði opinskátt við börnin sín. Ég veit að þetta hljómar mjög barnalega og ég veit að vandamálið er flóknara en svo, en ég er þess fullviss að slíkt myndi bera árangur. Börn eru ekkert vitlaus og það má alveg útskýra fyrir þeim hluti og þau mega alveg vita að heimurinn er ekki fullkominn. Ég þykist vita að flestir foreldrar roðni og bláni þegar á að fara að ræða þessa hluti en tel að það sé ekki til of mikils ætlast að krefjast þess af foreldrum að þau taki þátt í baráttunni og leggi sitt af mörkunum. Það er ekki nóg að hneykslast bara og tala um hversu mjög dómstólar eigi að skammast sín.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Já Gulla mín, ef að allir gætu nú tekið þig sér til fyrirmyndar og eytt tímanum með börnunum sínum og talað við þau annað slagið eða svo. En þetta er nú meiri horbjóðurinn þetta kynferðisofbeldisdæmi sem er að koma upp á yfirborðið. Og mér finnst hræðilegt til þess að hugsa að ég þurfi að hafa áhyggjur af barninu mínu. Eftir að fréttist af e-m náunga við Síðuskóla að reyna að taka börn uppí um daginn, ákvað ég að tala við Sölkuna mína og brýna fyrir henni að hún mætti ALLS EKKI og ALDREI fara upp í bíl með ókunnugum eða fara með e-m sem hún þekkti ekki. Þetta gæti verið vont fólk sem er vont við lítil börn. Mikið hrikalega var erfitt að segja þetta við lítið barn sem á að geta trúað því að fullorðna fólkið er það fólk sem veit betur og taka á sér til fyrirmyndar hvort sem maður þekkir það eður ei. Litla píslin fékk bara tár í augun og ætlaði ekki að trúa slíkri vonsku upp á nokkurn mann.
Já það er ekkert grín að vera foreldri.......og eins gott fyrir mig að hlusta á þig Gulla mín og taka mark á orðum þínum....vitur kona sem þú ert elskulegust :o)

Nafnlaus sagði...

Mikið ofboðslega er ég stolt af þér Stína mín fyrir að hafa sest niður með píslinni þinni og ég geri mér fullkomlega grein fyrir því að slíkt gerir maður ekki að gamni sínu.
Að mínu mati eru engin mál verri en þessi kynferðisbrotamál og örugglega ekkert erfiðara en að vera foreldri sem þarf að útskýra fyrir barninu sínu af hverju einhver hafi gert svona við það - gerir mig bara reiða að hugsa um það.