sunnudagur, desember 31, 2006

Áramót

Árið 2007 á morgun, síðasti dagur ársins 2006 í dag - eins og svo oft áður hefur tíminn flogið áfram án þess að maður geri sér grein fyrir því. Árið hefur hins vegar verið mjög viðburðarríkt og gott og vonandi að árið 2007 haldi áfram á sömu braut.


Jólin búin vera yndisleg. Aðfangadagur var óvenjulegur en ég hefði ekki getað hugsað mér hann betri. Við borðuðum ofboðslega góðan mat eins og vera ber, spiluðum og kjöftuðum fram á nótt. Þó svo að það hefði örugglega verið gaman að fara heim um jólin (þar sem alltaf er best að vera) þá er ég alveg búin að sjá að jólin snúast ekki bara um hefðir og að allt sé eins og það hefur alltaf verið heldur miklu frekar um það að gera "heima" þar sem maður er í það og það skiptið. Að njóta þess að eiga óvenjuleg jól í stað þess að sakna jólanna sem maður hefur alltaf átt.

Martin, Þór og Áróra á aðfangadag


Jóladagur og annar í jólum einkenndust af bókalestri, Nóa Síríus (sem leyndist mér til mikillar gleði í einum jólapakkanna), smákökum, laufabrauði og malti og appelsíni. Alveg ótrúlega næs. Brugðum okkur reyndar að sjá Bond á annan í jólum - bara þrælgóður Bond og þrælflottur í kaupbæti ;)

Takk öll sömul fyrir jólakveðjurnar og jólakortin – gott að vita til þess að það er hugsað til manns í útlöndunum. Í tilefni þess hef ég sett inn myndir undir jól og áramót ef einhverjir vilja sá heimildarmyndir af herlegheitunum :)

Jóhann og Anna María mín komin og svo yndislegt að hafa þau :) Við Anna María erum búnar að hreinsa allverulega úr búðunum og fæturnir aðeins farnir að þreytast eftir margra klukkutíma þramm á strikinu. Karolina, vinkona mín frá Póllandi, kom svo í gær og verður hjá okkur um áramótin. Klikkuðum reyndar á því að kaupa flugelda þar sem þeir voru ekki seldir á strikinu ;) Vonum að dönsku kreppurnar séu ekki jafn sparsamar á flugeldana eins og þær eru á jólaskreytingarnar! Það er eitt hús í mínu hverfi sem er almennilega skreytt en jólaseríur sjást annars á stangli. Menn hafa hins vegar verið býsna ötulir við að sprengja síðan fyrir jól þannig að ég vona að við sjáum nokkra flugelda.

Engin áramótaheit komin á listann - tillögur vel þegnar í kommentin ;)

Gleðilegt nýtt ár!

laugardagur, desember 23, 2006

Lille juleaften

Þorláksmessukvöld og jólin bara á morgun. Búið að baka og skúra og gera og græja, allt klappað og klárt :) Skrýtið að vera ekki á þvælingi á Þorláksmessunni, ekkert jólatré við Kaupfélagið og engir jólasveinar með karamellur og epli í poka. Verður samt skrýtnast að fá ekki jólasvein inn að rúmi í fyrramálið - Glóan mín fékk þá reyndar alla leið upp í rúm í fyrra þessar elskur.

Lambalæri frá Nýja Sjálandi á matseðlinum annað kvöld með tilheyrandi kræsingum og að sjálfsögðu sendi mamma mér laufabrauð og malt og appelsín til þess að þetta verði nú fullkomið. Anna María mín búin að pakka niður í fjársjóðskistu öllu því sem var á óskalistanum mínum frá Íslandi þannig að nú tel ég bara niður þangað til hún og Jóhann koma. Held að jólin gætu bara hreinlega ekki orðið betri :)

Óska ykkur öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári. Vona að enginn fari í jólaköttinn og hlakka til að sjá ykkur sem flest á nýja árinu.

Jólakveðja frá Árósum

þriðjudagur, desember 19, 2006

Mjaðmir ljúga ekki ....

Ójá, það er staðfest og miðinn keyptur. Þann 9 mars 2007 verðum við, ég, Áróra og Lydia í Álaborg á tónleikum með Shakira :) Það eru ekki nema rétt um 10 ár (mögulega 11) síðan ég keypti mér Piez descalsos og mér finnst eins og það hafi verið í gær. Tónlistin hefur aðeins breyst, er orðin meira comercial en mjaðmir ljúga ekki og hún stórvinkona mín hún Shakira er "pura latina" og mikið rosalega verður gaman að "mover las caderas" við almennilega tónlist svona til tilbreytingar.

Hasta la vista beibís!

mánudagur, desember 18, 2006

Einhvern tíman verður allt fyrst



Hef ósjaldan haldið því fram að miðað við undirbúing fyrir próf þá sé stefnan tekin á 11. Það hefur nú meira verið gert til þess að peppa sjálfa mig og aðra upp í lærdómnum þegar myglan er orðin gríðarleg og nennan engin. Það hlaut því að koma að því að 11 yrði staðreynd í einkunnabókinni og merkilegt ef það var ekki bara í faginu sem ég taldi mig vera lélegasta í ;). Nú liggur leiðin bara upp á við, enda enn hægt að stefna á 13 ;)

Jólahreingerning á morgun, ekki seinna vænna þar sem "kettirnir" eru orðnir óvenju stórir miðað við árstíma ;) Svo er bara nægur tími til þess að njóta þess að jólin séu að koma - allt of langt síðan ég hef verið komin í jólafrí svona snemma. Ætla svoleiðis að gera ekki neitt, nema baka smákökur og svo er aldrei að vita nema maður skelli sér á jólamarkað í Den Gamle By, en þar er þessi mynd einmitt tekin

laugardagur, desember 16, 2006

Allt að hafast

Próf á mánudaginn, það síðasta fyrir jól. Í þetta skiptið (og í fyrsta skipti síðan sögur hófust) hef ég ákveðið að láta duga að lesa bara glósurnar enda ekki alveg tími til að lesa 600 bls. um höfundarétt sem á tíðum er bara fullur af tæknimáli og öll tækni komin frá hinum vonda. Ef ekki væri fyrir sjónvarpsútsendingar og internet þá væri lesefnið helmingi minna og á mun skiljanlegra tungumáli ;) Er annars að hugsa um að skella í mig eins og 2 bjórum fyrir prófið til þess að róa taugarnar og geta þá allavega ruglað mig út úr þessu ef svo skyldi fara að kunnáttan verði ekki upp á marga fiska ;)

Jólakort og jólagjafir farnar að streyma í Gulluland, nú vantar bara jólahreingerninguna og smákökubakstur til þess að jólin geti komið. Svindluðum reyndar aðeins og höfðum Christmas dinner á fimmtudaginn þar sem allir komu með einn rétt og jólapakka og svo var spilað upp á pakkana - sem hreinlega slógu í gegn, sumir þó meira en aðrir og þá sérstaklega forláta fjólublár klósettbursti! Það þarf sem betur fer lítið til þess að gleðja þessar elskur. Ég fékk hins vegar þessa dýrindis Bangsímon eldhúsklukku sem hlotið hefur heiðurspláss í höllinni.

Þar til næst, hafið það gott og farið varlega í jólastressinu :)

þriðjudagur, desember 12, 2006

Magasár

Hressandi að valda sjálfum sér og öðrum vonbrigðum í fyrsta prófinu ... náðist ... en ekki með tilætluðum árangri. Maður skyldi ætla að þegar maður er farinn að æla blóði sólarhringinn fyrir próf og löngu hættur að sofa í gegnum heila nótt, að maður gæti drullast til þess að koma því frá sér sem baráttan hefur snúist um síðustu vikur, sérstaklega þegar maður kann alveg efnið! En nei, það er greinilega ekki hægt að búast við því. Hver stjórnar þessu - ég bara spyr!

sunnudagur, desember 10, 2006

Próf, próf, próf

Hún Stína mín elskulegust gerði mér kleift að sleppa lærdómnum í 10 mínútur með þessu snilldar "prófi". Það verður nefnilega að heita próf til þess að ég láti frá mér bækurnar, þvílíkur er áhuginn ;) Til þess að endurgjalda greiðann hef ég ákveðið að skella þessu hérna inn, vona Stína mín að ég nái að stytta þér aðeins stundirnar í próflestrinum ;)

Þið hin, ef einhver eru, megið endilega svara þessu líka :) Ykkur ber eiginlega skylda til þess þar sem ég er í próflestri og á svo agalega bágt vegna þess ;)

Koma svo, vera með!

1.Hvað er það fyrsta sem þér dettur í hug um mig ?

2. Hvaða lag minnir þig á mig?

3. Hvaða mynd minnir þig á mig?

4. Hver er fyrsta minningin þín um mig?

5. Hvaða dýr minni ég þig helst á og afhverju?

6. Er eitthvað sem þú veist ekki um mig og langar að vita ?

7. Höfum við djammað saman ?

8. Ætlarðu að setja þetta á þitt blogg svo ég geti svarað um þig ?

laugardagur, desember 09, 2006

Heilsuátaki frestað um óákveðinn tíma

Allavega fram yfir próflestur! mögulega aðeins lengur ;) Má bara alls ekki við að missa 3 tíma á dag úr lærdómnum en það tekur um það bil svo langan tíma að fara í ræktina. Hins vegar má ég vera að því að skoða sólarlandaferðir, blogg- og barnalandssíður og annað mjög svo áhugavert á veraldarvefnum!

Fór líka að spá í það að ég hef aldrei verið jafn vel á mig komin, heilsuátakslega séð, eins og þegar ég var að vinna í Zöru í Smáralind og þá borðaði ég twix í svo til öll mál og drakk kók. Til hátíðabrigða var djúpsteiktur kjúklingur og franskar úr Nóatúni ... nammi namm (eða þannig). Breytingar hafa því verið gerðar á mataræði undirritaðrar. Kók og súkkulaði verða nú aðaluppistaðan í fæðinu og kjúklingur (þó ekki djúpsteiktur) við sérstök tilefni!

Takk fyrir bless!

föstudagur, desember 08, 2006

Lærdómur - þrældómur

Mikið vildi ég óska að Glóan mín væri núna hjá mér, að kokka handa mér chilibuff og pico de gallo og til að sjá um að gera í mig fastar fléttur svo hárið þvælist ekki fyrir lestrinum :)

Bara 10 dagar eftir í lestri og 20 dagar þangað til Anna María og Jóhann koma til mín - þetta reddast, allt saman :)

miðvikudagur, desember 06, 2006

It makes you think

Alltaf gott að gera allt annað en að lesa fyrir próf - allt of fáar blaðsíður á lestrarlista dagsins en það reddast. Valnámskeið fyrir veturinn 2007-2008 hafa verið birt og mjög gleðilegt að ég get hugsað mér að taka 9 einingar á haustönn og 6 á vorönn! Spurning hvort maður sé á rangri hillu í lífinu ...

Heilsuátakið byrjar vel - 7 dagar búnir af desember og ég hef ekki enn farið í ræktina ;) Jibbíkóla!

sunnudagur, desember 03, 2006

Dekurhelgi að baki ...

og formlegur próflestur hafinn :( Já tími jogginggalla, ullarsokka, matar sem elda má á 3 mínútum eða skemur er tekinn við með tilheyrandi þrifpásu - mér til mikillar gleði eða þannig ;)

Helgin hefur verið ljúf það sem af er. Lydia (sem var með okkur á dönskunámskeiðinu í ágúst) kom á miðvikudagskvöldið og fer aftur í dag. Við ákváðum að vera ekkert of aktívar í djamminu vegna próflesturs svo það var "girls night in" á föstudagskvöldið. Elduðum góðan mat og svo tók dekrið við - litun, plokkun og maskar og Nynne í tækið með tilheyrandi hlátrasköllum. Hún Nynne er danska útgáfan af Bridget Jones og alveg jafn misheppnuð ef ekki verri - Alveg nauðsynleg fyrir stelpukvöldin.

Í gærkvöldi átti nú aldeilis að lyfta sér aðeins upp í tilefni væntanlegrar einangrunar. Eftir margra tíma tilbúning var skundað á Social Club því þar er bjórinn fríkeypis milli 11 og 12 og kreppa mikil í gangi - ekki það að ég var bara í vatninu. Eini gallinn við Social Club er hins vegar að þar er meðalaldurinn ca. 18 ár og tónlistin er vægast sagt hörmung og ég segi það ekki bara af því að ég er orðin gömul! Ég gafst sem sagt upp kl. 12 og fór heim að sofa!

Nýjasta nýtt er að ég er komin í heilsuátak enn einu sinni en nú skal það takast - ég skal hunskast í ræktina alla daga í desember (nema prófdaga) og ég skal verða aftur mjó - gúdd bæjj hliðarspik og bingó!

fimmtudagur, nóvember 30, 2006

Vetur, sumar, vor eða haust

Það er ekki gott að segja til um hvaða árstíð er þessa dagana hér í Danmörku. Hitinn er alla daga um og yfir 10 gráður og ennþá lauf á trjám og runnum sem þrjóskast við að haldast þar. Lítur út fyrir að enn eitt hitametið verði sett hér í nóvember og sem dæmi um tíðarfarið hérna í Árósum má nefna að búið er að fresta opnum skautasvellsins við Musikhuset, um óákveðinn tíma, þar sem ekki er nógu kalt til þess að vatnið frjósi! Það er ekki eins og það sé desember á morgun ;)

Blessuð blíðan angrar mig þó reyndar ekkert enda lítið fyrir að hafa kaldar tásur. Væri nú ágætt samt að reyna að díla við þann sem öllu ræður og fá snjó 23. desember í nokkra daga - ég myndi alveg láta mig hafa það :)

þriðjudagur, nóvember 28, 2006

Skiptinema í jólamatinn

Já svona er fyrirsögnin á tölvupósti frá stúdentaráði sem mér var að berast. Nú hef ég aldrei smakkað skiptinema en maður veit aldrei ;) Samt pínu fegin að vera skiptinemi í Danmörku en ekki á Íslandi þessa stundina ;)

En að öllu gamni slepptu þá er þetta mjög gott framtak enda ætti enginn að vera einn á jólunum og örugglega mjög gaman fyrir erlenda skiptinema að fá að upplifa það hvernig við höldum upp á jólin.

mánudagur, nóvember 27, 2006

Próflestur eða jólastúss ... það er spurningin

Ætti að vera að lesa fyrir próf en er í staðinn að verða búin að skrifa öll jólakortin og pakka inn öllum jólagjöfunum. Aldrei slíku vant má fólk búast við því að fá jólakortin frá mér í fyrra fallinu en ekki á sjálfan aðfangadag eða jafnvel milli jóla og nýárs ;)

Var ánægð með að vera fyrst til að setja upp jólaseríur í hverfinu (allavega mínu næsta nágrenni) en það virðist vera sem daninn stressi sig ekkert á því frekar en nokkru öðru. Ég fer nú alveg bráðum að ná að tileinka mér þetta ligeglad viðhorf en á samt enn dálítið langt í land. Ekki það að það er mjög róandi að hengja upp IKEA kransana í staðinn fyrir það að vera með venjulega seríu. Lagði ekki í nokkra klukkutíma vinnu þar sem mæla þarf bil milli ljósa í glugganum með reglustiku ... og nei, ég hef ekki verki með þessu!

