sunnudagur, nóvember 30, 2008

Gleði, gleði

Ekki svo mikil gleði í S5 þessa dagana - mæli ekki með ritgerðarskrifum ætli fólk sér almennt að halda geðheilsunni ;) En í staðinn fyrir leiðinlegt blogg setti ég inn nokkrar skemmtilegar myndir síðan á Þórshafnarballinu um daginn, þar var mikil gleði :)










sunnudagur, nóvember 16, 2008

Að taka eða taka ekki höfundarétt

það er sem sagt stóra spurningin akkúrat núna en ég get bara hreinlega ekki tekið ákvörðun. Þó því fylgi engir sérstakir verkir að vera eins og ég er þá stundum vildi ég óska að ég gæti bara, þó ekki væri nema einu sinni, ákveðið eitthvað án þess að þurfa að velta því fyrir mér fram og tilbaka. Dilemmað núna snýst sem sagt um það hvort ég eigi að segja mig úr eina kúrsinum sem ég ákvað að taka með meistararitgerðinni eða hvort ég eigi að láta mig hafa það, girða í brók og hætta þessu væli.

Það sem mælir með því að ég segi mig úr kúrsinum er:
1. Ég er nú þegar búin að taka 24 einingum of mikið (skv. nýja einingakerfinu - 12. skv. gamla) og ef ég tek þetta líka þá verð ég með 30 einingum of mikið en maður getur víst bara verið með 120 einingar tilgreindar á meistaraskírteininu.
2. Ég er búin að eyða allt of löngum tíma í að skrifa ritgerð sem á að skila á morgun og er ekki búin.
3. Ég er búin að lofa því að senda hluta af mastersritgerðinni minni í yfirlestur á morgun og er ekki byrjuð að laga þá hluti sem þar þarf að laga og hvað þá fara yfir hvort eitthvað vanti.
4. Ég kem væntanlega ekki til með að hafa tíma til þess að lesa almennilega undir prófið þar sem ég má ekki missa mikið úr mastersritgerðarvinnunni sem engan endi virðist ætla að taka.
5. Það eru ágætar líkur á því að ég fái hærra fyrir mastersritgerðina ef ég einbeiti mér að henni.
6. Ég get jafnvel séð mér fært að mæta í vinnuna nokkrum sinnum fyrir jól.
7. Ég fer mögulega að sofa betur þegar ég sé fram úr fyrirliggjandi verkefnum.

Það sem mælir á móti því að ég segi mig úr kúrsinum er:
1. Maður á að klára þau verkefni sem maður tekur að sér.
2. Ef ég skyldi nú slysast til að fá góða einkunn í kúrsinum þá væri það alveg fínt upp á einkunnablaðið að gera.
3. Ef ég klára þetta ekki þá finnst mér ég vera alger vesalingur – fólk hefur nú gert annað eins.

Þetta er sem sagt alveg að ná að drepa niður gleðina í Gullulandi og magna upp þráhyggjuna sem er alltaf jafn velkomin eða þannig ;)

Gott að skrifa vorkenniðmérvælublogg svona mitt í kreppunni - það gerir lífið skemmtilegra ;) Spurning hvort ekki sé kominn tími á að dusta rykið af jólaserimóníunum og koma þeim í gluggana. Svo hugguleg birtan af þeim alveg hreint og það allra besta að rykhnoðrarnir í hornunum, sem eru alveg á stærð við meðal kettlinga, hætta að sjást ;)

sunnudagur, nóvember 09, 2008

Ástandið



Gott skipulag á heimildunum! Hver þarf svo sem að sofa í rúmi, stofusófinn er bara alls ekkert síðri ;)

Fer alveg bráðum að nenna að setja inn myndirnar af Þórshafnarmótinu þar sem kvenfélagið fór svona líka á kostum - ætli það verði nokkuð endurtekið í bráð ;)

laugardagur, október 18, 2008

Mig langar svo!

Gott að hugsa um það eitt þessa dagana hversu sniðugt það væri að leigja íbúðina mína, hætta að skrifa þessa blessuðu ritgerð og drífa mig bara út til Guatemala í einhvers konar sjálfboðaliðastarf! Alls engin geðveiki á þessum bænum ;)

miðvikudagur, október 15, 2008

Áfram Ísland

Loksins, loksins! Loksins gerðist eitthvað jákvætt á þessu blessaða landi okkar, 1-0 sigur á Makedóníu í fótbolta nægir mér til að gleyma helv.. kreppunni þó ekki sé nema í smá stund. Öskur á sjónvarpið eru líka svo hressandi svona hvers dags ;)

Annars hefur kreppan engin áhrif á mig umfram það sem almennt er en maður getur ekki annað en borist með straumnum enda ekki um annað talað hvar sem maður kemur. Nú er ekkert annað að gera en að girða í brók, hætta að væla og rífa sig uppúr þessu! Það er eins gott að eftir 50 ár þá getum við sagt að við höfum lært eitthvað af þessu öllu saman!

