Loksins, loksins! Loksins hef ég frá mörgu skemmtilegu að segja og vonandi að einhverjir hafi þolinmæði til að lesa langlokuna á enda. Mikið búið að gerast í Gullulandi þessa dagana, Finnland, Rússland og Kaupmannahöfn heimsótt og svo komu mamma og pabbi í heimsókn til mín til Árósa.
Helsinki og St. Pétursborg:
Þriðjudagur 24. október:
Dagurinn byrjaði á því að ég þurfti að taka lestina á mjög svo ókristilegum tíma til þess að ná flugi upp úr hádegi. Það væri nú í sjálfu sér ekki mjög merkilegt nema fyrir það að tæplega miðja vegu til Kaupmannahafnar koma upp í lestina 3 ungir drengir klyfjaðir pinklum og setjast í sætin hinum megin við ganginn frá mér séð. Að sjálfsögðu voru þar íslendingar á ferð, enda engir aðrir sem geta troðið jafn miklu í töskurnar þegar halda skal heim. Þó það sé ljótt að hlusta á annarra manna samtöl þegar þeir hinir sömu vita ekki að maður er íslendingur þá hef ég ekkert samviskubit yfir því og þótti bara gaman að heyra hvað íslendingum fer á milli þegar þeir halda að það sé enginn nálægt sem skilur þá ;)
Laufey tók að sjálfsögðu á móti mér í Helsinki og eftir að hafa sett nýtt íslandsmet í að skipta um föt, greiða okkur og mála héldum við í þessa fínu laganemamóttöku í lagadeildinni í Háskólanum í Helsinki. Þar voru eðal veitingar í boði og gott hvítvín, hefðu ekki getað tekið á móti mér með betri hætti ;) Hef reyndar alltaf ætlað að koma því á framfæri við lagadeildina hér í Árósum að svona sé gert í Finnlandi og því hafi þeir vinninginn hvað varðar dekur við skiptinemana sína ;) Eftir móttökuna tók við mjög skemmtilegt en sérstakt kvöld sem endaði með kjötfarsborgara og frönskum.
Miðvikudagur 25. október:
Skoðunarferð um Helsinki með Laufey í fararbroddi. Ótrúlega margt að sjá og Helsinki sannarlega borg sem enginn á að láta fram hjá sér fara. Reyndar rosalega kalt þannig að við skoðuðum ekki allt en meðal þess sem kíkt var á var þinghúsið, National Museum (við nenntum reyndar ekki að fara inn þar sem að í gangi var sýning á hnífum og sveðjum og einhverju álíka spennandi), útivistarsvæði Helsinkibúa, Ólympíuleikvangurinn, óperuhúsið, höfnin og voða falleg kirkja sem ég því miður man ekki hvað heitir. Mexikóskur kvöldmatur kom yl í okkur aftur og svo var haldið heim til Laufeyjar í niðurpakk fyrir Rússlandsferðina.
Fimmtudagur 26. október:
Langt rútuferðalag (reyndar ekkert sértaklega langt á Þórshafnarmælikvarða) með tilheyrandi vegabréfsskoðunum og skemmtilegheitum einkenndi daginn en við komumst á leiðarenda fyrir rest og jafnvel fyrr en reiknað hafði verið með. Hótelið okkar var hið ágætasta og kom sér vel að það tók 10 mínútur (án gríns) að labba frá lyftunni að herberginu okkar og samviskubitið yfir því að dröslast ekki í ræktina algerlega óþarft.
Veitingastaðir með enskum matseðli komu mjög sterkir inn þegar haldið var út að borða en þar sem rússar nota kýrillískt letur upplifði ég mig í fyrsta skipti á ævinni sem ólæsa - mjög spes! Bátssigling á Neva ánni um kvöldið var frábær og gaman að sjá hversu mikill metnaður er lagður í að lýsa upp allar fallegu byggingarnar í borginni. Þegar komið var upp á hótel þótti okkur ekki síður áhugavert að sjá allar háklassa gleðikonurnar sitja í lobbyinu og bíða eftir að einhver hefði þær með sér upp. Fliss einkenndi hópinn sem tók lyftuna - án gleðikvennana - enda ekki allir vissir um hvernig bregðast átti við þessu menningarsjokki.
Föstudagur 27.október:
Menningardagur mikill og tók nokkra daga að meðtaka allt sem fyrir augu bar. Við byrjuðum á Hermitage safninu sem er í Vetrarhöllinni. Þar má sjá verk eftir alla helstu meistarana, Da Vinci, Micaelangelo, Rafael, Rembrant, Renoir, Picasso, Matisse, Cézanne, Gauguin og fleiri og fleiri. Ég hefði getað verið þarna í marga marga daga en við urðum að láta 4 tíma duga í þetta skiptið. Þá var brunað (ef hægt er að tala um 25 km á 2 tímum sem brun) í Katrínarhöllina og hún skoðuð í krók og kima, eða svona næstum. Höllin var nær eyðilögð í síðari heimsstyrjöldinni og gaman að sjá hversu vel hefur tekist til við að endurgera hana að því leyti sem það er búið. Til að toppa daginn var svo haldið á balletsýningu - Fountain of Bakhchisarai - í Mariinski leikhúsinu. Gæsahúðin sem gerði vart við sig strax í byrjun hvarf ekki fyrr en eftir að komið var upp á hótel.