Keypti líka tilbúinn aðventukrans á laugardaginn, þ.e. það var búið að vefja grenið en átti eftir að skreyta, til að spara tíma þið vitið. Nema hvað að þegar að skreytingu kom þá fannst mér "vefjan" svo illa gerð að ég tók allt grenið af og gerði þetta upp á nýtt sem þýddi það að ég var enn lengur að þessu heldur en ef ég hefði bara keypt mér greni og gert þetta allt frá grunni. Maður á greinilega aldrei að stytta sér leið og ef hlutirnir eiga að vera almennilega gerðir þá á maður að gera þá sjálfur.

Fór að sjá United - Chelsea í gær, átti ekki alveg von á að labba inn á pöbb þar sem það var alveg eins og menn hefðu aldrei séð kvenmann áður. Þeir horfðu allir á mig strákarnir þegar ég kom inn (mögulega af því að það voru svona eins og 5 konur þarna) og svo þurfti ég að brjótast í gegnum þvöguna og leita að strákunum sem voru faldir lengst inni í horni þannig að ég ætlaði aldrei að finna þá. Bara vandræðalegt...

Anna María mín og Joe alveg að fara að koma til mín, bara 31 dagur þangað til :)

Jæja, ekki meira kæruleysi - drífa lærdóminn af svo ég geti farið í að klára jólagjafirnar. Ef einhver er sérfræðingur í International Copyright er þeim hinum sama velkomið að mæta í próf 18. desember fyrir mína hönd.

miðvikudagur, nóvember 22, 2006

Sykurfíkn ... Maður spyr sig!

Þegar maður vaknar þreyttur á Danmörku, náminu, rigningunni, vöðvabólgunni, strætó og fólki almennt eru góð ráð dýr. Ég ákvað að láta þetta ekki alveg eyðileggja fyrir mér daginn, skundaði í búð og fyllti körfuna af öllu sem mig langaði í þá stundina - súkkulaði, lakkrís, snakki, kóki, kexi og fleira góðgæti (gleymdi sem sagt öllu sem ég hafði lagt upp með að ætla að kaupa). Er nú búin að gúffa í mig eins og versti villimaður og langar mest til að henda restinni af draslinu í ruslið! En ef litið er á björtu hliðarnar þá kemur ógleðin alveg í veg fyrir það að ég velti mér upp úr sjálfsvorkun allavega næstu 6 tímana ;)

Þar til næst, hafið það gott og farið varlega í sælgætisátið :)

mánudagur, nóvember 20, 2006

Let it snow, let it snow, let it snow



Þó maður brosi nú dálítið út í annað vegna snjófrétta að heiman og hversu mjög snjókoma eftir miðjan nóvember virðist koma borgarbörnunum á óvart þá verður að viðurkennast að ég er nú pínu öfundsjúk. Myndirnar úr Skálagerðinu hjá Tótu og Höddu bara snilld og mig langar svo í snjó en ekki þessa endalausu rigningu. Við fengum nú reyndar smá snjó í október (eins og sjá má á myndinni) þannig að ekki má kvarta of mikið en það væri gaman að upplifa almennilegan snjó í Danmörku en Danir hafa það orð á sér að kunna enn minna að bregðast við snjónum en blessuð borgarbörnin og gengur það jafnvel svo langt að strætó keyrir ekki og verslunum er lokað vegna ófærðar. Merkilegt hvað ca. 30 cm. jafnfallinn snjór getur haft mikil áhrif ;)

Er annars að kljást við höfundaréttinn þessa dagana - því meira sem ég les því ruglaðari verð ég - stefnir í gott próf í desember!

laugardagur, nóvember 18, 2006

Margar pælingar í gangi þessa dagana


Afrakstur síðustu daga kominn upp á vegg og ég bara þokkalega sátt, þetta er allavega í áttina að því sem ég var að leita að. Búin að uppfæra myndirnar af íbúðinni minni þar sem má sjá hvernig þetta kemur út í heildina.
Og að allt öðru og alls óskyldu. Er að horfa á mjög átakanlega þátt þar sem foreldrar og aðstandendur bandarískra hermanna sem látist hafa í írak lesa nokkur af síðustu bréfum sem þeim bárust frá sonum sínum og dætrum. Þetta er svo fjarlægt manni og ég þakka fyrir að á Íslandi er ekki her þannig að við þurfum í fæstum tilvikum að ganga í gegnum það sem þetta fólk hefur gengið í gegnum. Í mörgum tilfellum eru þetta bara krakkar, 18, 19 og 20 ára. Þegar maður sér svona þætti skilur maður ekki hvernig er hægt að réttlæta þetta allt saman.

þriðjudagur, nóvember 14, 2006

Ferðalög, ferðalög, ferðalög

Loksins, loksins! Loksins hef ég frá mörgu skemmtilegu að segja og vonandi að einhverjir hafi þolinmæði til að lesa langlokuna á enda. Mikið búið að gerast í Gullulandi þessa dagana, Finnland, Rússland og Kaupmannahöfn heimsótt og svo komu mamma og pabbi í heimsókn til mín til Árósa.

Helsinki og St. Pétursborg:

Þriðjudagur 24. október:
Dagurinn byrjaði á því að ég þurfti að taka lestina á mjög svo ókristilegum tíma til þess að ná flugi upp úr hádegi. Það væri nú í sjálfu sér ekki mjög merkilegt nema fyrir það að tæplega miðja vegu til Kaupmannahafnar koma upp í lestina 3 ungir drengir klyfjaðir pinklum og setjast í sætin hinum megin við ganginn frá mér séð. Að sjálfsögðu voru þar íslendingar á ferð, enda engir aðrir sem geta troðið jafn miklu í töskurnar þegar halda skal heim. Þó það sé ljótt að hlusta á annarra manna samtöl þegar þeir hinir sömu vita ekki að maður er íslendingur þá hef ég ekkert samviskubit yfir því og þótti bara gaman að heyra hvað íslendingum fer á milli þegar þeir halda að það sé enginn nálægt sem skilur þá ;)

Laufey tók að sjálfsögðu á móti mér í Helsinki og eftir að hafa sett nýtt íslandsmet í að skipta um föt, greiða okkur og mála héldum við í þessa fínu laganemamóttöku í lagadeildinni í Háskólanum í Helsinki. Þar voru eðal veitingar í boði og gott hvítvín, hefðu ekki getað tekið á móti mér með betri hætti ;) Hef reyndar alltaf ætlað að koma því á framfæri við lagadeildina hér í Árósum að svona sé gert í Finnlandi og því hafi þeir vinninginn hvað varðar dekur við skiptinemana sína ;) Eftir móttökuna tók við mjög skemmtilegt en sérstakt kvöld sem endaði með kjötfarsborgara og frönskum.

Miðvikudagur 25. október:
Skoðunarferð um Helsinki með Laufey í fararbroddi. Ótrúlega margt að sjá og Helsinki sannarlega borg sem enginn á að láta fram hjá sér fara. Reyndar rosalega kalt þannig að við skoðuðum ekki allt en meðal þess sem kíkt var á var þinghúsið, National Museum (við nenntum reyndar ekki að fara inn þar sem að í gangi var sýning á hnífum og sveðjum og einhverju álíka spennandi), útivistarsvæði Helsinkibúa, Ólympíuleikvangurinn, óperuhúsið, höfnin og voða falleg kirkja sem ég því miður man ekki hvað heitir. Mexikóskur kvöldmatur kom yl í okkur aftur og svo var haldið heim til Laufeyjar í niðurpakk fyrir Rússlandsferðina.

Fimmtudagur 26. október:
Langt rútuferðalag (reyndar ekkert sértaklega langt á Þórshafnarmælikvarða) með tilheyrandi vegabréfsskoðunum og skemmtilegheitum einkenndi daginn en við komumst á leiðarenda fyrir rest og jafnvel fyrr en reiknað hafði verið með. Hótelið okkar var hið ágætasta og kom sér vel að það tók 10 mínútur (án gríns) að labba frá lyftunni að herberginu okkar og samviskubitið yfir því að dröslast ekki í ræktina algerlega óþarft.

Veitingastaðir með enskum matseðli komu mjög sterkir inn þegar haldið var út að borða en þar sem rússar nota kýrillískt letur upplifði ég mig í fyrsta skipti á ævinni sem ólæsa - mjög spes! Bátssigling á Neva ánni um kvöldið var frábær og gaman að sjá hversu mikill metnaður er lagður í að lýsa upp allar fallegu byggingarnar í borginni. Þegar komið var upp á hótel þótti okkur ekki síður áhugavert að sjá allar háklassa gleðikonurnar sitja í lobbyinu og bíða eftir að einhver hefði þær með sér upp. Fliss einkenndi hópinn sem tók lyftuna - án gleðikvennana - enda ekki allir vissir um hvernig bregðast átti við þessu menningarsjokki.

Föstudagur 27.október:
Menningardagur mikill og tók nokkra daga að meðtaka allt sem fyrir augu bar. Við byrjuðum á Hermitage safninu sem er í Vetrarhöllinni. Þar má sjá verk eftir alla helstu meistarana, Da Vinci, Micaelangelo, Rafael, Rembrant, Renoir, Picasso, Matisse, Cézanne, Gauguin og fleiri og fleiri. Ég hefði getað verið þarna í marga marga daga en við urðum að láta 4 tíma duga í þetta skiptið. Þá var brunað (ef hægt er að tala um 25 km á 2 tímum sem brun) í Katrínarhöllina og hún skoðuð í krók og kima, eða svona næstum. Höllin var nær eyðilögð í síðari heimsstyrjöldinni og gaman að sjá hversu vel hefur tekist til við að endurgera hana að því leyti sem það er búið. Til að toppa daginn var svo haldið á balletsýningu - Fountain of Bakhchisarai - í Mariinski leikhúsinu. Gæsahúðin sem gerði vart við sig strax í byrjun hvarf ekki fyrr en eftir að komið var upp á hótel.

Laugardagur 28.október:
City tour á dagskrá í byrjun dags. Kirkjur og minnismerki á meðal þess sem skoðað var, misnákvæmlega þó. Fórum inn í Saint Peter and Saint Paul cathedral þar sem grafir allra keisara og keisaraynja Rússlands er að finna. Skoðuðum að sjálfsögðu hvar Romanov fjölskyldan hvílir en "merkilegasta" gröfin, gröf Dagmarar danaprinsessu, sem færð var til St. Pétursborgar á dögunum var girt af þar sem verið var að leggja lokahönd á verkið og því ekki hægt að skoða hana. Herskipið Aurora var svo næst á dagskrá, þótti það nú bara svona passlega lítið merkilegt miðað við allt annað sem við vorum búnar að skoða. Skoðunarferðinni lauk svo með Savior on the Spilled Blood Church sem er ótrúlega falleg kirkja sem reist var í minningu Alexanders II Rússlandskeisara, akkúrat á þeim stað þar sem hann var myrtur. Mósaíkmyndirnar í kirkjunni er hreint út sagt stórkostlegar og að mínu mati eitthvað það allra fallegasta lsem við skoðuðum í ferðinni.

Eftir Skoðunarferðina var haldið á minjagripamarkaðinn þar sem Laufey fór hreinlega á kostum í prúttinu og þolinmæðinni þar sem Guðlaugu gekk ekki allt of vel að finna Matryoshku (við köllum þær nú reyndar babúskur í minni sveit) sem hæfði heimili hennar og voru margir hringir labbaðir um markaðinn í leitinni þar til sú rétta fannst. Prófuðum rússneskt kaffihús og létum ekki okkar eftir liggja í að prófa eitthvað rússneskt af matseðlinum.

Um kvöldið var haldið í rússneskan kvöldverð á veitingahúsinu Red Matryoshka. Mjög góð súpa í forrétt og svo kjöt í brúnni sósu og kartöflustappa í aðalrétt, öllu skolað niður að rússneskum sið - þ.e.a.s. með vodka. Lét nú reyndar ekki hafa mig út í svoleiðis vitleysu, enda ekkert fyrir þessar fylleríssamkomur og áfenga drykki ;) Við Laufey héldum okkur því bara við bjórinn. "Live" rússnesk þjóðlagatónlist vakti mikla lukku og endaði með því að við stöllur keyptum eitthvað voða fínt hljóðfæri sem ég hef ekki hugmynd um hvað heitir en gefur frá sér mjög svo góðan hávaða.

Metro Nightclub var næsta stopp og mjög sérstök upplifun. Þessi líka fíni næturklúbbur á 3 hæðum, á fyrstu er Rússnesk danstónlist, á annarri er karókí og hip hop og á þriðju er eins og lítill bíósalur til að horfa á klámmyndir og svo dansgólf þar sem olíubornir karlmenn á g-streng dansa uppi á svölum! Aldurstakmarkið inn er 15 eða 16 ára þannig að þetta líktist helst skólaballi og hækkuðum við meðalaldurinn all svakalega. Mér fannst reyndar kostur að barirnir voru ekki á miðju dansgólfinu heldur aðeins fyrir utan þannig að fólk gat setið og kjaftað, þ.e.a.s. ef maður fattaði reglurnar um að maður þarf að bíða eftir borði þangað til röðin kemur að manni - sæi það í anda heima á Íslandi ;) Fólk var heldur ekkert að reykja eða að drekka á dansgólfinu sem aftur leiddi til þess að hægt var að dansa en ekki tipla á glerbrotum og fötin komu öll heil heim. Þetta var mjög svo áhugaverð þjóðfélagsrýni en ekki skemmtilegasti staður sem ég hef komið á. Unofficial taxi tekinn heim á mjög svo skikkanlegum tíma og þá kom sér vel að hafa Laufeyju í samningaviðræðunum um verð.

Sunnudagur 29. október:
Komið að því að halda heim á leið. Við stoppuðum við Mannerheim línuna við þorpið Summa og skoðuðum byrgi frá því Rússar og Finnar áttu í stríði um landamærin milli landana. Stríðið varð Rússum til mikillar skammar sökum mannfalls en lyktaði engu að síður með því að landamæri landanna eru nú 200 km frá St. Pétursborg en voru áður um 50 km frá.

Súpermarkaðsstopp til vodkakaupa fyrir áhugasama var svo það síðasta sem gert var áður en haldið var aftur yfir landamærin.

Mánudagur 30. október:
Einkenndist af rólegheitum og smá lærdómi (ekki of miklum þó). Við kíktum aðeins í bæinn í nokkrar búðir en ekkert keypt (mjög léleg afköst). Laufey töfraði svo fram dýrindis kjúklingapastarétt sem voru gerð góð skil ásamt góða hvítvíninu. Jóhanna, tutorinn hennar Laufeyjar, stóð svo fyrir Sex and the City maraþoni ásamt Cosmopolitan um kvöldið.