Ókeypis sparnaðarráð í kreppunni frá mér er að drífa sig út í göngu - alveg fríkeypis og svo ótrúlega hressandi að anda að sér ferska loftinu. Ekki verra að slökkva á sjónvarpinu í leiðinni :) Betra en sálfræðimeðferð og ókeypis líkamsrækt! Ég fór í ótrúlega vel heppnaða göngu á Esjuna um daginn með Laufeyju, Ölmu og Iain vini Laufeyar frá Englandi sem var hér í heimsókn. Snjórinn, yndislega veðrið og skemmtilegur félagsskapur gerði þetta að mjög svo góðum degi og ég afrekaði það í fyrsta skipti að komast alla leið uppá topp - geri aðrir betur. Annars segja myndir meira en þúsund orð og koma hér nokkrar í tilefni dagsins.









Annað merkilegt er ekki að frétta héðan úr S5, ritgerðarskrif og heimildalestur í algleymingi og ég ekki alveg að standa mig nægilega vel í þeim efnum en ég SKAL þó klára á réttum tíma. Ég get hreinlega ekki meiri skóla og alls ekki meira krepputal ;) En þangað til næst, verið góð hvert við annað og reynið nú að hafa gaman af því að vera til - það þarf ekkert að kosta svo marga peninga.

föstudagur, október 03, 2008

Snjóar í kreppunni

Pínulítið hippókratískt að mitt í frostinu sem tröllríður íslensku efnahagslífi skuli snjóa í Reykjavíkinni fyrir sunnan og það í byrjun október ;) Snjórinn gleður hins vegar mitt litla hjarta og ég væri mest til í að fara bara út að leika mér! Æ, hvað það væri nú notalegt að hafa snjóinn bara fram að jólum sem minnir á það að það fer að verða kominn tími til að huga að serimóníum til að skreyta höllina í svartasta skammdeginu.

Kreppuna hef ég hins vegar kosið að leiða hjá mér enda er maður svo sem vanur henni á námslánunum ;) Mig munar bara ekkert um það að borga þennan 15 þús kall auka á mánuði sem íbúðalánin mín hafa hækkað um - þakka bara fyrir að vera ekki með lán í erlendri mynt.

Af lífinu er það að frétta að lærdómur mikill mun yfirtaka það næstu vikur og mánuði en meistararitgerðinni á að skila þann 5. janúar 2009. Eftir það verður mér alveg sama þó ég þurfi aldrei að setjast aftur á skólabekk ;) Ég er reyndar mjög spennt fyrir efninu mínu og hlakka mikið til þess að kljást við það og reyna að skila frá mér einhverju af viti. Mesti vandinn er hins vegar að festast ekki í heimildaleitinni og byrja að skrifa, 10 bls. af ca 100 komnar og mættu vera fleiri ;) Það gengur sem sagt hægt en örugglega við ritgerðarskrifin líkt og með átakið góða!

föstudagur, september 26, 2008

Haustið


Þessi mynd sem ég tók þegar ég keyrði heim af Kátum í sumar er dálítið lýsandi fyrir stemninguna í Gullulandi undanfarna daga og vikur. Rigningin sem er BARA búin að vera síðan ég kom heim frá Kanada er aðeins farin að verða þreytandi og liggur við að ég myndi frekar vilja hafa snjó í september en þessa endalausu rigningu sem gerir allt svo grátt og litlaust en fær mann þó til þess að hugsa og pæla í hlutunum og hvað það er sem maður sjálfur getur gert til þess að gera lífið svolítið skemmtilegra í staðinn fyrir að sitja og bíða eftir því að eitthvað gerist. Ég skellti mér loksins á salsanámskeið með Rán og Gló og nú dönsum við á sunnudögum eins og enginn sé morgundagurinn. Það er BARA gaman! Kvenfélagið er líka komið í átak og gott ef ég er ekki sú eina sem búin er að þyngjast í því átaki ;) Það er svo gott fyrir móralinn ;) Foreldrarnir áttu 30 ára brúðkaupsafmæli á miðvikudaginn sem eru að sjálfsögðu mikil gleðitíðindi og merkileg :) Gulla amma varð líka 80 ára í gær og hefur ákveðið að bjóða til fjölskylduveislu í bústað við Apavatn um helgina, með tilheyrandi áti og skemmtilegheitum. Ekki laust við að ég hlakki svolítið mikið til að komast aðeins út úr borginni þó ekki sé nema í 2 daga.