Laugardagur 28.október:
City tour á dagskrá í byrjun dags. Kirkjur og minnismerki á meðal þess sem skoðað var, misnákvæmlega þó. Fórum inn í Saint Peter and Saint Paul cathedral þar sem grafir allra keisara og keisaraynja Rússlands er að finna. Skoðuðum að sjálfsögðu hvar Romanov fjölskyldan hvílir en "merkilegasta" gröfin, gröf Dagmarar danaprinsessu, sem færð var til St. Pétursborgar á dögunum var girt af þar sem verið var að leggja lokahönd á verkið og því ekki hægt að skoða hana. Herskipið Aurora var svo næst á dagskrá, þótti það nú bara svona passlega lítið merkilegt miðað við allt annað sem við vorum búnar að skoða. Skoðunarferðinni lauk svo með Savior on the Spilled Blood Church sem er ótrúlega falleg kirkja sem reist var í minningu Alexanders II Rússlandskeisara, akkúrat á þeim stað þar sem hann var myrtur. Mósaíkmyndirnar í kirkjunni er hreint út sagt stórkostlegar og að mínu mati eitthvað það allra fallegasta lsem við skoðuðum í ferðinni.
Eftir Skoðunarferðina var haldið á minjagripamarkaðinn þar sem Laufey fór hreinlega á kostum í prúttinu og þolinmæðinni þar sem Guðlaugu gekk ekki allt of vel að finna Matryoshku (við köllum þær nú reyndar babúskur í minni sveit) sem hæfði heimili hennar og voru margir hringir labbaðir um markaðinn í leitinni þar til sú rétta fannst. Prófuðum rússneskt kaffihús og létum ekki okkar eftir liggja í að prófa eitthvað rússneskt af matseðlinum.
Um kvöldið var haldið í rússneskan kvöldverð á veitingahúsinu Red Matryoshka. Mjög góð súpa í forrétt og svo kjöt í brúnni sósu og kartöflustappa í aðalrétt, öllu skolað niður að rússneskum sið - þ.e.a.s. með vodka. Lét nú reyndar ekki hafa mig út í svoleiðis vitleysu, enda ekkert fyrir þessar fylleríssamkomur og áfenga drykki ;) Við Laufey héldum okkur því bara við bjórinn. "Live" rússnesk þjóðlagatónlist vakti mikla lukku og endaði með því að við stöllur keyptum eitthvað voða fínt hljóðfæri sem ég hef ekki hugmynd um hvað heitir en gefur frá sér mjög svo góðan hávaða.
Metro Nightclub var næsta stopp og mjög sérstök upplifun. Þessi líka fíni næturklúbbur á 3 hæðum, á fyrstu er Rússnesk danstónlist, á annarri er karókí og hip hop og á þriðju er eins og lítill bíósalur til að horfa á klámmyndir og svo dansgólf þar sem olíubornir karlmenn á g-streng dansa uppi á svölum! Aldurstakmarkið inn er 15 eða 16 ára þannig að þetta líktist helst skólaballi og hækkuðum við meðalaldurinn all svakalega. Mér fannst reyndar kostur að barirnir voru ekki á miðju dansgólfinu heldur aðeins fyrir utan þannig að fólk gat setið og kjaftað, þ.e.a.s. ef maður fattaði reglurnar um að maður þarf að bíða eftir borði þangað til röðin kemur að manni - sæi það í anda heima á Íslandi ;) Fólk var heldur ekkert að reykja eða að drekka á dansgólfinu sem aftur leiddi til þess að hægt var að dansa en ekki tipla á glerbrotum og fötin komu öll heil heim. Þetta var mjög svo áhugaverð þjóðfélagsrýni en ekki skemmtilegasti staður sem ég hef komið á. Unofficial taxi tekinn heim á mjög svo skikkanlegum tíma og þá kom sér vel að hafa Laufeyju í samningaviðræðunum um verð.
Sunnudagur 29. október:
Komið að því að halda heim á leið. Við stoppuðum við Mannerheim línuna við þorpið Summa og skoðuðum byrgi frá því Rússar og Finnar áttu í stríði um landamærin milli landana. Stríðið varð Rússum til mikillar skammar sökum mannfalls en lyktaði engu að síður með því að landamæri landanna eru nú 200 km frá St. Pétursborg en voru áður um 50 km frá.