Þetta var alveg frábær ferð og ég er svo ánægð með að mér hafi boðist að fara með. Takk Laufey fyrir frábæra viku - Mi casa es tu casa ef þig langar einhvern tíman að koma til Árósa :)

Kaupmannahöfn og Árósar

Það kom að því að settið brygði undir sig betri fætinum og kæmi að heimsækja frumburðinn í Danmörku. Að sjálfsögðu skall á óveður og máttu þessar elskur bíða í 12 tíma á Keflavíkurflugvelli og millilenda í Glasgow áður en þau komust til Köben. Ég nýtti daginn hins vegar í að fara á Strikið - það verður nú einhver að sjá til þess að búðirnar fari ekki á hausinn! Ótrúlega gott að sjá þau loksins og áttum við alveg frábæra viku sem verður vonandi endurtekin í vor.

Pabbi varð fimmtugur mánudaginn 6. nóvember og fórum við með hann í mini skoðunarferð um borgina, hádegismatur á Nýhöfn, Amalienborg, St. Alban's Church og Litla hafmeyjan meðal þess sem við sáum. Fórum svo í glæsikvöldverð á Kong Hans Kælder og fengum þar einhvern þann allra besta mat sem ég hef fengið á veitingahúsi um ævina. Staðurinn hefur 1 Michelin stjörnu og vel að henni kominn.

Héldum heim til Árósa á þriðjudeginum, eftir smá stopp í nokkrum búðum ;) Tókum því svo bara rólega um kvöldið enda allir frekar ferðaþreyttir.

Latínuhverfið kom sterkt inn í bæjarskoðunarferðinni, enda einstaklega skemmtilegt hverfi. Við röltum mikið um bæinn án þess að vera með niðurnjörfaða dagskrá. Fengum steik á Hereford á föstudagskvöldið sem var alveg dásamlega góð og góð tilbreyting frá kjúklingnum ;) Kíktum svo á írska pöbbinn, Tir Na Nóg, en þar var lifandi tónlist og mikil stemning.

Heimsóttum Den gamle by á laugardeginum. Hafði ekki gert mér í hugarlund að það væri svona gaman að koma þangað. Ótrúlega mikið af gömlum fallegum húsum og sýningar inni í þeim sem sýna gamla tíma og flestar ótrúlega flottar. Búið var að koma upp jólaskreytingum, þ.e. setja upp jólatré í mörg húsin og skreyta húsin að innan. Eitt húsana er nýtt í almennar sýningar og var þar m.a. hægt að sjá sýningu á skýrnarkjólum frá um 1700 og til 2006, sýningu um jól í manna minnum og sýningu á gömlum jóladagatölum. Vakti upp mikla nostalgíu hjá mömmu og pabba að sjá þetta allt saman - ég mundi reyndar ekki eftir miklu enda svo mikill unglingur ennþá ;)

Settið fór svo heim á sunnudaginn, komst með flugi alla leið til KEF án teljandi vandræða og sitja núna veðurtept í Reykjavík - já það er sko ekki tekið út með sældinni að eiga börn í Danmörkinni!

Nú er svo komið að því að opna þarf bækurnar og hefja undirbúning fyrir próf - til að koma í veg fyrir of mikinn lestur þá keypti ég striga og málningu og er byrjuð að mála! Var mjög skrýtið fyrst enda ekki tekið upp pensil síðan í VMA en var nokkuð fljót að komast í gang. Vonandi að útkoman verði upphengjanleg ;)

Jóhann Hafberg og Anna María eru búin að bóka ferð út um áramótin. Hlakka ekkert smá til að sjá þau :) Við Áróra erum að plana "munaðarleysingjajól" en það verður voðalega notalegt að fá þau Jóhann og Önnu Maríu til að fagna áramótunum með okkur. Við Jóhann ætlum svo yfir til Svíþjóðar til Jóhanns og Önnu eftir áramótin, aðeins að fá að knúsa þau og spilla börnunum :)

Held ég láti þetta gott heita í bili, tekur allavega viku að komast í gegnum lesturinn ;) Búin að setja inn myndir frá Helsinki og Pétursborg, set rest inn á næstu dögum.

Hasta la próxima!

sunnudagur, október 22, 2006

Draumar og annað skemmtilegt


Hafiði séð eitthvað jafn krúttlegt. Svona voru þeir nú einu sinni sætir og stilltir þeir Jóhann Þór, Pétur og pabbi minn :) 

Af mér er lítið að frétta, hef verið í lærdómi alla vikuna, að vinna upp það sem ekki hefur verið lesið í vetur og tryggja næstu viku þegar ég verð í Finnlandi og Rússlandi :) Hef því átt mjög rólega daga en í staðinn haft mikið að gera við það að dreyma alls kyns rugl og vitleysu á næturnar. Hef vaknað svo dauðþreytt síðustu 4 daga þar sem það er svo mikið að gera hjá mér í draumunum!! Reyndar ekki jafn slæmt og þegar ég var í Zöruævintýrinu og var oft búin að taka utan af sænginni minni og brjóta saman þegar ég vaknaði eða jafnvel búin að skipta um náttföt, enda veit það hver heilvita maður að maður lætur nú ekki standa sig að því að vera í sömu náttfötunum kvölds og morgna ;)

Áhugavert samt, að þó ekki hafi verið mikið vit í öllum þessum draumum mínum þá dreymdi mig að ég væri komin aftur heim á Þórshöfn í nótt. Veit ekki hvort það er af því að ég hef ekki komið heim í svo alltof langan tíma (4 dagar um síðustu jól teljast varla með) en allavega þá labbaði ég um allt þorpið mitt og heilsaði öllum sem á vegi mínum urðu, bara eins og í gamla daga. Þurfti svo að tékka á því hvort það væri ekki allt eins og það á að vera, öll hús á sínum stað, fótbolti útá velli, unglingarnir í sjoppunni og sjómennirnir niðri á bryggju. Vaknaði í einhverju nostalgíukasti og sé dýrðina og dásemdina alveg í rósrauðum bjarma ;)

Flug til Finnlands á þriðjudaginn og svo Rússland á fimmtudaginn. Með Laufey sem leiðsögumann í Helsinki getur þetta bara ekki klikkað. Laganemamóttaka og Sauna komið á dagskrána en svo á að "play it by the ear" - finnst það svo miklu meira spennandi en að hafa niðurnjörfaða dagskrá allan tíman :) Er að farast úr spenningi akkúrat núna.

Mamma og pabbi koma svo eftir 2 vikur og ekki seinna vænna en að fara að plana allt sem þau verða að sjá í fyrstu ferð, eins gott að þau láti sjá sig oftar en einu sinni á einu ári!



mánudagur, október 16, 2006

Sorry for the later, I lost the street

Klárlega setning helgarinnar, sögð með sterkum ítölskum hreim og tilheyrandi handahreyfingum ;) Fíflagangur mikill einkenndi helgina og var hún vægast sagt hreinasta snilld.

Fyrir þá sem vilja fá formlega ferðasögu þá hefst nú lesturinn:
Eftir að hafa farið í rúmfatalagerinn eldsnemma á föstudagsmorgni í svefnpokaleiðangur og svo í tíma þar á eftir, var skundað niður á Hovedbanegård og lestin tekin til Álaborgar. Karolina tók á móti mér á lestarstöðinni og eftir að hafa labbað alla 100 metrana heim til hennar var boðið upp á dýrindis lasagne, reyndar svolítið útlitsgallað en við dæmum náttúrulega ekki eftir útlitinu. Fórum svo "to the street" eða á "götuna" eins og það er kallað í Álaborg, en það er gaman að segja frá því að þar er heil gata með diskótekum og börum allt á sama staðnum og mikil stemning um helgar. Hittum þar fullt af Ítölum og fleiri kreisí útlendingum, þræddum nokkra staði og dönsuðum þangað til kl. 6 um morguninn. Þetta var hin besta skemmtun, liðið svona nett kærulaust og skemmtilegt, mikið hlegið og mikið tekið af myndum eins og vera ber.

Vöknuðum svo um kl. 10 á laugardagsmorgun og drifum okkur út að skoða bæinn, ekki hægt að fara til Álaborgar heila helgi og segjast bara hafa séð "götuna"! Við löbbuðum útá höfn og fórum svo á "götuna" að fá okkur hádegismat. Fannst það dálítið vandræðalegt að að allt í kringum okkur sátu danir sem voru vel í því kl. 3 á laugardagseftirmiðdegi og við voða rólegar og dannaðar eins og alltaf ;)

"Leggjan" var svo mjög velkomin rétt fyrir kvöldmat og sváfum við í allavega 2 tíma áður en Karolina töfraði fram þennan dýrðlega pólska pastarétt (já, það var eins og ég væri drottning miðað við hversu mjög var stjanað við mig).  Eftir matinn héldum við svo í partý á Luna Kollegiet með alþjóðlegu félagi vitleysinga ;) Þar voru leiknir drykkjuleikir af miklum móð og sungnar drykkjuvísur þegar leið á kvöldið ;) Fórum svo á "götuna" aftur, eftir langa leið frá kollegi-inu. Svolítið erfitt þegar three amigos fá að ráða ferðinni, stökkva yfir grindverk til að prófa rólur og rennibrautir, klifra upp um allt, faðma ljósastaura og syngja drykkjuvísur ;) Já, það var stemning! Allavega þá fundum við "the street" á endanum og líkt og á föstudagskvöldið var dansað fram undir morgun.

Sunnudagurinn byrjaði rólega en endaði svo á "Chinese Dinner" sem 2 kínverjar sem eru með Karolinu í hóp í skólanum stóðu fyrir. Þvílíkt flottur matur, súpa í forrétt og svo 4 aðalréttir sem voru geðveikt góðir þrátt fyrir að koma svolítið spánskt (jafnvel kínverskt) fyrir sjónir í fyrstu. Þau útskýrðu fyrir okkur þá hefð í Kína að gestgjafinn skálar við hvern og einn við borðið og þeir drekka saman (ef maður drekkur ekki þá er það móðgun við gestgjafann) og svo er góður siður fyrir hvern og einn gest að "drekka tilbaka" með gestgjafanum, þ.e. þakka fyrir sig og skála fyrir lífinu ;) Fórum svo að sjálfsögðu niður í "afþreyingarherbergið" og spiluðum borðtennis enda ekki annað hægt þegar gestgjafarnir eru kínverjar. "Fussball" borðið vakti líka mikla lukku þrátt fyrir að keppnisskapið hafi gripið um sig eins og við má búast þegar "fótbolti" er annars vegar.  Var svona stemning eins og á opnu húsi í gamla daga í Grunnskólanum á Þórshöfn, held meira að segja að ég hafi ekki spilað borðtennis síðan þá en hef greinilega engu gleymt og fór hreinlega á kostum í hælaskónum og pilsinu ;)

Kom svo tilbaka í morgun, þreytt en ánægð með frábæra helgi. Í næstu viku er það svo Finnlandsför og ég get hreinlega ekki beðið. Verður bara gaman að hitta Laufeyju mína og sjá hvernig hún hefur það í Finnlandinu, svo ekki sé talað um Rússlandsferðina sem við erum búnar að hlakka til að fara í síðan skólinn byrjaði.

Jæja, bækurnar lesa sig víst ekki sjálfar! Fyrir þá sem eru ekki löngu búnir að gefast upp á að lesa þá setti ég inn nýjar myndir undir Álaborg :)

fimmtudagur, október 12, 2006

Ferðalög

Helgin átti að vera svo róleg, lærdómsmaraþon mikið á dagskrá enda prófdagsetningarnar komnar og það sem enn betra er prófspurningarnar að hluta komnar í hús. Sýnist allt stefna í jólafrí frá 18. desember og svo eitt próf í byrjun eða lok janúar. Voðalega "hyggeligt" allt saman. En aftur að helginni ... Allt í einu og á ca. korteri er búið að plana ferð til Álaborgar í heimsókn til Karolinu sem var með mér á dönskunámskeiðinu í ágúst. Þarf því að drífa í niðurpakki, kaupa svefnpoka og læra að það þarf ekki allt að vera niðurneglt með löngum fyrirvara ;)

Svo er alveg að líða að Finnlandsför og er spennan vægast sagt orðin gríðarleg. Það er eitthvað svo skemmtilegt við það að fara til landa sem maður hefur aldrei komið til áður, allt eitthvað svo ferskt og spennandi. Sýnist líka á blogginu hennar Laufeyjar að Finnarnir kunni sko alveg að skemmta sér ;)

Mamma og pabbi eru svo á leiðinni í byrjun nóvember og ætla að vera í viku. Það verður svo gott að fá þau og það er svo margt sem mig langar að sýna þeim, er ekki viss um að vika sé nóg fyrir þetta allt saman en þá er bara kominn góð hugmynd að vorfríi ;)

Stefnir allt í frábæra skemmtun næstu vikurnar og þá loksins hef ég kanski frá einhverju skemmtilegu að segja .... Hasta luego ;)

sunnudagur, október 08, 2006

Nýjar myndir

Var að setja inn nýjar myndir í septemberalbúmið og bætti líka við nokkrum undir ágúst 2006 en ég fékk svo skemmtilegar myndir hjá Áróru sem ég mátti til með að deila með ykkur fáu sem leggið það á ykkur að fylgjast með hvað er að gerast í Gullulandi ;)

Eins og sjá má af síðustu færslu var ég komin mjög seint/snemma heim í nótt/morgun ;) Var svona nett frosin þegar ég kom heim og nokkuð víst að næst fer ég heim í næturstrætó en ekki fyrsta strætó á sunnudagsmorgni. Hér loka síðustu staðirnir kl. 6 á morgnanna og það er nú svo merkilegt með Danina að hálftíma fyrir lokun hringja þeir bjöllu til merkis um að síðustu drykkirnir skuli nú pantaðir og svo slökkva þeir á tónlistinni!!!! Það er náttúrulega bara argasti dónaskapur!! Af hverju ekki bara að hafa opið til kl. 5.30 ... þegar ég fer að stjórna í Danmörku ... þá breyti ég m.a. þessu! Það er svo efni í nýtt blogg hversu "klárir" Danirnir eru í bisness og almennri stjórnsýslu ;)

En af gærkvöldinu er það að segja að við hittumst nokkur í heima hjá mér áður en við kíktum í bæinn. Að sjálfsögðu fengu allir Ópalskot við misjafnar undirtektir (Christjan þótti það vægast sagt viðbjóður). Fórum svo í troðfullum strætó niðrí bæ - virðist sem allir skiptinemar bæjarins hafi ákveðið að taka sama strætó og við - það er náttúrulega ekki venjulegt hvað við erum vinsæl ;) Svo var bara tekinn góður rúntur á hina ýmsu staði, mikið dansað, mikið kjaftað og mikið blikkað, pizza og svo strætó heim eld snemma því að sjálfsögðu var ekki stemning fyrir því að taka síðasta næturstrætó heim kl. 3.