Annars hafa síðustu dagar farið í miklar pælingar um lífið og tilveruna og þátttöku mína í þeim leik. Pælingar um tilganginn með þessu öllu saman og sumt eflaust væmnara en eðlilegt þykir. Ég held að á síðustu árum hafi algengasta áramótaheitið mitt verið að komast aftur í samband við gamla vini - fólk sem mér þykir svo ótrúlega skemmtilegt en af einhverjum ástæðum hef misst samband við og finnst erfitt að hringja í eftir svona langan tíma. Ég hef misst af svo mörgum finnst mér, fyrst þegar ég fór í Zöruævintýrið góða og gleymdi því að ég gæti átt mér líf fyrir utan vinnuna og svo ekki síður núna í lærdómsgeðveikinni sem hefur staðið yfir síðustu 5 árin. Ég hef oft pælt í því hvað þetta fólk sé að gera í dag og einhvern vegin gert ráð fyrir því að það sé hamingjusamt og í góðum málum almennt - sem það örugglega er. Flestir að sinna sínu eins og ég hef verið að sinna mínu. Suma þekkti ég bara í stuttan tíma, aðra næstum alla mína ævi, en allt á þetta fólk sameiginlegt að hafa verið hluti af mínu lífi í einhvern tíma og átt vissan þátt í því að ég er sú sem ég er í dag.

Það er ekkert eðlilegra en að fólk missi samband hvert við annað, fólk þroskast í mismunandi áttir, sækist eftir ólíkum hlutum í lífinu eða bara hlutirnir æxlast með þessum hætti -það þarf ekkert að vera neitt slæmt. Manni verður engu að síður brugðið þegar maður sér að lífið er ekki jafn einfalt og gott og þær skýjaborgir sem maður hefur byggt sér í huganum og að slæmir hlutir geta hent fólk sem maður þekkti einu sinni og það er ekki hræsni að taka slíkt nærri sér. Ég er svo þakklát fyrir að hafa fengið að gera allt það sem ég hef gert í lífinu og fengið að kynnast öllu þessu fólki og ég geri mér grein fyrir að ég er sérstaklega heppin að hafa í kringum mig fólk sem gafst ekki upp á mér þrátt fyrir tímaleysi, sambandsleysi, próftímabil og tilvistarkreppur. Vini og fjölskyldu sem hafa gefið mér svo óendanlega mikið og ég vona að á einhverjum tímapunkti í lífinu þá nái ég að endurgjalda þeim.

Það sem síðustu dagar hafa kennt mér er að þegar mínum tíma lýkur vil ég hafa lifað lífinu, verið hamingjusöm, gert hluti öðrum til góðs og ekki hafa þá tilfinningu að ég hafi misst af einhverju sem ég hefði viljað gera af því að ég þorði ekki að láta slag standa.

laugardagur, september 13, 2008

Sumarið er búið .....

og kvenfélagið komið í átak! ójá, nú skulu þau fá að fjúka aukakílóin og stefnan tekin á að verða flottasta kvenfélagið í bænum í desember!! Erfiðastur er súkkulaðiskorturinn sem hefur valdið miklu eirðarleysi og einbeitningarleysi á mínu heimili og helsta orsök þess að lærdómurinn hefur ekki farið jafn vel af stað og vonir stóðu til ;) Ekki laust við öfund í garð þeirrar sem má borða 10 fiskibollur á hverju kvöldi án þess að hafa áhyggjur af því að hliðarspikið dreifi sér langt aftur á bak!

En að öðru en þráhyggju minni vegna súkkulaðileysisins - sumrinu sem var bæ ðe vei bara æði. Strandirnar, Kvenfélagsútilegan, Kátir dagar, Bræðslan, göngur hingað og þangað, Buena Vista Social Club og Kanadaferðin gerðu þetta að einhverju besta sumri í háa herrans tíð og þarf mikið til að sumarið verði toppað.