Súpermarkaðsstopp til vodkakaupa fyrir áhugasama var svo það síðasta sem gert var áður en haldið var aftur yfir landamærin.
Mánudagur 30. október:
Einkenndist af rólegheitum og smá lærdómi (ekki of miklum þó). Við kíktum aðeins í bæinn í nokkrar búðir en ekkert keypt (mjög léleg afköst). Laufey töfraði svo fram dýrindis kjúklingapastarétt sem voru gerð góð skil ásamt góða hvítvíninu. Jóhanna, tutorinn hennar Laufeyjar, stóð svo fyrir Sex and the City maraþoni ásamt Cosmopolitan um kvöldið.
Þetta var alveg frábær ferð og ég er svo ánægð með að mér hafi boðist að fara með. Takk Laufey fyrir frábæra viku - Mi casa es tu casa ef þig langar einhvern tíman að koma til Árósa :)
Kaupmannahöfn og Árósar
Það kom að því að settið brygði undir sig betri fætinum og kæmi að heimsækja frumburðinn í Danmörku. Að sjálfsögðu skall á óveður og máttu þessar elskur bíða í 12 tíma á Keflavíkurflugvelli og millilenda í Glasgow áður en þau komust til Köben. Ég nýtti daginn hins vegar í að fara á Strikið - það verður nú einhver að sjá til þess að búðirnar fari ekki á hausinn! Ótrúlega gott að sjá þau loksins og áttum við alveg frábæra viku sem verður vonandi endurtekin í vor.
Pabbi varð fimmtugur mánudaginn 6. nóvember og fórum við með hann í mini skoðunarferð um borgina, hádegismatur á Nýhöfn, Amalienborg, St. Alban's Church og Litla hafmeyjan meðal þess sem við sáum. Fórum svo í glæsikvöldverð á Kong Hans Kælder og fengum þar einhvern þann allra besta mat sem ég hef fengið á veitingahúsi um ævina. Staðurinn hefur 1 Michelin stjörnu og vel að henni kominn.
Héldum heim til Árósa á þriðjudeginum, eftir smá stopp í nokkrum búðum ;) Tókum því svo bara rólega um kvöldið enda allir frekar ferðaþreyttir.
Latínuhverfið kom sterkt inn í bæjarskoðunarferðinni, enda einstaklega skemmtilegt hverfi. Við röltum mikið um bæinn án þess að vera með niðurnjörfaða dagskrá. Fengum steik á Hereford á föstudagskvöldið sem var alveg dásamlega góð og góð tilbreyting frá kjúklingnum ;) Kíktum svo á írska pöbbinn, Tir Na Nóg, en þar var lifandi tónlist og mikil stemning.
Heimsóttum Den gamle by á laugardeginum. Hafði ekki gert mér í hugarlund að það væri svona gaman að koma þangað. Ótrúlega mikið af gömlum fallegum húsum og sýningar inni í þeim sem sýna gamla tíma og flestar ótrúlega flottar. Búið var að koma upp jólaskreytingum, þ.e. setja upp jólatré í mörg húsin og skreyta húsin að innan. Eitt húsana er nýtt í almennar sýningar og var þar m.a. hægt að sjá sýningu á skýrnarkjólum frá um 1700 og til 2006, sýningu um jól í manna minnum og sýningu á gömlum jóladagatölum. Vakti upp mikla nostalgíu hjá mömmu og pabba að sjá þetta allt saman - ég mundi reyndar ekki eftir miklu enda svo mikill unglingur ennþá ;)
Settið fór svo heim á sunnudaginn, komst með flugi alla leið til KEF án teljandi vandræða og sitja núna veðurtept í Reykjavík - já það er sko ekki tekið út með sældinni að eiga börn í Danmörkinni!
Nú er svo komið að því að opna þarf bækurnar og hefja undirbúning fyrir próf - til að koma í veg fyrir of mikinn lestur þá keypti ég striga og málningu og er byrjuð að mála! Var mjög skrýtið fyrst enda ekki tekið upp pensil síðan í VMA en var nokkuð fljót að komast í gang. Vonandi að útkoman verði upphengjanleg ;)
Jóhann Hafberg og Anna María eru búin að bóka ferð út um áramótin. Hlakka ekkert smá til að sjá þau :) Við Áróra erum að plana "munaðarleysingjajól" en það verður voðalega notalegt að fá þau Jóhann og Önnu Maríu til að fagna áramótunum með okkur. Við Jóhann ætlum svo yfir til Svíþjóðar til Jóhanns og Önnu eftir áramótin, aðeins að fá að knúsa þau og spilla börnunum :)
Held ég láti þetta gott heita í bili, tekur allavega viku að komast í gegnum lesturinn ;) Búin að setja inn myndir frá Helsinki og Pétursborg, set rest inn á næstu dögum.
Hasta la próxima!