... Að djamma, fram á nótt...

Þegar það er betri hugmynd að bíða í 50 mínútur eftir fyrsta strætó úr bænum á sunnudagsmorgni heldur en að standa í leigubílaröðinni, er kominn tími fyrir gamlar konur að endurskoða þessar bæjarferðir! Guði sé lof fyrir flíspeysur og lopasokka ...

miðvikudagur, október 04, 2006

Allt að gerast

Matarboð hjá mér í gærkvöldi. Hittumst stelpurnar úr dönskubekknum mínum og borðuðum saman og svo fór hluti á Studenterhus á International Night. Gaman að sjá að í svona ólíkum hópi þá hafa samt allir eitthvað til málanna að leggja og allir hafa frá einhverju áhugaverðu að segja. Verð að viðurkenna að þetta var betra en ég átti von á.

Studenterhus var bara eins og venjulega - fullt af útlendingum ;) En það var mjög fínt og gott að komast út og kjafta við annað fólk en maður gerir venjulega.

Stefnir allt í partý hjá mér um næstu helgi. Mikið plan í gangi og gaman að sjá hvort það gengur eftir ;)

Líka gaman að segja frá því að ég er búin að panta mér flug til Finnlands í lok október. Ætla að fara að heimsækja Laufey í Helsinki og svo ætlum við að fara í 4 daga ferð til Pétursborgar. Laufey greyið fær að sjá um allar reddingar í sambandi við ferðaplön og vegabréfsáritun. Þetta er því farið að virðast raunverulegt sem er eins gott því ég get ekki beðið - það er líka svo fullt af afþreyingu í boði í ferðinni að maður verður eiginlega hálf ruglaður af því að velja á milli.

mánudagur, október 02, 2006

Einbeitningarskortur.is

Búin að ná að lesa 15 blaðsíður í allan dag! Einbeitningin bara ekki til staðar en miklar aðrar pælingar í gangi ;) Arg... sumir dagar eru bara ekki mínir dagar.

Matarboð hjá mér annaðkvöld. Stelpurnar sem voru með mér í bekk á tungumálanámskeiðinu ætla að koma í International Dinner - Það ætti að verða áhugavert.

laugardagur, september 30, 2006

Maður spyr sig

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í gær mann í 4 mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir líkamsárás á heimili fyrrum sambúðarkonu sinnar. Mun maðurinn hafa slegið hana hnefahögg í höfuð og líkama svo að hún féll í gólfið og misþyrmt henni með öðrum hætti með þeim afleiðingum að hún fékk kúlu á hnakka, mar á bak við hægra eyra og bólgnaði á eyranu, bólgnaði og marðist í andliti, marðist yfir rifjum vinstra megin og á báðum handleggjum.

Þetta vakti athygli mína við lestur dómsins:
„Þegar [A] var kynntur framburður ákærða um sömu atburði sagði hún einfaldlega að hann væri í stöðugri afneitun og þætti henni verst að hann skyldi ekki sýna meiri iðrun. Þau hefðu engu síður tekið upp sambúð að nýju í apríl síðastliðnum, í kjölfar áfengismeðferðar ákærða og hefði hann ekki bragðað vín síðan. Sambúðin gengi vel, en því miður hefði aldrei mátt ræða umrædda atburði eða annað ofbeldi, sem hann hefði beitt hana í fyrri sambúð. [A] taldi dvöl sína í Kvennaathvarfinu þó hafa orðið til þess að ákærði gæti ekki eytt öllum staðreyndum strax, kennt henni um hvernig farið hefði og allt farið í fyrra horf í samskiptum þeirra. Í framhaldi var [A] spurð um afstöðu sína til refsingar á hendur ákærða og kvaðst hún ekki vilja að hann hlyti fangelsisdóm, heldur aðeins að hann gerði sér grein fyrir því hvert stendi ef hann héldi svona áfram. Þá kvaðst hún ekki vilja fá dæmdar bætur úr hendi ákærða.“

Get ekki annað en velt því fyrir mér hvort öll umræðan um heimilisofbeldi og væntanleg breyting á hegningarlögunum komi til með að skila einhverju. Hversu lengi ætla konur að trúa því að menn sem hafa gengið í skrokk á þeim í fjölda skipta séu allt í einu breyttir og ekki til í þeim ofbeldi. Mögulega er það hægt en ég væri ekki til í að taka sénsinn!

Annað sem ég velti fyrir mér er hvort höfðun dómsmáls sé allt í einu orðin leið til þess að kenna mönnum lexíu. Maður spyr sig.

mánudagur, september 25, 2006

Í sól og sumaryl

Hef komist að því að geggjað veður og lærdómur getur vel farið saman :) Fór með Áróru og Ásgeiri Karli á ströndina í gær, þar lágum við eins og fínar frúr með öl í annarri og bókina í hinni á meðan Ásgeir tíndi steina og veiddi marglyttur - við vorum hins vegar ekki alveg jafn spenntar fyrir marglyttunum eins og gefur að skilja ;)

Sat svo í dag á svölunum heima hjá mér og las í blankalogni og um 30 stiga hita (í sól þ.e.a.s.). Gamla meira að segja komin með smá lit og marglyttan sést ekki - allavega ekki í bráð! Fór svo að hitta Áróru og Ásgeir þar sem Áróra fór að sækja bílinn sinn í Norrænu og ég átti alveg 30 kg. tösku í þeim eðalvagni. Ótrúlegt hvað hægt er að koma miklu dóti fyrir í einum bíl og vorum við alveg að tapa okkur í upppakkelsi (nýtt orð!) og fagnaðarlátum yfir því hvað leyndist í töskunum (maður getur nú ekki alveg munað hverju maður pakkaði niður fyrir 2 mánuðum síðan).

Setti inn myndir undir september 2006 - reyndar ekki margar en eitthvað er betra en ekkert ;) Fer vonandi að bæta úr því en ferðaplön eru í fullum gangi. Álaborg, Skövde, Helsinki, Pétursborg, Skagen og Kaupmannahöfn eru efst á blaði. Miklar spegúleringar eru í gangi hvort ég lifi af kuldann í Montréal í janúar en á bara eftir að skoða hvort fjármagn sé til fyrir slíkri ferð. Langar svo að heimsækja Gaby mína og Luis og að sjá litla Luka sem ég hef bara aldrei hitt en þar sem ég hef gerst sjálfskipuð "tia" þá fylgja því ákveðnar skyldur sem flestar fela það í sér að ofdekra molann :) Afleggjari af peningatré óskast, þarf að vera í góðu standi og gefa vel af sér ;)


laugardagur, september 23, 2006

Merkilegt nokk

Fer að líða að því að ég hafi verið hérna í Danmörkinni í 2 mánuði en mér finnst eins og ég hafi alltaf verið hérna og langar ekkert að fara aftur heim til Íslands. Væri svo til í að taka restina af mastersnáminu mínu hérna úti en verð þó að viðurkenna að kúrsarnir sem kenndir eru í HÍ eru meira við mitt hæfi þó það séu líka fínir kúrsar hérna og kennslan er mun betri hér en í lagadeildinni heima (með of fáum undantekningum). Það eru því miklar pælingar í gangi þessa dagana um hvað ég ætli mér eiginlega að gera við lífið. 

Gamall draumur um að gerast sjálfboðaliði í Mið-Ameríku eða Afríku hefur líka verið að láta á sér kræla en vonandi að ég nái að halda honum í skefjum þangað til ég á peninga til þess að láta slag standa - þetta er ekki lengur spurning um hvort heldur hvenær.

Lífið gengur sinn vanagang og allt að komast í rútínu sem gæti þótt frekar leiðinleg en mér finnst ágæt. Kúrsarnir mínir eins og áður sagði frábærir, þó merkilegt að kúrsinn sem ég var spenntust fyrir - The UN Human Rights System - olli smá vonbrigðum á meðan International Copyright er að koma mjög sterkur inn og gott betur en það. Børne- og ungdomsret er svo þarna mitt á milli og væri mun skemmtilegri ef ég gæti tekið meiri þátt í tímum. Það er bara ekki alveg mín sterkasta hlið að tala dönskuna, sem mér finnst ég ekki nógu góð í, fyrir framan 30 dani. Þó mér fari fram í hverri viku þá fer það óendanlega í taugarnar á mér að ég skuli ekki geta talað fullkomlega - einn þolinmæðisskammtur óskast sendur með DHL sem fyrst!

Annars er gaman að segja frá því að við Áróra erum byrjaðar í ræktinni af fullum krafti. Fitness DK niðrí miðbæ varð fyrir valinu og er aðstaðan þar öll eins og hún gerist best og vonandi að það skili sér í kílóatapi sem er orðið mjög nauðsynlegt eftir lifnaðarhætti síðustu 2 mánaða ;)

Jæja, ekki hægt að vera alltaf að slæpast, børne- og ungdomsret bíður mín í sólinni á svölunum. 
Vil minna á að það er enn yfir 20 gráðu hiti hér í Danmörku og stefnir allt í að það haldist næstu daga. Marglyttusyndrómið er á undanhaldi og vonandi að það komi aldrei aftur!

þriðjudagur, september 19, 2006

ARG

Er stundum á því að það hljóti að vera einhver þarna úti sem er svakalega illa við mig! Ég er sem sagt búin að vera að klára vegabréfsáritunarumsóknina mína til Rússlands þannig að mér verði nú hleypt inn í landið í lok október. Fannst það rosalega sniðugt að fylla umsóknina út í Acrobat Reader  og prenta hana svo út og þá væri bara eftir fyrir mig að kvitta.... Mjög góð hugmynd nema hvað að þegar ég er komin með prentarann, búin að tengja hann rétt (ég veit nefnilega hvar leiðslurnar eiga að vera!) og komin í stellingar til að prenta skjalið út - þá kviknar ekki á helv... prentaranum!!! Ég gæti öskrað en er að hugsa um að sleppa því vegna þeirrar nýju stefnu að vera yfirleitt til stakrar prýði og fyrirmyndar.  Og til þess að toppa þetta allt saman þá er byrjað að rigna aftur!

Annars hefur stemningin verið góð og hún kemur til með að haldast góð um leið og mér tekst að laga prentarann sem mér skal takast að sjálfsögðu.

Glóan mín á afmæli í dag, er orðin 22 ára skvísan. Til hamingju með daginn engillinn minn. Te quiero mucho.

laugardagur, september 16, 2006

Settið á leiðinni í bæinn

 Reyndar ekki fyrr en í nóvember en það verður að fara í að finna handa þeim hótel í Kaupmannahöfn því þar ætlum við að vera fjóra fyrstu dagana eftir að þau koma. Er búin að vera að skoða og skoða hótel og það er víst óhætt að segja að það sé af nógu að taka. Ég var á mjög fínu gistiheimili þegar ég var í Köben í fyrra þannig að ég veit ekkert um hótelin þarna - ef einhver er vel að sér í hótelgæðum í Kaupmannahöfn þá er sá hinn sami vinsamlega beðinn um að láta mig vita ... med det samme ;)

Allt gott að frétta eins og alltaf. Fór út að borða með Binna, Lindu og Hrannari í gær á Ítalíu og var það að sjálfsögðu rosalega gott. Ekki síðri Ítalía hér heldur en heima ;) Svo kíktum við aðeins á Fatter Eskil en ég var nú samt bara komin snemma heim enda mikill lærdómur bókaður um helgina. 

Allavega, bækurnar lesa sig víst ekki sjálfar en ef þið þekkjið eitthvað til í Köben þá endilega látið mig vita (við erum ekki að leita að dýrustu hótelunum, bara eitthvað fínt og vel staðsett og þá erum við glöð).


lærdómur!

 

Your Toes Should Be Pink

You love to dress girly and work your feminine charms, with a bit of an edge.

Your ideal guy: Is confident enough to get any girl he wants

Stay away from: Jerks who only see you as eye candy


Já, ég á að vera að lesa en maður getur ekki alltaf verið fullkominn ;) Er reyndar með bleikt naglalakk á tánöglunum....

fimmtudagur, september 14, 2006

Sól, sól, skín á mig


Loksins, loksins fór ég á ströndina :) Veðrið síðustu daga búið að vera yndislegt (vá, gott að blogga um veðrið!) og ég nýtti mér það sko í dag og las í sólbaði niðri á strönd. Lífið gæti bara ekki verið betra.

Annars er lítið að frétta. Önnur vikan í skólanum að klárast og ég einhvern vegin ekki að standa mig. Hef svo sem lesið, bara aðeins of lítið en stefnan er tekin á maraþonlærdóm um helgina og jafnvel ekkert djamm - en það er nú samt ekki alveg víst ;)  Binni hennar Svönu er búinn að vera í bænum í nokkra daga og bara skemmtilegt að hitta hann. Vonandi að fleiri taki sér hann til fyrirmyndar og skelli sér til Árósa ;)

Svo fjölgaði í nánasta lögfræðihópnum fyrir stuttu. Jóna og Steini eignuðust lítinn prins þann 10. 
september. Mig langar svo að koma heim og kíkja á hnoðrann sem er náttúrulega 
þvílíkt sætur :) 

Setti inn heilar þrjár nýjar myndir undir ágúst 2006, síðan við kvöddum Lydiu en  ég hef einhvernveginn ekki tekið mikið af myndum undanfarið - reyni að bæta úr því við tækifæri :)

föstudagur, september 08, 2006

Det var ikke så svært

Búin að vera með í maganum í marga marga daga út af þessum eina danska kúrsi sem ég asnaðist til að taka... fór í fyrsta tímann í dag og þetta var bara mun léttara en ég átti von á! Ég skildi náttúrulega ekki allt en það gerir ekkert til því ég náði samhenginu og gat meira að segja glósað ágætlega. Þá er bara að fara að drífa sig í að ná að tala dönskuna betur svo ég falli nú ekki á því í prófinu ;)

Annars líst mér bara nokkuð vel á þetta allt saman, fínir kennarar og mjög áhugaverðir kúrsar. Stóð í rúma 2 tíma við ljósritunarvélina í lagadeildinni í gær við mikinn fögnuð samnemenda minna en þeir urðu bara að sætta sig við biðina því kreppan þurfti að ljósrita 600 bls ;)

Er annars komin með nýtt símanúmer +45 28 71 33 34 ef ske kynni að einhverjir þyrftu að ná á mér :)

Jæja, íbúðin þrífur sig víst ekki sjálf (merkilegt að það skuli ekki vera hægt í Danmörku) og hún er vægast sagt ekki smekkleg akkúrat núna ;)

miðvikudagur, september 06, 2006

Áfram Ísland!