Bloggið verður reyndar allt of langt ef ég á að fara að segja sögur af þessu öllu saman en þó verður að minnast aðeins á kvenfélagsútileguna sem var snilldin eina þrátt fyrir að rigningin hafi elt okkur þangað til komið var heim í dýrðina og dásemdina. Það sem bjargaði málunum var að sjálfsögðu partýtjaldið góða sem Tóta sá til að yrði keypt enda ekki gott fyrir kvenfélagsmeðlimi að þurfa að húka í litlu fortjaldi þegar mikið þarf að borða, hlægja og hafa gaman. Heimabakaða bakkelsið fékk því sér húsnæði og var tjaldið skýrt Þórsver með mikilli viðhöfn!


Að þessu sinni heiðruðum við Dæli í Víðidal með nærveru okkar heila helgi þar sem mjög vel fór um okkur. Við túristuðumst aðeins um Vatnsnesið og skelltum okkur í sund á Hvammstanga og þótti það bara nokkuð gott. Frá Dæli héldum við heim til Önnu á Lómatjörn þar sem vel var tekið á móti okkur og fengum við heilt hús til umráða og gátum þurrkað rennblaut tjöldin sem ekki hefðu þolað mikla rigningu í viðbót. Veiðin í Ystu-Vík sló í gegn en drengirnir og Hadda veiddu handa okkur kvöldmatinn sem grillaður var í Þverárdal í bústað foreldranna þar sem við gistum síðustu nóttina. Við komum svo heim til Þórshafnar á miðvikudagskvöld eftir að hafa rifjað upp gamlar minningar í Hljóðaklettum og Ásbyrgi.


Þetta var algerlega ógleymanleg ferð og allir gullmolarnir sem fengu að fjúka voru dásamlegir!! Eins gott að þetta er árlegur viðburður!

Í lok ágúst fór ég svo í heimsókn til Gaby minnar og Luis sem búa í Montréal í Kanada ásamt syni sínum Luka og litla bumbubúanum. Ég hef ekki hitt þau síðan ég fór í brúðkaupið þeirra í Guatemala árið 2003 og því spennan mikil, ekki síst að hitta Luka en ég tók það að mér að vera sjálfskipuð frænka daginn sem prinsinn fæddist. Það er skemmst frá því að segja að þetta var yndisleg ferð og svo gaman að koma til þeirra og fá smá innsýn í það hvað þau eru að gera í lífinu. Vonandi hafa þau tækifæri til að koma í heimsókn til Íslands fljótlega en það er svo margt sem mig langar til að sýna þeim.

Við byrjuðum á því á laugardeginum að fara til Quebec City þar sem við vorum svo "heppin" að komast á "International Festival of Millitary Bands" og var borgin því FULL af fólki sem fagnaði óspart hverju bandinu á fætur öðru. Ég verð að viðurkenna að þetta fellur ekki innan míns áhugasviðs en við notuðum daginn og skoðuðum borgina sem er einstaklega falleg og gamaldags en hún fagnar einmitt 400 ára afmæli á þessu ári.






Sunnudagurinn byrjaði með svamli í sundlauginni og sólbaði fyrir sólarþyrstan Íslendinginn en svo fórum við á vínekru þarna rétt hjá þar sem við tíndum epli og smökkuðum vínframleiðsluna. Yngsti meðlimur hópsins fór hreinlega hamförum í eplatínslunni og þurfti hreinlega að múta barninu svo hann fengist til að hætta svo gaman var hjá okkur. Á heimleiðinni sungum við svo Kalli litli kónguló á 3 tungumálum aftur og aftur og aftur þangað til móðirin gafst upp og setti Chi Chi Peralta í tækið og dilluðum við okkur og sungum si señor, si señor það sem eftir var leiðarinnar - veit ekki alveg hvort var betra ;)



Það var að sjálfsögðu stjanað við mig eins og ég væri drottningin í fjarskaniskan og allar uppáhalds uppskriftirnar frá Guatemala töfraðar fram.


Við fórum líka í gamla bæinn í Montréal (Vieux Montréal) sem var svo yndislega fallegur. Það allra besta var að við vorum þar í miðri viku þannig að það var ekki allt troðið af ferðamönnum og við gátum gengið um og notið lífsins eins og enginn væri morgundagurinn.



Chinatown var svo upplifun út af fyrir sig þó hverfið sé ekki stórt þá er eins og komið sé inn í allt annan heim.