Ísland - Danmörk á eftir og mun hugarorkan verða nýtt til hins ýtrasta svo möguleikar á hagstæðum úrslitum stóraukist. Svo að sjálfsögðu kem ég til með að leiðbeina drengjunum í gegnum sjónvarpið eins og alltaf og vonandi að þeir taki nú einu sinni mark á mér ;) Væri nú mjög gaman að vinna Danina svona eins og einu sinni en það þýðir víst ekki að vera með frekju svo ég sætti mig við jafntefli ;)

Fór í fyrsta tímann í morgun - The UN Human Rights System - og þar kom leikurinn m.a. við sögu. Ég gaf það að sjálfsögðu frá mér að það kæmi ekkert annað til greina en sigur enda við með stórstjörnuna Gudjonsen innanborðs. Held að kennarinn minn hafi ekki verið alveg sammála mér um yfirburði íslenska liðsins og jafnvel spurning um að fara að útvega sér hauspoka ef ævintýrið skyldi enda illa.

Annars er bara brjálað að gera eins og alltaf. Århus Festuge í gangi en það er rúm vika af alls konar tónleikum og listviðburðum og mikil stemning. Fór á kvennasafnið á laugardaginn sem var mjög skemmtilegt og svo lentum við á mjög góðum tónleikum á sunnudagskvöldið en ég hef ekki hugmynd um hvaða hljómsveit var að spila sem er dálítið vandræðalegt.

Við Áróra settum íslandsmet í myndarskap í fyrradag! Eftir rölt í bænum settum við nefnilega í húsmóðurgírinn (já hann er til) og elduðum dýrindis kvöldmat, földuðum gardínur, styttum buxur, boruðum í veggi og bökuðum smákökur með smá hjálp frá Betty stórvinkonu okkar ;) Dugnaðurinn var þvílíkur að annað eins hefur bara ekki sést í hinum vestræna heimi og þó víðar væri leitað ;)

Keypti mér nýjan síma í gær, hann er bleikur og með blómi, mér finnst hann flottastur.

Læt þetta gott heita í bili - borgar sig að fara að kíkja í bækurnar :)

P.s. Lumar einhver á bókinni World Copyright Law eftir J.A.L. Sterling uppi í hillu hjá sér?? Gullbókin er á lesefnislista annarinnar og kostar ekki nema rétt 3000 kr. danskar sem þykir gjafprís (hver er ekki tilbúinn til að borga rúmar 35.000 fyrir eina bók) en ekki á færi þessa fátæka námsmanns. Ljósritunarkort komið á tossalistann fyrir morgundaginn!

fimmtudagur, ágúst 31, 2006

Bara varð...

að deila því með ykkur að ég á núna nýtt uppáhaldslag þökk sé Stínu minni á Dalvíkinni. Lagið góða heitir Ojala pudiera borrarte og er með Maná sem hefur verið ein af mínum uppáhaldshljómsveitum síðan ég var í Guatemala. Þeir eru nákvæmlega jafn góðir og fyrir 10 árum síðan! Spurning um að kaupa diskinn ...

Home Sweet Home

Komin heim aftur eftir velheppnaða íslandsferð sem jafnvel hefði mátt vera einum degi lengri en það þýðir víst ekkert að vera vitur eftirá.

Ætla ekki að fara að skrifa langa ferðasögu en hér kemur svona það helsta sem ég gerði á 4 dögum í Reykjavíkinni fyrir sunnan.

Fékk þær skemmtilegu fréttir þegar ég var nýlent í KEF að það væri skírn hjá Jóhanni og Önnu og dreif ég mig að sjálfsögðu þangað þegar ég komst loksins til Reykjavíkur en 45 mínútna bið í flugrútunni eftir því að lagt væri að stað frá Keflavík var ekki að gera góða hluti. Komst að lokum í veisluna og fékk að knúsa þessi yndislegu frændsystkini mín aðeins. Er strax farin að hlakka til að fara yfir til Svíþjóðar til að knúsa þau aðeins meira :)

Fór í kveðjupartý til Laufeyjar á laugardagskvöldið en hún heldur til Finnlands í skiptinám á föstudaginn. Það verður nú ekki leiðinlegt fyrir frúna að vera í faðmi Finna í eitt ár. Helsinki er að sjálfsögðu komin á listann yfir borgir sem heimsækja verður á næstunni, ekki verra að vera með boð um svefnpokapláss á júróvisjón næsta vor en fyrir þann tíma er planlagt að halda til Pétursborgar í Rússlandi, frá Finnlandi - ég verð orðin altalandi á finnsku miðað við hversu oft ég ætla að fara þangað ;)

Endaði svo laugardagskvöldið með Völlu minni á rúntinum niður laugarveginn og af gömlum vana tókum við einn hring á Hressó.

Svaf svo mikið mikið á sunnudaginn enda ekki annað í boði þegar maður er búinn að vaka í rúmlega sólarhring. Dömurnar efndu svo til mikils kökuboðs í Skálagerðinu hjá Tótu og var sú ákvörðun tekin þar að fara í dömuferð til Barcelona næsta haust. Get því haldið áfram að hlakka til ferðalaga þó ég verði komin heim og svo er að sjálfsögðu pressa á dömurnar að kíkja í dömuferð til Árósa - því fyrr því betra!

Settið kom svo á sunnudagskvöldið. Það er náttúrulega ekki hægt að láta frumburðinn koma alla leið til Reykjavíkur og koma ekki að heimsækja hann - já, ég er svolítið mikið dekruð :) Ótrúlega gott að hafa þau í Reykjavíkinni enda eru þau best í heimi.

Matarboð hjá Tótu í Skálagerðinu á þriðjudagskvöldið (félagsmiðstöðin Skálagerði öðru nafni) í góðum félagsskap Gumma, Gauju og Þuríðar Ástu en þau eru nýflutt í Kópavoginn úr dýrðinni og dásemdinni og gaman að fá þau í hópinn. Gamla er orðin ráðsett húsmóðir og bauð uppá ljúffengan mangókjúkling og hvítlauksbrauð - ég minni á skiptið þegar við fórum í sumarbústað með myglaða smjörið og útrunna vöffludeigið úr skápunum hjá Tótu ;) Ótrúlegt hvað við erum að verða þroskuð og ráðsett öll sömul ;)

Kíkti svo á Svönu, Binna og Helgu Björgu í Kúrlandið og eins og alltaf var frábært að hitta þau. Við Svana kíktum aðeins á kaffihús í smá kjaft eins og okkur er einum lagið. Mjög áhugavert að sjá krepputúrista reyna að sleppa við að borga hluta af reikningnum sínum - það er greinilegt að þau hafa ekki heyrt að það er svo nóg til af peningum í heiminum!

Pabbi keyrði mig svo út á flugvöll á miðvikudagsmorgun á mjög svo ókristilegum tíma og nú er ég sem sagt komin heim :)

Er loksins búin að setja inn myndirnar af íbúðinni minni og þær myndir sem ég tók í skírninni hennar Karitasar Guðrúnar. Set inn á eftir nokkrar myndir til viðbótar undir ágúst 2006 linkinn.

fimmtudagur, ágúst 24, 2006

Århus - Reykjavík - Århus

Stefnan er tekin á Reykjavík á laugardaginn, verð heima í 4 daga og svo kem ég aftur út í dýrðina og dásemdina :) Það verður rosa gott að komast aðeins heim - smá galli að fjölskyldan ætlar öll að vera á Þórshöfn á Langanesi! Allar fullu töskurnar bíða eftir að það verði vandlega valið úr þeim hvað skal tekið með út og hvað kemur til með að bíða betri tíma. Sem sagt, þið sem ætlið að koma í heimsókn til mín komið til með að þurfa að grípa með ykkur aðeins af drasli fyrir dekurrófuna sem að sjálfsögðu getur ekki verið án allra skóparanna og jakkanna í útlandinu ;)

Annars gengur allt sinn vanagang, akkúrat núna bíð ég eftir því að strákarnir komi með svefnsófann til mín - það verður mikil gleði þegar hann verður kominn í hús.

Fórum í gærkvöldi á nýja uppáhalds staðinn minn - Fatter Eskil - sem verður að tilkynnast að er alger snilld. Í öll þau skipti sem við höfum farið þá er lifandi tónlist og í gær (reyndar öll miðvikudagskvöld) var "jamming session" þar sem alls konar tónlistarmenn, úr öllum áttum og af stærðum og gerðum, tróðu upp. Næsti maður greip bara gítarinn eða trommurnar eða hvað sem er og svo var bara spilað og sungið. Þetta var bara gaman og stemningin gerist ekki betri :) Vildi óska að það væri svona staður á Íslandi - er vægast sagt orðin þreytt á djamminu í Reykjavíkinni fyrir sunnan.

Valla mín á svo afmæli í dag - 25 ára gamla! Til hamingju með það dúllan mín - hlakka ekkert smá til að komast í kökuboð á laugardaginn :)

Og já, ég fór í dönskupróf í gærmorgun - alltaf gott að sjá hvar maður stendur. Hef svo sem ekki miklar áhyggjur af því að hafa fallið (það gæti þó hafa gerst) en það kom mér smá á óvart hvað prófið var erfitt og langt. Flestir féllu á tíma en maður er nú kominn í svo góða æfingu í ólesanlegri hraðskrift úr lagadeildinni að ég náði barasta að klára þetta allt saman! Reyndar mjög ánægð að það kemur bara fram á diplómanu hvort við höfum staðist prófið eða fallið þannig að það skiptir í raun engu máli hvort ég hafi fengið 9 eða 6 (sem er reyndar aðeins líklegra).

Læt þetta duga í bili, sjáumst í Reykjavíkinni um helgina :)

þriðjudagur, ágúst 15, 2006

Mér finnst rigningin góð

Ekki laust við að þetta lag hljómi á repeat í hausnum á manni þessa dagana. Hér rignir eins og hellt sé úr fötu og það oft á dag!! Var ég ekki búin að fá næga rigningu heima á Íslandi? Jú ég held það bara en það er greinilegt að veðurguðirnir eru ekki á sama máli. Það hefur því verið sent út neyðarkall til Íslands og jakkar og fleiri buxur á leiðinni í pósti - Var nefnilega bara pláss fyrir hlýraboli í ferðatöskunni ;)

Á laugardaginn var International Party - mjög gaman og mikil stemning og lengi djammað. Reyndar voru ekki allir sem höfðu úthald í þetta allt saman en við létum það sko ekki á okkur fá og djömmuðum til rúmlega 6. Sunnudagurinn fór svo í lærdóm og aftur lærdóm. Myndir af herlegheitunum má sjá undir International Party.

Vakti athygli mína í Mogganum áðan að það þjást fleiri af offitu heldur en hungri í heiminum... held við ættum að skoða svolítið hvert við stefnum. Það hlýtur að vera hægt að jafna þetta út einhvern veginn - ég er allavega hætt að raða í mig kræsingum eins og ég fái borgað fyrir það!

föstudagur, ágúst 11, 2006

Það er allt að verða vitlaust

Jeminn eini! Það er bara varla tími til að blogga því það er svo mikið að gera í skólanum og á alls konar fyrirlestrum og kynningum. Ég sem hélt að Danirnir væru svo rólegir og ligeglad en sú er ekki raunin, allavega ekki ennþá. Ég er bara búin að komast á ströndina einu sinni sem klárlega hlýtur að falla undir einhvers konar mannréttindabrot! En það er samt búið að vera ógeðslega gaman og svo fullt af skemmtilegu fólki sem ég er búin að kynnast.

Danskan er öll að koma til og verður betri með hverjum bjórnum... Er það ekki þannig að í hverjum Carlsberg séu 1000 dönsk orð?? Maður spyr sig.

Stóra svefnsófamálið hefur orðið enn stærra en það var í upphafi - afhendingin frestaðist þangað til um miðjan október - fannst það aðeins of langt þannig að ég er komin á byrjunarreit. Það koma því ekki inn myndir af íbúðinni fyrr en það er komið í lag. Undir ágúst 2006 er ég samt búin að setja inn nokkrar myndir af því sem búið er að vera að gerast.

International Parý á morgun sem verður án efa skemmtilegt og svo er bara að krossa fingur og vona að sólin láti sjá sig á sunnudaginn svo hægt verði að sóla sig á ströndinni.

Nenni ekki að vera að hafa þetta langt í bili, enda betra að þegja og vera talinn heimskur heldur en að tala og taka af allan vafa.

föstudagur, ágúst 04, 2006

Nu skal man drikke øl og være glad

Jú ég er á lífi og hef það bara nokkuð gott. Fór á pósthúsið í dag að sækja pakkann sem ég sendi sjálfri mér (dálítið spes, ég veit) og þá beið bara internetstartpakkinn eftir mér þar líka og búinn að bíða síðan í síðustu viku. Ég skildi ekkert í þessu því þetta átti að vera löngu komið en heppin að gamla á pósthúsinu var nógu vakandi til að taka eftir því að ég átti fleiri en einn pakka.

Annars hefur byrjunin verið róleg. Bjargaði upphafinu á Danmerkurdvölinni að hún Stína mín var í sumarhúsi í Ebeltoft og hún skutlaðist eftir mér á laugardaginn. Þar var setið og kjaftað og hlegið fram eftir kvöldi, þannig að ég var með strengi í maganum daginn eftir. Við skelltum okkur að sjálfsögðu á diskótekið í Ebeltoft sem var mjög skemmtileg upplifun og þá sérstaklega planið á skóstuldinum mikla. Ekki höfðum við þó skó upp úr krafsinu en afrakstur kvöldsins var Tuborg upptakari og voru menn misánægðir með það eins og gengur og gerist. Sunnudagurinn var svo tekinn í sólbað og afslappelsi eins og það gerist best.

Skólinn byrjaði svo á miðvikudaginn. Þetta hefur verið mjög rólegt framan af sem er mjög gott því það verður að viðurkennast að danskan er ekki upp á marga fiska. Við erum 3 frá Íslandi á námskeiðinu og svo er einn frá Frakklandi sem talar "bínulítla íslenska". Höfum við að sjálfsögðu gert hann að heiðurs Íslendingi á svæðinu.

Íbúðin mín er algert æði, ennþá dálítið tóm en það er svo merkilegt með það að í dönskum verslunum er ekkert atriði að eiga hlutina til á lager - hver getur ekki beðið í 5 vikur eftir einum svefnsófa...Maður spyr sig! Eðal vindsæng úr Jysk Sængetøjslager hefur tekið við sófahlutverkinu þangað til gullsófinn mætir á svæðið. Sjónvarp, eldhúsborð og stólar og svoleiðis smáhlutir eru ennþá á innkaupalistanum en það er nú stefnt að því að bæta úr því á morgun - ef heilsan leyfir, það er nebblega stefnt á smá djamm með liðinu í kvöld ;)

Læt þetta duga í bili - Góða skemmtun um verslunarmannahelgina og gangið nú hægt um gleðinnar dyr :)

fimmtudagur, júlí 27, 2006

Nýr staður - nýtt líf

Brottför kl. 7:15 í fyrramálið - Sjáumst á næsta ári - nema ef einhverjir skyldu ákveða að bregða sér í reisu til Danmerkur á næstunni!

miðvikudagur, júlí 26, 2006

Spes

Er eðlilegt að pakka í fimmta skiptið ofan í sömu töskuna ... maður spyr sig!

þriðjudagur, júlí 25, 2006

IKEA here I come

Búin að fjárfesta í svaka skrúfgræju þannig að IKEA hillurnar verða ekkert mál! Já, nú er ég sko orðin atvinnumaður í IKEA-samsetningum.

föstudagur, júlí 21, 2006

Pælingar

Skrýtið hvernig ákveðnir dagar hafa meiri merkingu í lífi manns en aðrir. Maður ýmist heldur uppá þá eða vildi helst gleyma þeim. Svo eru aðrir sem maður myndi aldrei vilja gleyma þó maður tali ekkert sérstaklega mikið um þá.

Ef einhver hefði sagt mér á þessum degi fyrir 10 árum síðan að dagurinn í dag ætti eftir að renna upp og að ég ætti eftir að geta litið til baka og brosað, hefði ég sagt að sá hinn sami væri algerlega greindarvísitöluskertur. En.. dagurinn er kominn og þó þessi dagur fyrir 10 árum hafi verið einhver lengsti og erfiðasti dagur sem ég hef upplifað þá get ég ekki annað en brosað að öllum minningunum því þegar upp er staðið eru það þær sem lifa áfram.

fimmtudagur, júlí 20, 2006

Tiltekt

Já, það er óhætt að segja að maður finni ýmislegt áhugavert þegar maður pakkar sér niður. Gömul símakort frá hinum ýmsu útlöndum vöktu upp gamlar og góðar ævintýraminningar :) Bara gaman af því.

Er annars ekki að fíla þessar þjóðhátíðarauglýsingar - bara leiðindi að komast ekki í pollagallann og gúmmískóna þetta árið en það kemur til með að verða ansi góður drykkjusjóður fyrir næsta ár .... eins og mig minni að gerður hafi verið samningur um að þeir samningsaðila sem beiluðu á þjóðhátíð á næsta ári (þ.e. í ár) skyldu borga 100.000 krónur í sekt... eins gott að það er svo nóg til af peningum í heiminum!

miðvikudagur, júlí 19, 2006

Blessuð sólin

lét loksins sjá sig á höfuðborgarsvæðinu í dag. Ég missti af henni þegar henni þóknaðist að skína í miðjum próflestri í vor og orðin illa haldin af marglyttusyndróminu. Það var geeeeðveikt að sitja á Austurvelli í hádeginu og fá nokkra sólargeisla í andlitið. Það er eins gott að þetta haldist fram í næstu viku - annars verð ég bara geðvond.

Annars hefur verið brjálað að gera. Komst reyndar ekki heim á Káta daga um helgina en helgin bjargaðist samt því Anna María kom alla leið frá Akureyri til að vera hjá mér, í staðinn fyrir að fara í dýrðina og dásemdina. Við lágum nú bara í leti á föstudagskvöldið og horfðum á vídeó en svo vorum við boðnar í dýrindis kvöldmat hjá Jónu með lögfræðiskvísunum á laugardagskvöldið. Þar var kjaftað fram eftir kvöldi um ýmis mjög svo áhugaverð málefni og svo litum við aðeins í bæinn á eftir. Lærði "frátekinn" sem verður að viðurkennast að er einhver sá allra sniðugast leikur sem ég hef lært lengi og meira en nóg af viðfangsefnum í miðbænum á laugardagskvöldi... mjög svo áhugavert. Á sunnudagskvöldið var svo matarboð í Kúrlandinu og var það mjög vel heppnað eins og þar er von og vísa. Alþjóðahúsið með skvísunum á eftir í "kveðjukaffihúsaferð" gerði líka góða hluti. Áttaði mig á því eftir helgina að ég er ótrúlega heppin að þekkja svona mikið af skemmtilegu fólki - Takk fyrir helgina þið öll :)

Stressið vegna danmerkurfarar er samt aðeins farið að trufla mig þessa dagana. Venjulega þegar ég hef tekið ákvarðanir sem snúa Gullulandi á hvolf þá hef ég verið komin út í ævintýrið áður en ég hef náð að spá í hvað ég væri að gera. Nú finnst mér ég einhvern vegin hafa haft svo langan tíma til að plana þetta allt saman og allt að smella en ég einhvernvegin trúi því ekki að ég geti verið með þetta svona mikið á hreinu. Væri alveg til í að taka kæruleysið á þetta eins og í gamla daga. Þá væri ég væntanlega ekki að velta því fyrir mér viku fyrir brottför hvort ég sé orðin of gömul til að lenda í svona ævintýrum sem ég veit ekkert hvernig enda.

mánudagur, júlí 10, 2006

London ....

var í einu orði sagt frábær :) Við frænkur lögðum af stað út á flugvöll á mjög svo ókristilegum tíma og vorum komnar til London rétt um hádegi. Deginum var eytt á Oxford Street þangað til fæturnir gátu ekki meir og við orðnar óendanlega þreyttar. Á laugardaginn áttum við bókaða ferð sem var með í ferðinni okkar en eitthvað hefur klúðrast og við biðum og biðum og biðum á uppgefinni "addressu" en aldrei vorum við sóttar. Það rættist nú samt heldur betur úr deginum því okkur datt í hug að fara í túrista strætóferð um borgina og slógum þannig margar flugur í einu höggi - sáum allt sem maður verður að sjá á þremur dögum í London og það besta við þetta allt saman var að maður gat farið út þar sem maður sjálfur vildi og skoðað betur það sem manni fannst markvert og svo bara gripið næsta strætó. Fórum svo á indverskan veitingastað um kvöldið og gerðum þannig góðan dag enn betri. Vöknuðum svo fyrir allar aldir á sunnudagsmorgun til þess að fara á Madame Tussauds og míngla aðeins við fræga fólkið. Ég hefði ekki trúað því að hægt væri að gera svona líkar eftirmyndir af fólki, sumar að sjálfsögðu betri en aðrar. Leiðangursstjórinn tók svo vitlausa beygju einhvers staðar á leiðinni heim og vorum við í einn og hálfan tíma aftur til baka á hótelið í staðinn fyrir korter ... en það gerði þetta bara að enn meira ævintýri ;) Eyddum svo restinni af deginum í að fara í aðeins fleiri búðir en eins og allir vita þá getur maður aldrei verslað nóg ;) Það verður að teljast afrek út af fyrir sig að hafa komist heilar á húfi frá útsölunum sem voru alls staðar í gangi og voru flestar búðirnar eins og eftir sprengingu og kellingarnar brjálaðar eftir því ;)Takk Rósa mín fyrir frábæra ferð, hún hefði ekki getað verið betri :)

Svo er bara næsta brottför eftir rétt rúmar 2 vikur! Óska eftir skipulagsmeistara - hef svo ekki hugmynd um hvernig ég ætla að fara að þessu öllu saman og stressið aðeins farið að segja til sín.

Allavega, þá setti ég inn myndir af londonferðinni, vantar reyndar myndir af öllu verslinu (sem var þó í lágmarki) en ég held að allir viti meira eða minna hvernig það hefur farið fram ;)

þriðjudagur, júlí 04, 2006

Oddur seldur

Já, það hefur átt sér stað. Oddur minn er farinn og það gerðist svo hratt að ég náði varla að spá í það. Hann fékk allavega góða fjölskyldu en ég fékk næstum tár í augun þegar ég horfði á hann keyra í burtu. Það eru ekki allir sem tengjast bílnum sínum tilfinningaböndum en hann hefur nú einu sinni verið eini stöðugi punkturinn í lífi mínu síðustu 3 árin, hefur farið með mér í ferðalög, komið mér í skólann (svona yfirleitt allavega) og að sjálfsögðu í búðir. Hann hefur aldrei kvartað, þó hann hafi lagt niður störf einstaka sinnum, og ég verð að viðurkenna að ég á eftir að sakna hans þegar ég verð komin á reiðhjólið í Danmörku.

Í staðinn fyrir Odd er kominn í stæðið Volvoinn hennar Gunnu frænku en hún var svo yndisleg að leyfa mér að nota hann þangað til ég fer út. Það er svona "Gunnufrænkulykt" í honum sem er mjög krúttlegt. Þegar ég kem inn í hann er eins og ég sé komin á Illugagötuna og megi von á því að fá ís eða eitthvað annað rosa gott að borða von bráðar. Fyndið hvað ákveðin lykt getur rifjað upp fyrir manni gamlar, góðar minningar.

Anyways - Brassarnir dottnir út á HM sem þýðir að ég er ekki lengur að spá í hvar mögulegt sé að horfa á úrslitaleikinn í London. Ef einhver hefur gleymt því þá verð ég komin út til London í 25 stiga hita um hádegi á föstudag og get hreinlega ekki beðið. Það verður verslað og verslað og verslað og verslað og farið á söfn og veitingahús borgarinnar mega jafnvel búa sig undir innrás frænknanna. Skynsemin segir mér samt að "verslið" verði að vera í lágmarki því farangur til Danmerkur verður að vera í enn meira lágmarki en við sjáum til hvernig fer.

mánudagur, júní 26, 2006

Sumarfrí

Jæja, þá eru allir 6 sumarfrísdagarnir mínir búnir og bara vinna í fyrramálið. Mikið verður nú gaman þegar hægt verður að fara að vinna eins og venjulegt fólk gerir og fá svo almennilegt sumarfrí. Reyndar ekki magnið sem skiptir máli heldur gæðin og þetta sumarfrí skoraði bara mjög hátt á gæðaskalanum. Fór til Vestmannaeyja með settinu og ömmu og hef bara sjaldan lent í öðru eins dekri. Við skelltum okkur í Jónsmessunæturgöngu á föstudagskvöldið en þar fyrir utan var mest borðað (á svona u.þ.b. 2ja tíma fresti) og reynt að njóta þess að vera í fríi.

Nú styttist bara og styttist í það að ég flytji út, fékk reyndar nett taugaáfall fyrir helgi þegar ég fékk loksins myndir af íbúðinni minni - hún reyndist 20 fermetrum minni en ég hafði gert ráð fyrir ... Danir telja nefnilega stigaganginn og alla sameign með inní fermetrafjölda íbúðarinnar. Svo sem allt í lagi að vera í lítilli íbúð en mesti gallinn við þessa er sá að hún nýtist svo illa. Eldhúsið og stofan í einu rými sem minnir meira á hol og ég sá ekki fram á það að geta komið fyrir bæði eldhúsborði og sófa! Hún var sem sagt ekki að skora hátt á gæðaskalanum. En allt er gott sem endar vel og þegar ég var búin að lýsa áhyggjum mínum fyrir konunni sem er að vinna í málinu fyrir mig og eiginlega farin að huga að því að finna mér aðra íbúð um leið og ég væri komin út, þá fann hún bara fyrir mig aðra í annarri blokk við sömu götu. Greyið, heldur örugglega að ég sé nett greindarvísitöluskert, allavega alger frekja en hún fær allavega þolinmæðisstig dagsins og næstu vikna.

Já ég er sem sagt byrjuð að hrella fólkið í Danmörku með eftirminnilegum hætti og það skemmtilegasta við þetta allt saman er að þetta er bara rétt að byrja ;)

miðvikudagur, júní 14, 2006

Hans í koti

Nú er það búið! Nú sel ég þennan eðalvagn minn, þ.e.a.s. þegar ég verð búin að fara með hann 1x enn á verkstæðið. Eins og við Oddur eigum í góðu og skilningsríku sambandi þá fer þetta nú að verða dálítið þreytandi en vonandi að hvíld á bílastæði í borginni fram til morguns fái hann til þess að fara í gang - Mikið hafa verkstæðisgaurarnir grætt á þessum bílakaupum mínum. Það er eins gott að það er svo nóg til af peningum í heiminum.

þriðjudagur, júní 13, 2006

Allt að bresta á

Búin að panta flug til Danmerkur 28. júlí, nú þarf ég að fara að plana allt sem ég ætla að gera áður en ég fer út ;) Það munaði ekki nema 60 þúsund krónum á flugi aðra leið til Kaupmannahafnar milli Icelandair og Iceland express - merkilegt nokk. Ég græddi því 60 þúsund í dag - gott að eiga nóg af peningum!

Tapas á laugardagskvöldið. Mikið rosalega var það skemmtilegt, þökk sé ótrúlega góðum mat og ekki síður góðum félagsskap. Mikið rökrætt og mikið hlegið - Takk stelpur þetta var frábært kvöld.

Eins og mér finnst gott og gaman að fara út að borða þá hefur mér alltaf þótt mjög áhugavert að kanna hvort ekki sé hægt að fá bara næringu í æð svona dags daglega... Mér finnst óheyrilega leiðinlegt að ákveða hvað ég á að borða, hvenær ég á að borða það, svo ekki sé talað um að versla í matinn og elda. Væri mun einfaldara ef maður fengi bara 1 poka sem maður gæti fest á öxlina og hann myndi duga út daginn. Lífið væri svo mun einfaldara!

föstudagur, júní 09, 2006

London baby

Ójá, gamla er bara á leiðinni til London (og það í fyrsta skipti!) í byrjun júlí - Bara stemning fyrir því. Það er ekki á hverjum degi sem uppáhalds frænkan hringir og býður manni með í helgarferð til London. Takk Rósa Björg - þetta verður besta "frænkuferð" sem farin hefur verið ;) Við skvísurnar höfum ýmislegt planað en fyrst og fremst á að njóta þess að vera til. Ég get hreinlega ekki beðið.

Af danmerkurför er það að frétta að ég er búin að fá íbúð. Hljómar vel en ég fæ myndir í næstu viku. Hef svo sem ekki miklar áhyggjur því blokkin er svo til alveg ný, íbúðin 3ja herbergja, á 3ju hæð og 3 km í skólann. Hins vegar er Ikea í göngufæri og þangað verður stefnan tekin fyrsta daginn því íbúðin er ekki með neinum húsgögnum (nema þvottavél og þurrkara sem er bara gott - vona reyndar að uppþvottavél leynist í eldhúsinu) og ég nenni ekki að hafa neitt með mér út nema fötin mín og kanski nokkrar bækur.

Það er allavega góð stemning í Gullulandi þessa dagana.

miðvikudagur, júní 07, 2006

Átak spátak

Hlaupaferðirnar hafa snúist upp í gönguferðir. Þetta byrjaði allt saman voðalega vel, ég skellti mér í gallan, hljóp niður stigann, dró andann djúpt í anddyrinu áður en ég hætti mér út og lét svo vaða.... við sólfarið var ég svo gjörsamlega sprungin að ég íhugaði að snúa við og láta aldrei á þetta reyna aftur. Kommon, maður á nú að geta farið meira en 300 metra í fyrstu tilraun. Ég labbaði nú samt í tæpan klukkutíma og var bara nokkuð sátt á endanum. Gerði tilraun nr. 2 í kvöld en ákvað að vera ekkert að svekkja mig á því að geta bara hlaupið 300 m. svo ég labbaði bara allan tímann ;) Já, maður verður nú stundum að vera góður við sjálfan sig.