Annars var rólegheitastimpillinn yfir þessari ferð, borðaður góður matur, slappað af, barninu spillt og verslað fyrir allan peninginn og við því að búast að nýrað verði selt svo peningur verði til fyrir visareikningnum ;) Þetta var svo akkúrat það sem ég þurfti á að halda og gott að geta hlaðið batteríin fyrir lokaátökin í skólanum. Best af öllu var þó samt að hitta þau Gaby og Luis sem alltaf eru jafn yndisleg og falleg og góð og kynnast villingnum honum Luka sem fanst þessi sjálfskipaða frænka bara nokkuð mögnuð og vildi gera allt eins og hún og var ekkert sérstaklega ánægður með að hún skyldi ákveða að fara heim. Ekki laust við að hann hafi brætt hjartað í frænkunni sem finnst hann að sjálfsögðu fallegasta og æðislegasta barn í heimi.

Nú er lífið hins vegar komið í sinn vanagang, vinna og lærdómur það sem allt snýst um og ekki laust við að ég telji dagana þangað til ritgerðinni verður skilað. Þangað til væri alveg sterkur leikur að ná að skrifa meira en 2 málsgreinar á hverjum tveimur vikum sem líða - annars verður ritgerðin frekar stutt ;)

mánudagur, júlí 07, 2008

Allt að gerast

Það er einhvern veginn alltaf þannig að á hverju vori er tekin ákvörðun um að nýta sumarið til hins ýtrasta og svo áður en maður veit af er sumarið hálfnað og maður hefur ekki komið helmingnum í verk. Þetta sumar er öðruvísi :) Að sjálfsögðu er skemmtilegast að segja frá göngunni frá Djúpuvík yfir í Bjarnafjörð á Ströndum, yfir trékyllisheiði, enda var þetta bara æðislegt. Það er eitthvað svo hrikalega fallegt við Strandirnar að ég er ekki frá því að þetta sé að verða einn af mínum uppáhaldsstöðum á landinu. Gangan gékk að sjálfsögðu vel, eftir mjög svo sérstaka bílferð í Djúpuvík - Iceland from the rear window verður væntanlegt heiti heimildarmyndar um svaðilför þá ;) Einn göngugarpur þurfti reyndar að snúa við þegar gömul meiðsl tóku sig upp en við vorum sex fjallageitur sem héldum áfram og gengum í u.þ.b. 7 tíma. Sumir ónefndir og þindarlausir tóku reyndar upp á því að hlaupa restina af leiðinni með nestið á bakinu og vakti það mikla lukku hjá þeim sem eftir voru ;) Erfiðast var án efa að fara yfir Goðdalsánna því það var svo mikið leysingavatn í henni og þegar ég stóð a steini út í miðri á, tilfinningalaus í fótunum frá hnjám og niður var ég nokkuð viss um að ég myndi daga uppi og verða að steini sjálf því ekki hvarflaði að mér að halda áfram og ekki gat ég snúið við! En maður er nú ekki dreifbýlingur fyrir ekki neitt þannig að það var ekki annað að gera en að draga djúpt andann og láta sig vaða. Grill í Sunndalnum og spjall við allt þetta skemmtilega fólk kórónaði svo daginn en helgin verður að teljast með þeim betri á árinu.

Í gær var svo haldið í Botnsdalinn ásamt góðum hópi fólks og gengið upp að Glym í glampandi sól og steikjandi hita. Erfiðasta leiðin var að sjálfsögðu valin af sérlegum "farangurstjóra" sem leiðsagði eins og sannur atvinnumaður og passaði að allir færu nú rétta leið en um 70% fólks sem fer að Glym sér aldrei fossinn almennilega þar sem það fer vitlausu megin upp - doltið vandræðalegt ;) Alveg sérdeilis vel heppnaður dagur sem endaði svo í S3 í grillveislu og útilegufundi.

Skálagerðið fer svo að verða komið í sparigallann eftir mikinn mokstur og þó nokkurn dugnað þar sem einu og hálfu tonni af grjóti var mokað í fyrrum blómabeð og allar áhyggjur og óþarfa mórall yfir arfanum sem yfirtekið hafði beðið því horfnar. Stefnan er að klára allt fyrir helgina því nú er komið að "árlegri" útilegu kvenfélagsins ásamt viðhengjum og börnum og svo er stefnan tekin heim í dýrðina og dásemdina á Káta Daga. Passar ágætlega að um helgina er spáð hellirigningu um allt land og hvergi von á sólarglætu. Það borgar sig að hafa plan A og B ef öðru hvoru megin á landinu skyldi vera rigning - þá förum við bara hinum megin!! En maður lætur regnið ekkert á sig fá og klæðir sig bara betur - svo lengi sem sólin skín á Happy Days þá verð ég sátt.