Sæbrautin er ekki sú skemmtilegasta til að ganga eftir en fjörulyktin sem ég fann, þegar létti bensínbrækjunni og lyktinni af brenndu gúmmíi, og kríugargið minnti nú bara mjög á hlaupaferðir á Sætúnssandi nema ef frá skyldi talið að nú hljóp ég ekki. Mávarnir sem éta afgangana á planinu á Aktu Taktu gerðu þetta líka enn skemmtilegra ævintýri. Verð að viðurkenna að þegar kemur að því að fara út að hlaupa þá sakna ég þess að búa úti á landi.

Er mikið að spá í útskriftinni minni þessa dagana. Langar svo ekki að vera viðstödd hana að það er ekki venjulegt. Hélt ég væri laus við það því búið var að plana ættarmót í Vestmannaeyjum sömu helgina en það er búið að fresta því. Mér finnst því miður ekkert merkilegt við þetta allt saman (Ekki eins og maður sé kominn á leiðarenda í þessu námi) og nenni ekki að leggja á mig 4 klukkutíma setu, hlustandi á hvert nafnið þulið upp á fætur öðru og horfa á hverja manneskjuna á fætur annarri rölta upp á svið og svo niður aftur. Mér leiðast svoooo svona samkomur en langar svo að finnast þetta spennandi. Foreldrum mínum finnst ég svolítið spes (held þeim hafi alltaf fundist það) og ég hef fengið svolítið misjöfn viðbrögð við því að nenna ekki að mæta. Á ég að mæta þarna fyrir einhverja aðra en sjálfa mig??

mánudagur, júní 05, 2006

Helgin ...

var frábær og varla að ég nenni að fara að vinna í fyrramálið ;) Fór á laugardaginn með Hjöddu til Önnu Maríu sem var í sumarbústað í Biskupstungum og að sjálfsögðu liðu ekki nema 5 mínútur frá því við komum á staðinn þangað til við vorum komnar í sólbað í heita pottinum. Er ekki frá því að marglyttan hafi aðeins látið á sjá og að ég hafi fengið smá lit. Þegar sólin var farin úr heita pottinum fórum við að skoða Gullfoss og Geysi eins og góðum túristum sæmir. Lágum annars í leti og höfðum það allt of gott eins og gengur og gerist enda ekki annað hægt í jafn góðum félagsskap.

Félagsskapurin í gærkvöldi var svo ekki af síðri endanum og "útiveislumatnum" gerð góð skil (smá einkahúmor - You had to be there). Spjall fram eftir kvöldi, ís og sælgæti - alger snilld.

Vaknaði svo í morgun eftir einhvern þann versta draum sem ég hef átt í langan tíma. Dreymdi að ég var komin heim á Þórshöfn og að spila fótbolta með stelpunum í einhverjum mikilvægum leik og ég var svo léleg að annað eins hefur aldrei sést í fótboltaheiminum. Ég skoraði svoleiðis hvert sjálfsmarkið á fætur öðru og ef ég skaut ekki í eigið mark þá annað hvort hitti ég ekki boltan eða gaf á mótherjann. Vaknaði svoleiðis í öngum mínum í morgun og hef ákveðið að frá og með deginum í dag þá er ég komin í átak! Held að draumurinn hafi verið skilaboð til mín um að fara að taka mig á enda formið í sögulegu lágmarki. Nú er bara að duga eða drepast og aumingjaskapurinn skal í burtu!

laugardagur, júní 03, 2006

Ligeglad og gott betur en það

Síðasta einkunnin komin í hús og sem betur fer rétt hafðist þetta. Einkunnir þessarar annar hefðu getað verið betri en fyrst ég tolldi í fyrstu einkunn tekur því ekki að væla yfir þessu öllu saman. Ég fer sem sagt til Danmerkur í lok júlí og skólinn byrjar svo 2. ágúst. Vantar reyndar enn að fá íbúð en það hlýtur að finnast eitthvað sem ég get hugsað mér að búa í þó reyndar hafi tilraunirnar hingað til ekki borið árangur. Það er óhætt að segja að það sé ekki alveg sami standard á húsnæði í Danmörku og á Íslandi.

Næsta skref er svo bara að dusta rykið af dönskunni og fá sér eins og einn øl.

mánudagur, maí 29, 2006

það er komið sumar

Þá er Glóan mín farin heim í dýrðina og dásemdina í sumar en ég fékk Joe í heimsókn í staðinn svo ég er ekki orðin alein í Reykjavíkinni enn. Annars er stefnan tekin á að njóta sumarsins í botn, vinna (að sjálfsögðu), fara í sund, á línuskauta og jafnvel verið að íhuga hvort göngutúrar á Esjuna gætu verið inní myndinni. Grillið hans pabba er að gera góða hluti og er planið að nýta það sem best í sumar (júróvisjónlærið verður þó varla endurtekið nema mikill undirbúningur liggi að baki!). Svo er bara vonandi að ég komist út til Danmerkur í júlí en þá yrði sumarið fullkomið - ef ekki þá verður Spánn eða Portúgal fyrir valinu í haust svo ég losni nú einhvern tíman við marglyttusyndrómið.

Drepiði mig nú samt ekki alveg með þessari post-kosninga biturð sem herjar á alla fréttatíma frá því á laugardaginn. Kosningabaráttan var nógu leiðinleg og ekki tekur betra við. Sjálfstæðismenn og framsókn í meirihluta í borginni - held að sjálfstæðismenn hafi ekki valið besta kostinn í stöðunni en það er þó bara mitt álit. Fannst Ólafur (sem enn er í hádegishléi) svolítið kasta steinum úr glerhúsi í fréttunum en manni getur nú víst sárnað þó ekki komi tár ;)

laugardagur, maí 27, 2006

Hvar er sólin?

Passar að þegar ég hef loksins orðið mér úti um sumarkjóla þá hættir sólin að skína. Ég fer því væntanlega ekki á kjörstað því fallega glóðaraugað mitt krefst sólgleraugna af stærstu gerð og frekar glatað að rölta um í sólarleysinu með ofvaxin sólgleraugu.

Merkileg síða spámaður.is, þar kíki ég á stjörnuspána á hverjum degi og jafnvel dreg mér eins og eitt spádómsspil svona til að tryggja stöðuna (nei, þetta er ekki eitthvað sem ég trúi á en getur verið skemmtilegt þegar maður er búinn að vera heima í 5 daga og má ekki gera neitt!). Stjörnuspáin í dag allt of andlega sinnuð og leiðinleg en dró hins vegar ágætt spil sem endaði á þessum snilldar orðum - "Betri helmingur þinn er innra með þér" - Mikið var ég glöð að fá þetta staðfest og get nú hætt að kvarta yfir því offramboði sem er á vesalingum og þegar næsta gamla frænka spyr hvers vegna ég sé ekki gift og með börn þá hendi ég fram þessari fleygu setningu og get þá hvílt þær sem hingað til hefur verið hent fram í þeim eina tilgangi að sjá svipinn á frænkunum þegar svarið er ekki alveg í átt við það sem þær bjuggust við. Leitinni hefur því verið hætt enda enginn jafn fullkominn og ég sjálf og því hef ég fundið hinn fullkomna betri helming ;)

fimmtudagur, maí 25, 2006

Arg

Eyddi síðustu færslu - fannst hún jaðra við að vera í átt við þunglyndi en ekkert þunglyndi í gangi bara miklar pælingar um hvort grasið sé grænna hinum megin.

Er annars með ljótuna á háu stigi þessa dagana og næstu, svo háu að alls óvíst er hvort hún náist burt. Til þess að reyna að losna við hana hef ég ákveðið að vera ótrúlega dugleg að fara á línuskautana mína sem til þessa hafa bara verið til skrauts og til að horfa á. Auglýsi hér með eftir einhverjum til að sýna mér hvernig á að fara upp og niður brekkur á græunni - þoli ekki þegar ég kann ekki eitthvað og það gengur ekki eins og í sögu í fyrsta skipti sem ég prófa.

þriðjudagur, maí 23, 2006

Ég þoli ekki ....

KB-banka hrægammana í Kringlunni sem ómögulegt er að losna við. Hvað er svona flókið við orðið nei og ef það er ekki skiljanlegt þá nei, ég hef ekki áhuga á að skipta um banka og viðbótarlífeyrissparnaðurinn minn er bara í góðum málum. Vá hvað ég á eftir að lesa yfir næsta manni sem býður mér ótrúlegagotttilboð í bankaviðskiptin mín.

Annað sem fer mikið í taugarnar á mér í kringum kosningarnar eru símtölin sem maður fær frá stjórnmálaflokkunum. Alveg gjörsamlega óþolandi þegar ókunnugt fólk hringir og spyr hvort ég hafi gert upp hug minn og ef svo er hvort þeir megi forvitnast um hvað ég ætli að kjósa. That is none of your business! Fékk þetta afar fína sms TVISVAR sinnum í gær frá samfylkingunni:
Yfir 30 tus. krona kjarabot a manudi. kjosum samfylkingu, kjosum gjaldfrjalsan leikskola. XS-Samfylkingin.
Ég sé ekki alveg hvernig ég, barnlausa konan, á að hagnast á gjaldfrjálsum leikskóla. Held að því sé akkúrat öfugt farið og að ég sé svo heppin að fá að borga leikskólagjöldin fyrir borgarbörnin án þess að eiga neitt í þeim. Jibbí, endilega sendið mér fleiri sms með frábærum kjarabótum. Ekki misskilja mig - ég hef ekkert á móti börnum og þekki meira að segja fullt af skemmtilegum börnum en mér finnst ekkert gáfulegt við gjaldfrjálsan leikskóla! Það vantar alveg að Samfylkingin hafi sýnt fram á hvernig dæmið er reiknað á raunhæfan hátt og hvernig þetta á að vera framkvæmanlegt því útsvar í Reykjavíkinni góðu er nú þegar í botni. Mín persónulega skoðun er sú að sniðugra væri að tekjutengja leikskólagjöldin, námsmenn og fólk með lægstu launin fái frítt og hinir greiða miðað við tekjur. Ríkisbubbarnir sem fljúga tvisvar í viku á einkaþotunni til Parísar til að fara út að borða geta bara alveg borgað full leikskólagjöld að mínu mati!

Það er allavega á hreinu að sms-fylkingin fær ekki mitt atkvæði

sunnudagur, maí 21, 2006

Skand-Suður-Evrópa

Það er ekkert jafn mikil snilld og að horfa á veðurfréttirnar á Stöð 2 þessa dagana en hún Sigríður sem þar treður upp hlýtur að fá næstu Eddu sem sjónvarpsstjarna ársins. Það er alveg merkilegt að henni tekst alltaf að standa helst fyrir þeim stað sem maður á að vera að horfa á á kortinu og frasarnir sem koma frá henni eru algerir gullmolar - Og við færum okkur hér yfir til Skand-, Skand-Suður-Evrópu - Ég tel mig nú hafa farið aðeins um heiminn en til Skand-Suður-Evrópu hef ég aldrei komið og jafnvel verður það bara sett í forgang næsta sumar að heimsækja þann eðalstað enda var veðrið þar með því besta sem gerðist það kvöldið. Svo er líka svo frábært að hún getur sagt til um það uppá mínútu hvenær t.d. frystir fyrir norðan og þá örugglega líka hvenær ský dregur frá sólu eða hvenær byrjar að rigna. því verður hér eftir heilög stund á mínu heimili þegar veðurfréttirnar byrja.

Annars lítið að gerast. Byrjuð að vinna. Einkunnin fyrir BA-ritgerðina komin í hús og gamla bara nokkuð sátt. Nú er bara beðið eftir hinum einkunnunum og þess beðið á hverju kvöldi að mikil (og jafnvel óhæfileg) sanngirni verði viðhöfð við yfirferð og einkunnagjöf fyrir Refsiréttinn svo Danmerkurdraumurinn geti nú orðið að veruleika næsta haust.

mánudagur, maí 15, 2006

Halló sumarpróf!

Fleiri orð þarf ekki að hafa um það!

sunnudagur, maí 14, 2006

Fokk í rass

Oft hefur útlitið verið svart en aldrei eins og núna. Vá hvað prófið á morgun þarf að vera extra sanngjarnt - pant fá 60% raunhæft verkefni.

fimmtudagur, maí 11, 2006

Hver var að kvarta yfir ævintýraskorti?!

Ég er svo endurnærð eftir daginn og tilbúinn í slaginn næstu daga - hreinlega get ekki fengið undir 11 í næsta prófi.

Ég fór sem sagt í dag í Flatey á Breiðafirði í vinnuferð. Við byrjuðum á því að fara að skoða ríkisjörð í Ytri Hraundal og eitthvað hefur leiðin þangað reynst ráðuneytisbílnum erfið því það "púnteraði" hjá okkur (Fyrir ekki norðlenska skal þess getið að orðið punkterað er notað fyrir norðan um það atvik þegar dekk springur á bíl). Var ekki um annað að ræða fyrir mig en að sveifla mér út úr jeppanum og leiðbeina strákunum svo stórkostlega vel varðandi það hvernig skuli bera sig að við það að skipta um dekk á jeppum, enda ekki óvön eftir að hafa verið á Daihatsu Charade í 5 ár. Að sjálfsögðu kom þessi líka svaka haglél um leið og við stigum út úr bílnum og við svona nett að verða sein í Stykkishólm til að taka ferjuna út í Flatey. Það hafðist þó á síðustu stundu og hefði ekki mátt tæpara standa.

Við fengum geggjað veður í Flatey (reyndar smá rok) og ég verð að viðurkenna að ég er heilluð af eyjunni. Öll þessi gömlu hús og engir bílar og mig hreinlega langaði til að verða eftir. Kirkjan er líka geggjuð. Baltasar Samper málaði hvelfinguna og altaristöfluna og ég hef sjaldan séð annað eins (mögulega gæti sixtínska kapellan slegið þetta út en það verður að koma í ljós). Við fengum náttúrulega höfðinglegar móttökur og svignuðu borðin undan veitingum og kræsingum.

Langt síðan ég hef verið svona þreytt eftir einn dag en það er svo góð þreyta. Með sjóriðu og sólbrennd í framan - gerist ekki betra.

miðvikudagur, maí 10, 2006

Ævintýraþrá

Í vinnunni minni er ég talin vera svona frekar stabíl og rólyndistípa en ef þeir hefðu bara vitað hvað fór í gegnum hugann á mér þessa 2 tíma sem ég fór í vinnuna í dag ... og nei það var ekkert illgjarnt eða leiðinlegt.