Það er svo ýmislegt annað planað í sumar, pallapartý, tónleikar í Bræðslunni á Borgarfirði Eystri, afslappelsi í bústaðnum hjá mömmu og pabba, heimsókn til Gaby og Luis í Montréal og svo langar mig alveg hryllilega mikið að fara að sjá Buena Vista Social Club en ég var svo heppilega mikið að vinna þegar það ágæta fólk spilaði hér síðast og þó margir góðir séu fallnir frá þá er ég viss um að þetta verða bara æðislegir tónleikar.

Jæja, þá er nóg komið af bulli og best að fara að gera eitthvað af viti!! Fólk á heldur ekkert að vera að lesa bloggsíður núna, farið út og njótið sumarsins :o)

þriðjudagur, júní 17, 2008

Hæ hó jibbí jei

17. júní mættur á svæðið og ekkert betra en að sofa í sólbaði á nýja sólpallinum sem er bara að gera góða hluti. Skálagerðisíbúar, þ.e. ég, Tóta og Anna og Halldóra og Gummi, lögðum í það þrekvirki að loknum próflestri að skella upp þremur sólpöllum á einni viku og geri aðrir betur. Við nutum dyggrar aðstoðar Höddu, Ása og Línu og ekki var verra að pabbinn kom í bæinn akkúrat til að hjálpa frumburðinum. Er almennt talið að fegurri og betri sólpallar hafi aldrei litið dagsins ljós norðan alpafjalla en sökum þess að myndavélin mín gaf upp öndina af ókunnum ástæðum um daginn eru engar myndir til af herlegheitunum en hér má sjá myndirnar hennar Tótu úr pallasmíðinni.

Svo má nú ekki gleyma að minnast á að kvenfélagsdömurnar Halldóra og Rán útskrifuðust á laugardaginn sem leikskólakennari og lífeindafræðingur og fengu fullt af fullorðinsstigum í kladdann - bara duglegar. Sigga lögfræðiskvísa útskrifaðist líka á laugardaginn og er því orðinn fullgildur lögfræðingur stelpan. Til hamingju með þetta allar þrjár :o)

Í tilefni sumarsins hef ég gerst göngugarpur mikill, búin að fjárfesta í útbúnaði til að príla upp á hvaða fjall sem er og bara verið sæmilega dugleg við að nýta hann. Við Sigga fórum í gærkvöldi í miðnæturgöngu yfir Leggjabrjót með Útivist og löbbuðum í 6 tíma með stórum hópi fólks. Það var bara gaman og veðrið æðislegt þó svo að hnén hafi aðeins verið farin að kvarta þegar komið var á leiðarenda. Um helgina er svo stefnan tekin á Strandirnar ásamt Svönu minni og Binna og Ingu og Friðbirni og ætlum við að ganga um 16 kílómetra frá Djúpuvík og yfir í Sunndal í Bjarnafirði, yfir Trékyllisheiði. Ég er orðin yfirmáta spennt og viss um að þetta getur ekki annað en lukkast vel :)

Annars gengur lífið bara sinn vanagang eins og alltaf, vinnan fín og ég alveg að hafa mig í að byrja á lokaverkefninu mínu sem stefnan er að skila um áramótin. Þá lýkur vonandi setu minni á skólabekk, allavega í bili.

laugardagur, maí 10, 2008

Bara 5 dagar eftir

og þá kemst ég í langþráð sumarfrí frá skólanum :) Hef nú afrekað það að sofna bara í ca. 20 mínútur yfir bókunum í dag sem er mikil framför síðan í gær en þá sofnaði ég í örugglega 2 tíma!!

Spurning hvort maður hefur haft það of gott síðustu tvö árin þar sem maður hefur ekki farið í eitt einasta skriflegt próf sem sást best á því að ég áttaði mig á því í morgun að ég á engan almennilegan penna fyrir þetta blessaða próf á þriðjudaginn!! Því var snarlega kippt í liðinn og vinnupenninn sóttur ;) Maður er náttúrulega ekkert eins og fólk er flest og getur þar af leiðandi ekki skrifað með hvernig penna sem er og það sem er ennþá betra er að nú er maður farinn að blogga um penna eða pennaleysið öllu heldur ;) Spennan í lífinu er gríðarleg þessa dagana.

Nú er bara spurningin hvort maður geti haldið út í 5 daga í viðbót og lifi af kaffidrykkjuna sem verður lagst í fyrir barnaréttarprófið á miðvikudaginn þar sem stefnan er tekin á 24 tíma lestur fyrir próf.