Ég var varla sest við tölvuna mína þegar ég fékk netta ábendingu á msn varðandi sumarið og allt í einu, eins og hendi væri veifað þá langaði mig svooo til þess að lenda í slíku ævintýri þó ekki væri nema einu sinni enn. Mig langaði svo að segja bara allt í lagi, ég geri það og ég spái ekkert í því hvernig ég fer að því eða hvaða afleiðingar það hefur. Mikið rosalega var ég glöð að átta mig á að ég er ekki orðin jafn leiðinleg og ég hélt eftir að hafa lifað mjög svo tilbreytingarsnauðu lífi síðustu 3 árin.

Þó svo að ég grípi ekki þetta tækifæri þá er ég viss um að þegar tíminn er réttur eigi ég svo eftir að fá þessa ævintýratilfinningu aftur - löngunina til þess að stökkva af stað og líta aldrei til baka og sjá svo ekkert eftir því. Ég verð að viðurkenna að ég get ekki beðið.

mánudagur, maí 08, 2006

Mig langar svo til Kúbu

Er einhver með?

2 down - 1 to go

Kröfurétturinn búinn sem betur fer en ekkert skal fullyrt um gengið enda getur þetta bara farið á tvo vegu. Ég á því miður ekki skilið að fá mjög háa einkunn miðað við það hvað ég lagði á mig fyrir þetta próf, meira að segja frumlestur og allt en ég verð nett brjáluð ef ég fell!

Laufey og svalirnar hennar fá sólarstig dagsins en hin ótrúlega góða súkkulaðikaka sem boðið var uppá í sólinni eftir prófið smakkaðist betur en súkkulaðikökur hafa gert í langan tíma.

Refsirétturinn er svo næstur og á meðan ég þykist læra læt ég mig dreyma um sundferðir, ísferðir og línuskautana mína sem enn eru niðri í geymslu. Eins gott að sólin haldi áfram að sýna sig þegar próflesturinn er búinn... ég verð að losna við marglyttusyndrómið.

laugardagur, maí 06, 2006

Hitabylgja

Það vantar ekki að búið sé að spá hitabylgju um helgina. Allt að 18 stiga hiti suðvestanlands, takk fyrir pent! Nú er bara málið að eiga nóg af vatni til að kæla sig niður í öllum hitanum en verst er þó að við Íslendingar skulum ekki eiga gosbrunna á öllum torgum eins og Ítalirnir eiga, svo fólk geti nú kælt sig niður í þeim ef hitinn reynist óbærilegur. Hér á bæ hefur hins vegar verið brugðið á það ráð að draga fyrir alla glugga svo ekkert geti spillt lærdómi þó réttast væri að slá þessu bara upp í kæruleysi, drífa sig út í góða veðrið á sandölum og ermalausum bol og jafnvel fá sér eitt hvítvínsglas í tilefni dagsins.

Gleðilega hitabylgju :)

fimmtudagur, maí 04, 2006

Í dag er dagurinn

og ég vona að hann endi vel og við taki enn betri morgundagur. Ég hef búið mig undir að lærdómurinn verði mögulega aðeins stopull en hef áttað mig á að kanski eru aðrir hlutir sem skipta aðeins meira máli en hvort ég hangi í fyrstu einkunn í skólanum.

Veriði góð hvert við annað

þriðjudagur, maí 02, 2006

Kröfuréttur... þarf ég að segja meira

Það er á dögum eins og þessum sem ég sakna íbúðarinnar minnar óendanlega mikið. Það er nefnilega ekkert betra en próflestur í sólinni og í Skálagerðinu næ ég sólinni hringinn í kringum húsið og algerlega í friði. Held ég fari ekkert að leggjast út í miðjan garð hér á Klapparstígnum með bækurnar til þess að ná nokkrum sólargeislum, enda stöðugur straumur fólks svo ekki sé talað um umhverfishljóðin sem eru af svolítið annarri tegund en fuglasöngurinn í Skálagerðinu. Klukkutíminn sem sólin skín á svalirnar mínar núna er sem sagt liðinn og því ekkert annað hægt að gera en að fara að lesa skuldajöfnuð, eins spennandi og það nú hljómar.

laugardagur, apríl 29, 2006

Fyrsta prófið búið

Og gekk bara sæmilega, kanski ekki 11 en vona að ég hafi nú allavega náð. Þokkalega sanngjarnt allt saman og get ég engum um kennt nema sjálfri mér ef illa fer. Þá er bara að koma sér í gang fyrir næstu átök en næst verður próf í hinum gríðarlega vinsæla og alls ekki þurra kröfurétti - get ekki beðið eftir að fá að láta ljós mitt skína... Held að af öllu sem ég hef lært um ævina (og það er þónokkuð) þá hafi þetta vinninginn varðandi leiðinlegheit.

Annað aðeins skemmtilegra en kröfurétturinn er að snillingarnir á Þórshöfn á Langanesi samþykktu sameiningu við Bakkafjörð (jebb - góð hugmynd). Ég hef ekkert búið að ráði heima í rúm 10 ár og kanski ekki rétt af mér að gagnrýna þetta en ég skil ekki hverjum datt í hug að þetta gæti komið sveitarfélögunum til góða - Því miður held ég að nú hafi mínir menn skotið sig í fótinn og þó ég hafi lesið glansbæklinginn og spáð og spegulerað sá ég ekkert sem gæti rökstutt þessa sameiningu og þá fyrir hvorugt sveitarfélagið. Held að margir hafi yppt öxlum og frekar spurt sig af hverju ekki í staðinn fyrir af hverju. En það þýðir ekki að væla yfir því heldur bara girða í brók og gera gott úr þessu.
Nú eru sem sagt komnar fram tillögur á hið nýja sveitarfélag - ójá - þær eru góðar!
- AUSTURBYGGÐ
- FONTSBYGGÐ
- FUGLABYGGÐ
- GUNNÓLFSBYGGÐ
- GUNNÓLFSVÍKURBYGGÐ
- GUNNÓLFSVÍKURHREPPUR
- HAFNABYGGÐ
- HAFNARBYGGÐ
- LANGANESBYGGÐ
- LANGANESHREPPUR
- LANGANESSTRÖND
- NESBYGGÐ
- NESJABYGGÐ
- NORÐAUSTURBYGGÐ
- NORÐAUSTURHREPPUR
- NORÐURBYGGÐ
- NORÐURHÖFN
- SAMBYGGÐ
- SJÁVARBYGGÐ
- STAKFELLSBYGGÐ
- STRANDABYGGÐ
- ÞÓRSHAFNARBYGGÐ
Sumt bara allt í lagi en hvað er málið með allt þetta -byggð. Ég er bara ekki að kaupa það. Ég vil búa í hreppi - það er sko alvöru. Væri samt æði að búa í fuglabyggð. Er að hugsa um að færa lögheimilið mitt aftur í dýrðina og dásemdina svo ég geti greitt því atkvæði mitt.

Jæja kröfurétturinn les sig víst ekki sjálfur

föstudagur, apríl 28, 2006

Botni kæruleysisins náð

Það hefur sjaldan gerst að kl. 10 kvöldið fyrir próf þá eiginlega sé ég ekkert búin að læra allan daginn. Prófógleðin góða hefur nú gert vart við sig og því stefnir allt í það að prófstressið láti nú sjá sig eftir mikla bið og eftirvæntingu. Búin að lesa innan við helminginn af glósunum mínum sem þýðir að eftir eru um 4 tímar í lestri allavega... Ég vona að undirmeðvitundin hafi verið að vinna vinnuna mína síðustu vikuna og að fyrir vikið upplifi ég ekki fyrsta fallið mitt um ævina (ef frá er talið þegar ég féll í eðlisfræði í Guatemala um árið, sælla minninga og var sett í útivistarbann í kjölfarið). Það væri nú alveg til að toppa tilveruna að taka upp á því að falla svona þegar útskrift er handan við hornið og ekki séns að komast til Árósa nema ég útskrifist í sumar.

Er samt að hugsa um að fara út að hlaupa (lesist labba - þolið dugar í ca. 3 min) því veðrið er geggjað og ég hef ekki hugsað um annað í allan dag en hvað mig langar að vera úti í staðinn fyrir að hanga inni að læra.

Krossa fingur og vona að KR-heimilið sé til heilla en ekki til bölvunar.

Sól, sól, skín á mig

Í gærkvöldi átti ég eitthvert það allra skemmtilegasta kvöld sem ég hef átt lengi. Fékk óvænt boð á tónleika með Sinfóníuhljómsveitinni, Eivöru og Ragnheiði Gröndal og var það vægast sagt stórkostleg upplifun. Ég fékk gæsahúð strax í fyrsta laginu og hún hvarf svona um það leyti sem ég settist upp í bíl eftir tónleikana. Kaffihús og kjaft um allt og ekkert á eftir gerði svo líka góða hluti enda félagsskapurinn ekki af verri endanum. Takk fyrir kvöldið yndislega fólk.

Próflesturinn gengur hins vegar ekki sem skildi enda ekki hægt að húka inni og lesa þegar veðrið er svona gott. Kæruleysið hefur fundið mig og einkennt próflesturinn til þessa. Áttaði mig á því í morgun að ég átti alveg eftir að lesa eina grein og prófið í fyrramálið! Þakka guði fyrir að lögin eru mjög ítarleg og bjarga miklu fyrir tossa eins og mig. Krossa fingur og vona að það komi ritgerðarspurning um niðurfellingu saksóknar - þá væri miklu bjargað.

Hetjustig dagsins fær fjölskyldan í Svíþjóð og sérstaklega litla prinsessan sem varð þriggja vikna í gær og er alveg að gera frænku sína ótrúlega stolta með hetjuskapnum. Knús og kossar til ykkar.

þriðjudagur, apríl 25, 2006

Lærdómsstemning

Eða þannig! Hef aldrei lent í öðru eins - það er bara ekki séns að ég nenni að læra! Síðustu daga hef ég fundið mér allt annað til að gera sem skyndilega hefur orðið mjög mikilvægt. T.d. er Oddur núna kominn á sumardekkinn (ekki viljum við að hann sé inni í bílageymslu, óhreyfður, í rúman hálfan mánuð í viðbót). Ég er búin að stúdera Danmerkurdæmið endalaust vel, enda ekki seinna vænna, ég er á leiðinni út í lok júlí. Ég hef eldað oftar síðastliðna viku heldur en alla önnina. Ég hef sjaldan verið jafn vel að mér í því sem er að gerast úti í hinum stóra heimi og síðustu viku. Og síðast en ekki síst þá tók ég upp á því að byrja að blogga í miðjum próflestri... Já ég held að stefnan sé tekin á 11 í næsta prófi, sem nota bene verður tekið í KR-heimilinu! Ég myndi mögulega leggja leið mína í KR-heimilið ef til stæði að vefja klósettpappír utanum það eða jafnvel flagga ÍBV fánanum á svæðinu en hef fulla trú á því að það kunni ekki góðri lukku að stýra að þurfa að taka þar 3 próf. Þetta verður stemning.

Það er hins vegar stemning hjá nágranna mínum (þ.e. þeim sem á svalirnar við hliðina á mér) sem er orðinn svolítið gamall og situr úti í sólbaði alla daga þegar sólin lætur sjá sig. Gamli tjúnnar óperuna og sest út með kanaríeyjahandklæðið í sólstólinn og situr sem fastast þar til sólin fer af svölunum. Fyrir vikið er karlinn orðinn svartur en ég sit og skæli því það skín bara sól á mínar svalir í klukkutíma á dag og þá bara á smá part þannig að ég er ennþá með marglyttusyndrómið og sumarið alveg að koma. Já það er sko ekki tekið út með sældinni að vera í próflestri.

fimmtudagur, apríl 20, 2006

Besta afmælisgjöfin

Það verður að viðurkennast að ég átti bara nokkuð góðan afmælisdag. Fékk að fara með Jóhanni að skoða parket og flísar á nýju íbúðina hans (ég veit! það er misjafnt hvað fólki finnst skemmtilegt) og svo fórum við í kaffi til Tótu sem var búin að myndast við að baka afmælisskonsur sem voru náttúrulega alveg að gera sig fyrir verslunarþreytta. Hvítvínsglas með Svönu og gott spjall um kvöldið gerði svo góðan dag enn betri.

Best við daginn í gær var þó að Maja og Gunni eignuðust strák sem er svo heppinn að eiga sama afmælisdag og ég og verður því sérstaklega dekraður af minni hálfu um alla ævi. Innilega til hamingju Maja og Gunni, ég get ekki beðið eftir að fá að sjá prinsinn.

miðvikudagur, apríl 19, 2006

Enn einn afmælisdagurinn

Í dag er ég í fyrsta skipti á ævinni 28 ára. Ekki ýkja merkilegt nema fyrir það að í dag eru líka 10 ár síðan ég hélt upp á afmælið mitt í Mið-Ameríkunni, nánar tiltekið í Guatemala. Nú 10 árum síðar er ég svo alls ekki á þeim stað í lífinu sem ég ætlaði mér að vera á þegar ég stóð í Mið-Ameríku og ákvað að þetta væri aðeins upphafið að öllum þeim ævintýrum sem ég ætlaði að lenda í um ævina. Aðeins upphafið að því að ég myndi leggja allt mitt í að bjarga heiminum. Ég hafði miklar og ákveðnar skoðanir á heiminum sem að mínu mati var í ruglinu og ég ætlaði sko að sjá til þess að það lagaðist. Ég ætlaði alltaf að búa í ferðatöskum og fara á milli fátækra landa í sjálfboðaliðastörf. Þegar ég hugsa tilbaka þá finnst mér svo langt síðan þetta var en samt eins og allt hafi þetta gerst í gær. Í raun held ég að þetta eina ár í lífi mínu hafi haft mest um það að segja hver ég er í dag þó hugmyndirnar væru aðrar þá um hvernig ætti að nálgast takmarkið. Ég gerði mér líka grein fyrir því að það þarf kanski aðeins meira en eina stelpu frá nesinu langa til þess að geta breytt ástandinu í heilu landi en ég lærði líka að það táknar ekki að maður eigi að gefast upp og líta undan.

Þetta blogg ber ekki að skilja sem svo að ég hafi ekki lent í neinum ævintýrum eftir Guatemalaævintýrið en eins og gefur að skilja þá kemur það einhvern veginn alltaf til með að standa uppúr. Ég vonast reyndar til þess að geta bætt í ævintýrabankann næsta haust þegar stefnan verður tekin á Danmörku í lærdóm en þessu tvennu verður þó alls ekki hægt að líkja saman. Þó ég sé spennt fyrir því að komast út fyrir landsteinanna (eitthvað sem hefur ekki gerst í allt of langan tíma) þá hef ég grun um að þetta verði meira svona eins og heima á Íslandi.

Þetta er annars orðið ágætis hlé frá dómalistanum endalausa í Réttarfarinu.

þriðjudagur, apríl 18, 2006

Jæja

Gott að ákveða að prófa að blogga svona í miðjum próflestrinum. Á eftir að sjá hvernig þetta gengur allt saman en núna get ég allavega hætt að hugsa um þetta og farið að læra.