þriðjudagur, maí 06, 2008

Próflestur

Vá hvað maður nennir endalaust að blogga þegar maður er í próflestri - kannski ekki skrýtið þegar maður á að vera að lesa um "and-mismununar löggjöf" ;) Tvö próf búin og þrjú eftir og merkilegt nokk þá hefur bara gengið skítsæmilega miðað við lestur og almennan undirbúning. Það er bara alveg gjörsamlega vonlaust að einbeita sér að bókunum svona á vorin, þá á maður bara að vera að gera eitthvað allt annað!

Plönin fyrir sumarið eru þau að gera þetta að göngusumrinu mikla og fara loksins að gera eitthvað sem manni finnst skemmtilegt í staðinn fyrir að bíða eftir því að eignast mann sem nennir að dröslast með manni á fjöll. Það er orðið útséð með það vegna hins háa aldurs (og eflaust af fleiri ástæðum) og því ekkert annað í stöðunni en að taka málin í eigin hendur, hætta þessu væli og reima á sig skóna.

Skálagerðisbúar eru svo búnir að leggja það í nefnd að fá að byggja sér sólpalla til að njóta hins frábæra íslenska sumars til hins ítrasta. Pallapartý og grillveislur um hverja helgi! Greyið Gummi að hafa fengið það verkefni að smíða 3 palla með aðstoð frá Skálagerðisdömunum ;) Held nú samt að það sé hægt að setja okkur í fleiri verkefni en virðist við fyrstu sýn - við erum nú ekki dreifbýlingar fyrir ekki neitt!

Annars best að halda áfram með lesturinn - bara rétt rúm vika eftir!

sunnudagur, apríl 27, 2008

Blessuð börnin

Er það ekki alveg dæmigert að loksins þegar maður kemst í lærdómsgírinn (ekki seinna vænna) þá kjósi hópur ókunnugra barna að leika sér í garðinum mínum - hvað varð um það að vera bara í tölvunni?!? Væri fínt að fá smá vorhret svona fram yfir 14. maí svo lærdómsfriðurinn haldist ;)

föstudagur, apríl 25, 2008

Sumarið er komið

Próflestur í fullum gangi - ég er allavega byrjuð og búin að telja mér trú um að ég geti þetta því þetta verður í vonandi í síðasta skipti sem ég eyði vorinu í lestur. Svo er bara að bíða og sjá hvernig þetta fer allt saman.



Upplifði þann merka áfanga um síðustu helgi að komast loksins í fullorðinsflokkinn. Það varð að sjálfsögðu að fagna því og var boðað til veislu á Klapparstígnum hjá Settinu sem stóðu sig ótrúlega vel í að bera í fólk áfengi og veigar. Skemmst frá því að segja að ég skemmti mér ótrúlega vel enda ekki annað hægt þegar maður þekkir svona mikið af skemmtilegu fólki. Myndbandið frá Gumma og Guffa og plakatið og kórónan fína frá dömunum vakti mikla lukku og var mikið hlegið. Takk annars öll fyrir frábært kvöld! Ég hafði það loksins af að setja inn myndir og bara fallegar því sumar eru ekki hæfar til að birta á veraldarvefnum ;)

Dömurnar + viðhengi og börn voru skelltu sér svo í Keflavíkina í afmæli hjá Arngrími Agli á laugardaginn en litli músi varð 2ja ára og kann sko að telja upp á tíu. Það var bara dásamlegt að fá hamborgara a la Gunni til að vinna aðeins á veikindum laugardagsins og alltaf svo gott að koma í heimsókn í Keflavíkina.

Hef annars frekar lítið að segja og þar sem það er betra að þegja og vera talinn heimskur heldur en að tala og taka af allan vafa þá læt ég þetta gott heita í bili.

Verið góð hvert við annað

sunnudagur, febrúar 24, 2008

Bloggleti

Hún hrjáir mig mikið þessa dagana, letin - ekki bara bloggletin heldur bara almennt. Veit ekki hvort þetta er tilvistarkrepputengt en held allavega að ég taki mér smá pásu frá blogginu. Kanski maður standi sig betur þegar maður verður kominn á fertugsaldurinn!!!!

Over and out!

miðvikudagur, febrúar 06, 2008

Hann er mættur á svæðið!

Sæti litli molinn hennar Línu ákvað að koma í heiminn í dag og ekkert lítið búið að bíða eftir honum ;) Bara fallegastur :) Elsku Lína og Bensi, til hamingju með litla fallega prinsinn ykkar. Spurning hvort dömurnar fari nú að huga að flutningum í Mosfellsbæinn ;)

þriðjudagur, janúar 29, 2008

Þrek

Vá hvað ég á eftir að fá mikla strengi eftir þennan þrektíma í morgun! Vísbending um að maður sé alls ekki í eins góðu formi og maður heldur - eða að maður eigi að sleppa því að éta eins og hross í hvert skipti sem maður sér mat á borðum?? Maður spyr sig!

Djöfull er samt gott að vera byrjuð!

mánudagur, janúar 21, 2008

Snjór í Skálagerðinu







Snjórinn í Reykjavíkinni hefur sko aldeilis fallið í kramið í Skálagerðinu og spurning hverjir skemmti sér betur, börnin eða við þessi "fullorðnu".

föstudagur, janúar 18, 2008

Nú er það búið

Þegar maður kýs að eyða föstudagskvöldi í það að laga sírennslið í klósettinu heima hjá sér verða líkurnar á því að maður pipri að teljast 99%.

Suma hluti verður maður bara að sætta sig við ;)

laugardagur, janúar 12, 2008

Hvað er málið!

Halda menn að þeir geti bara rænt 11-11 búðina mína með reglulegu millibili! Ekki líst mér á það - og ég sem bý í besta hverfinu í bænum (að mínu mati allavega). Held að þessir aumingjar ættu að girða í brók og reyna að vinna eins og menn í staðinn fyrir að hræða líftóruna úr vinnandi fólki. Ég hef því miður enga samúð með svona vesalingum - ef þú ert nógu heimskur til að lenda í ruglinu (þú rænir væntanlega ekki búð nema vera í ruglinu) þá nenni ég ekki að vorkenna þér!

Kíkti annars í bæinn með lögfræðiskvísunum í gærkvöldi í kjaft og hvítvín. Það var bara gaman og á köflum mjög áhugavert. Gubbulyktin inni á Vegamótum var hins vegar ekki að gera góða hluti - stundum sakna ég reykingastybbunnar!

Sófaleiðangur næstur á dagskrá og svo dömuboð í Mosó í kvöld :)

sunnudagur, janúar 06, 2008

Lítil prinsessa

Hún Helga mín átti í dag litla prinsessu :) Elsku Helga, Hlynur og Henrý Jarl stóri bróðir, til hamingju með þessa yndislegu viðbót við fjölskylduna :D

Nú þarf ég að fara að gera mér ferð norður til að fá að sjá hana!

Nýja árið

2008 mætt á svæðið án þess að maður fái við neitt ráðið. Ég ætla svo sem ekki að vera með neinn áramótapistil - árið 2007 var að mörgu leiti gott og að mörgu leiti glatað og einhverjar líkur á að 2008 verði svipað. Engin áramótaheit heldur enda miklar líkur á að þau standist ekki ef miðað er við árangur af fyrri strengingum áramótaheita! Ég hef þó ákveðið að heiðra ræktina með nærveru minni þar sem ég var svo heppin að komast á íþróttastyrk og þá er nú spurning hvort lífið fylgi ekki með í kjölfarið. Tóta bauð í afmælisdömuboð á föstudaginn sem leiddi til þess að lífstílsbreytingunni var frestað til mánudags enda ekki annað hægt en að gúffa vel í sig af kræsingunum sem gamla bauð uppá. Nú er unnið að því af kappi að klára sykurbirgðirnar í Skálagerðinu svo það verði ekki hægt að verðlauna sig með súkkulaði fyrir hverja ferð í ræktina ;)

Fyrirfram virðist verða það markverðasta á árinu að ég á afmæli, eins og reyndar á undanförnum árum, nema hvað að núna virðast endalokin vera farin að færast nær og nær! Held ég verði að fara að breyta planinu aðeins því það er fátt sem hefur verið strokað út af listanum yfir það sem gerast átti í lífinu fyrir þrítugt! Hef þó með lagni náð að túlka 60 fermetra íbúðina mína sem hús og það að ég gæti klárað námið í vor verður látið duga undir liðnum "klára skólann" þrátt fyrir að ég hafi ákveðið að seinka útskriftinni aðeins! Allir hinir 10-20 liðirnir verða að bíða eftir betra tækifæri til að verða kláraðir - spurning hvort að sumt verði raunhæft eftir að maður kemst í fullorðinsflokk ;)

Skólinn byrjar í fyrramálið - fögur fyrirheit eins og alltaf en spurning hvað það endist lengi ;)